22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þessi brbl. hafi orðið til þess að leysa verkfall farmanna, sem var hér á s.l. sumri. Ég held miklu heldur, að þessi lög hafi orðið til þess, að það kom til verkfalls á milli atvinnurekenda og farmanna. Og þetta byggist á því, að samkv. venju vissu atvinnurekendur það og áttu von á því, að hæstv. ráðh. mundi grípa inn í með brbl. og þess vegna fóru þeir sér mjög gætilega í því að bjóða fram nokkrar hækkanir. Eins og hæstv. ráðh. sagði, voru atvinnurekendur ekki búnir að bjóða nema 24% hækkun, þegar brbl. voru sett og þeir vissu það vel og allir aðrir, að það mundi aldrei semjast á þeim grundvelli, enda sömdu þeir síðar um rúmlega 50% hækkun og það sýnir bezt, að þessi von atvinnurekenda um, að það yrðu sett brbl. í deilunni, varð til þess, að verkfallið stóð lengi. Þá samdist ekki strax, en nú í haust, þegar komin var deila á milli farmanna og atvinnurekenda á þann veg, að ljóst var, að ríkisstj. gæti ekki gripið inn í deiluna með brbl., vegna þess að farmennirnir voru búnir að segja upp, þá samdist á örfáum dögum. Og nákvæmlega það sama hefði gerzt á s.l. sumri, ef atvinnurekendur hefðu ekki treyst á það, að ríkisstj. mundi grípa inn í deiluna með brbl. og gerðardómi. Þá hefði samizt strax á fáum dögum, alveg eins og samdist nú í haust, þegar það lá fyrir, að ríkisstj. gat ekki lengur gripið inn í delluna með brbl. og gerðardómi. Þess vegna fullyrði ég það alveg hiklaust, að þetta verkfall, sem var á s.l. sumri á kaupskipunum, hefði sannarlega ekkert orðið og samizt strax, alveg eins og gerðist nú í haust, ef atvinnurekendur, hefðu ekki treyst á það samkv. venju, að ríkisstj. mundi grípa inn í með gerðardómslögum. Þess vegna er það algerlega rangt, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að þessi lög hefðu orðið til þess að leysa nokkuð. Þau urðu til þess að skapa deilu, sem annars hefði leyst miklu fyrr og miklu betur og gangur málsins allur orðið á annan veg en varð, vegna þess að ríkisstj. greip inn í á þennan hátt.

Mér finnst rétt að nota þetta tækifæri til að minna á það, að það á að vera aðalstefna hins opinbera í vinnudeilum að vinna að sáttum, en hafa ekki afskipti af þeim á annan hátt. Það var í samræmi við þessa stefnu, sem framsóknarmenn beittu sér fyrir því á sínum tíma , að sett voru l. um sáttasemjara í vinnudeilum, og síðar, að sett var vinnulöggjöfin 1938.Það er tvímælalaust, að þessi lög bæði, eða framkvæmd þeirra, hafa átt mikinn þátt í því, að samkomulag hefur náðst í vinnudeilum miklu fyrr en ella. Hitt er það, að þetta fyrirkomulag eða þessi löggjöf er að ýmsu leyti orðin úrelt nú eða samrýmist ekki nýjum tíma eða breyttum aðstæðum. Þess vegna þarf að koma sú breyting til, að þær sáttaumleitanir, sem hið opinbera hefur forgöngu um, verði miklu víðtækari og það sé unnið að því að undirbúa það að jafna deilur, áður en verkföll séu skollin á.

Það var í samræmi við þessa skoðun eða þessa hugsun, sem framsóknarmenn höfðu forustu um það hér á þingi 1954, fyrir 16 árum síðan, að komið yrði á sérstakri samstarfsnefnd atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna, sem ynni að því að fylgjast stöðugt með þessum málum, svo að fyrir lægju nægar upplýsingar um stöðu atvinnuveganna og hag launþega, þegar til þess kæmi að endurnýja samninga og á þann hátt yrði miklu auðveldara að leysa þessi mál en ella. Því miður fór það svo, að þessi samstarfsnefnd komst að vísu á. Það voru allir flokkar hér á þingi þá sammála um það, að þetta fyrirkomulag yrði tekið upp, en af einhverjum ástæðum lagðist þessi tilhögun strax niður, þannig að þessi samstarfsnefnd sofnaði og hefur ekki verið endurvakin aftur. En það er tvímælalaust mikil nauðsyn í sambandi við vinnudeilumálin, að unnið verði að því að koma einhverri slíkri skipan á, að stöðugt samráð eigi sér stað milli atvinnurekenda og launþega um það, hver staða atvinnuveganna sé og um það, hver kjör launþega séu og þess vegna liggi fyrir nokkuð glöggar og greinargóðar upplýsingar, þegar að því kemur að þarf að endurnýja samninga. Í því sambandi er það áreiðanlega mjög mikilvægt, að aðilar, bæði launþegar annars vegar og vinnuveitendur hins vegar, hafi sínar eigin hagstofnanir, sem afli upplýsinga um þau atriði, sem þessa samninga snerti, þannig að sem greina beztar upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma .

