17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2376)

133. mál, Fiskiðja ríkisins

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft mál þetta til athugunar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Leggja 6 nm. til, að frv. verði fellt, en einn nm., hv. 4. þm. Austf., leggur til, að frv. verði samþ.

Það má segja, að frv. þetta sé tvíþætt. Annars vegar miðar það að því, að hin svonefnda Fiskiðja ríkisins taki við niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði og reki hana, en hins vegar er gert ráð fyrir, að þetta ríkisfyrirtæki hafi forustu um tilraunastarfsemi við frystingu, niðursuðu, niðurlagningu og hvers konar fullvinnslu matvæla úr síld og öðrum fisktegundum og byggi síðan fleiri niðurlagningarverksmiðjur.

Að því er fyrra atriðið varðar, þ.e.a.s. rekstur niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði, þá er þess að geta, að frá því hefur verið greint, að unnið sé nú að því að koma nýskipan á rekstur þess fyrirtækis. Er ætlunin að fá því sérstaka stjórn og skilja fjárhag þess frá fjárhag síldarverksmiðja ríkisins. Er frv. um þetta efni væntanlegt nú alveg á næstunni, eins og hæstv. forsrh. hefur greint frá hér í d. Frv. þetta er því óþarft að því er þessa hlið málsins varðar.

Rekstur niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði hefur að undanförnu ekki verið með þeim hætti, sem helzt yrði á kosið og hefur þar margt valdið. Erfitt hefur verið að afla nægilega góðs hráefnis, markaðir fyrir framleiðsluvörurnar hafa verið takmarkaðir og fjárhagsvandræði Síldarverksmiðja ríkisins hafa vafalaust valdið því, að ekki hefur verið eins traustur rekstur þessa fyrirtækis og skyldi og ýmiss konar vandræði varðandi aukna fjárfestingu. Ríkisstj. hefur nú aðstoðað við útvegun á allmiklu hráefni, þannig að rekstur verksmiðjunnar er tryggður þetta ár og hófst starfræksla hennar nú fyrir skömmu eftir alllanga töf. Góðar horfur eru líka á því, að unnt verði nú að selja framleiðsluvörur þessa fyrirtækis við viðunandi verði, þannig að ekki ætti af þeim sökum að þurfa að koma til stöðvunar. Þegar endurskipulagningu þessa fyrirtækis er lokið, á það að hafa yfir að ráða sæmilegum fjárráðum og má búast við því, að fyrirtækið verði þá rekið af meiri þrótti, en hingað til hefur orðið raunin.

Við niðurlagningarverksmiðjuna á Siglufirði starfa nú 70—80 manns og sést af því, hve gífurlega þýðingu þetta fyrirtæki hefur fyrir atvinnulífið þar á staðnum, en eins og kunnugt er, hefur atvinnuástand á Siglufirði ekki verið eins gott og skyldi. Talið er, að með tiltölulega litlum kostnaði mætti auka framleiðslu verksmiðjunnar verulega, ef nægilegt hráefni væri fyrir hendi og öruggir markaðir, þannig að e.t.v. gætu starfað á annað hundrað manns við þetta fyrirtæki. Eðlilegasta lausn þessa máls er sú, sem iðnrn. hefur unnið að og miklu heppilegri, en frv. það, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.

Um það atriði málsins, að Fiskiðja ríkisins skuli hafa forustu um hvers kyns tilraunastarfsemi til vinnslu fiskafurða, er það að segja, að ekki verður á það fallizt, að með þeim hætti verði þeim málum betur fyrir komið, en nú er. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins rekur, sem kunnugt er, tilraunaverksmiðju bæði í frystingu, niðursuðu og mjölvinnslu og hefur með öðrum hætti á hendi rannsóknastörf í þágu fiskiðnaðarins. Ólíklegt er, að það gæti orðið til bóta að fela nýrri stofnun að hafa forustu í þessum málum, jafnvel þótt hún kynni að hafa eitthvert samstarf við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Miklu eðlilegra er að efla þá stofnun, sem fyrir er og vafalaust mætti stórauka starfsemi hennar. Raunar hafa verið uppi um það hugmyndir, að komið yrði upp nokkurs konar útibúum frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. t.d. hefur verið rætt um, að slík útibú gætu risið í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Þá er mikið rætt um að koma á fót fiskiðnskóla og eðlilegt væri, að nemendur þess skóla ynnu að einhverju leyti í Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eða þeim útibúum, sem hún kynni að koma á fót. Mín skoðun er sú, að eðlilegt væri, að samtök frystiiðnaðarins, eins og t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, tækju virkari þátt í rannsóknastarfsemi en verið hefur og miklu væri það líklegra til árangurs, en að einhver ríkisfiskiðja kæmi til skjalanna.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að stjórn þessa ríkisfyrirtækis yrði skipuð 7 mönnum og 7 til vara, sem allir væru kosnir af Alþ. Þannig er gert ráð fyrir hreinni pólitískri stjórn þessa ríkisfyrirtækis og er það vafalaust í samræmi við skoðanir flm. þess, sem nú flytur frv. og eins þess, sem upphaflega flutti það, á því, hvernig haga eigi stjórn atvinnufyrirtækja — þ.e.a.s. að hagkvæmnis sjónarmið eigi ekki að ráða, heldur pólitísk sjónarmið. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur hins vegar þriggja manna stjórn, þar sem einn er tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, einn er skipaður af ráðh. án tilnefningar, en hinn þriðji er tilnefndur af ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunarinnar, en í henni eiga sæti fulltrúar allra samtaka fiskiðnaðarins og Alþýðusambands Íslands. Það er vissulega ástæða til þess að ætla, að sú stofnun sé líklegri til að hafa forustu í þessum málum, en ríkisfyrirtæki á borð við það, sem hér er flutt frv. um.

Að öllu þessu athuguðu er lagt til, að frv. verði fellt.