Nú er fullkomlega óþolandi ástand í þessum efnum. Að vísu er hér stofnun, sem talið er, að fylgist með þessum málum og geri athugun á þeim, og ríkisstj. hefur sér til ráðuneytis og lætur leggja fram skýrslu á ýmsum tímum um, hvernig ástatt er. En það hefur sýnt sig hvað eftir annað, að þær upplýsingar, sem hún hefur lagt fram, hafa ekki staðizt, heldur reynzt alrangar og þess vegna er svo komið, að menn eru fyrir löngu hættir að leggja nokkuð upp úr því, sem frá henni kemur um þessi mál. Þetta þarf að breytast og það verður sennilega bezt gert á þann veg, að launþegar sjálfir eignist sína eigin hagstofnun o,g atvinnurekendur geta þá komið sér upp hliðstæðri stofnun líka og þær beri svo ráð sín saman og afli sem greina beztra upplýsinga um þessi mál.

Eins og ég sagði áðan á það að vera hin almenna regla í þessum efnum, að hið opinbera hafi ekki önnur afskipti af vinnudeilum og verkföllum en þau, að vinna að því að koma á sáttum. Hins vegar getur undir alveg sérstökum kringumstæðum verið þannig ástatt, að það sé óhjákvæmilegt, að ríkisstj. og Alþ. grípi inn í og reyni að jafna deilur með einhvers konar, lögþvingun, gerðardómi eða á annan hátt. Ég játa það fullkomlega, að þær aðstæður geta verið fyrir hendi í þjóðfélaginu, að þetta sé talið óhjákvæmilegt, en það á að heyra til hreinna undantekninga, þegar slíkt er gert og það á ekki að gera það, nema það liggi alveg ljóst fyrir, að þjóðarhagsmunir séu í veði, að slíkt verði gert. Þess vegna hefur þetta verið gert í örfá skipti á þeim tíma , sem minn flokkur hefur farið með völd. En það á að gera þetta með mjög mikilli gætni. Það, sem mér finnst í sambandi við þessi mál, að ég geti ásakað núverandi ríkisstj. sérstaklega fyrir, er það, að hún virðist hafa haft alveg sérstaka ástríðu til að grípa inn í, þegar flugmenn og farmenn hafa átt í vinnudeilum. Í hvaða tilgangi það hefur verið gert, skal ég ekki segja. Hvort það hefur verið eins konar æfing eða undirbúningur að því að gera þessa aðferð almennari eða ekki, skal ég ekki heldur segja, en á undanförnum árum hefur varla komið fyrir, að hér hafi staðið yfir kaupdeila við flugmenn eða farmenn, án þess að ríkisstj. hafi grípið þar inn í með gerðardómslögum eða brbl. eins og þeim, sem um er að ræða hér.

Það hefur reynzt hér eins og oft áður, að svo lengi má brýna deigt járn, að bíti um síðir. Það er búið að beita þessum aðferðum svo lengi við – flugmenn og farmenn, að þeir hafa gripið til sérstakra ráða til þess að brjóta þessa vinnuaðferð niður.. Menn muna það áreiðanlega enn, hvaða — aðferð flugmenn höfðu á síðasta ári, þegar sett voru gerðardómslög til þess að leysa deiluna milli þeirra og atvinnurekenda þá. Flugmenn voru þá búnir að boða tveggja daga verkfall til þess að ýta á eftir, sínum kröfum, árétta þær og gerðardómslögin voru sett til að koma í veg fyrir þetta tveggja daga verkfall. Gerðardómslögin komu og það má segja, að flugmenn hafi ekki beinlínis óhlýðnazt þeim, en það gerðist hins vegar, af hvaða ástæðum, sem það var, að þeir veiktust undantekningarlaust allir, þegar l. áttu að ganga í gildi og þess vegna stöðvaðist flugið þessa tvo daga, sem það hefði stöðvazt hvort eð var samkv. því verkfalli, sem búið var að boða. Niðurstaðan varð sú, að þrátt fyrir það, að gerðardómur kæmi og felldi sinn úrskurð í þessu máli, þá sáu flugfélögin ekki annað vænna, en að gera sérsamninga við flugmennina næstum strax,fyrst á bak við tjöldin og svo opinberlega og nú eru atvinnurekendur í fluginu búnir að gera sér grein fyrir því, að það þýðir ekki lengur að treysta á þessa gerðardómsleið, sem ríkisstj. hefur farið í þessum málum — að það sé hægt að leysa deilur við flugmennina eða þá, sem við flugið vinna, með gerðardómum — heldum hafa þeir nú farið inn á þá braut, t.d. Loftleiðir og ég hygg Flugfélagið líka, að flugfélögin eru búin að semja við sína starfsmenn til þriggja ára og leysa sig þannig undan því, að ríkisstj. sé með stöðug afskipti eins og gerðardama í þessum málum.

Það, sem farmennirnir gerðu í sumar, var ekki ósvipað þeim aðferðum, sem flugmennirnir höfðu til að brjóta gerðardóminn niður þá. Þeir, höfðu að vísu ekki þá aðferð að veikjast, en þeir sögðu upp samningum með löglegum fyrirvara til þess að geta svo tekið málið upp á þeim grundvelli, þegar uppsagnirnar voru komnar til fullra framkvæmda. Þegar atvinnurekendur horfðust í augu við það, að það væri ekki hægt að beita gerðardómi og brbl. í samskiptum við farmennina, þá sömdu þeir næstum strax um helmingi hærra heldur en þeir voru búnir að bjóða, þegar gerðardómslögin voru sett á s.l. sumri. Og það sýnir m. a., að ef atvinnurekendur og farmenn hefðu fengið að semja á s.l. sumri án afskipta ríkisstj., þá hefðu þeir náð samkomulagi svo að segja strax alveg eins og nú fyrir nokkrum dögum, þegar samið var undir þeim kringumstæðum, að útilokað var, að ríkisstj. gæti gripið inn í deiluna.

Ég vil láta það koma fram í sambandi við þetta, að ég tel, að ríkisstj. hafi farið inn á mjög hættulega braut með því að grípa stöðugt til gerðardóma í tíma og ótíma, þegar staðið hafa yfir vinnudeilur eða kjaradeilur flugmanna og farmanna. Þá hefur hún veifað þessu vopni undir þeim kringumstæðum, að ekki átti að beita því. Og það hefur orðið til þess, að ef einhvern tíma þarf að beita þessu vopni undir eðlilegum kringumstæðum í framtíðinni, þá verður það miklu erfiðara vegna þess, að undir þessum kringumstæðum hefur þessu vopni verið beitt í ótíma. Ég held, að það, sem megi læra af þessum deilum, ríkisstj. við flugmenn og farmenn, sé það, að það verði að beita gerðardómsaðferðinni með mjög mikilli gætni og hið opinbera eigi að hyggja á það að vinna að lausn vinnudeilna og kjaradeilna með allt öðrum hætti heldur en að grípa til gerðardómsaðferðarinnar. Það á fyrst og fremst að gera það með því að styrkja sáttaleiðina frá því sem nú er og á þann hátt, sem ég hef minnzt hér á, að aðilar á vinnumarkaðinum eignist sjálfir, sínar eigin hagstofnanir og geti þess vegna haft sem gleggstar upplýsingar um þessi mál, svo að síður þurfi um slík atriði að deila, þegar verið er að semja um kaup og kjör og það þarf að gera með því, að það sé komið upp fastri samstarfsnefnd milli atvinnurekenda og verkamanna eða launþega, sem ræðist ekki aðeins við, þegar verkföll eru skollin á, heldur hafi stöðugt samráð sín í milli og þannig sé búið að undirbúa gerð kaupsamninga, þegar til þess kemur, að þarf að gera þá.

Ég tel, að það skipti litlu máli, hvort þetta frv. er fellt núna strax eða það fer til n. Mér sýnist nú, að samkv. brbl. sjálfum séu þau nú þegar úr gildi fallin, það hefði ekki verið þörf á að leggja þau fyrir þingið, því að það segir svo í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Lög þessi gilda til 31. desember 1970, nema nýir samningar hafi áður verið gerðir milli farskipaeigenda og Stýrimannafélags Íslands.“ Nú er búið að gera nýja samninga, og þess vegna sýnist mér, að þessi lög séu raunverulega þegar fallin úr gildi og hafi þess vegna verið raunverulega ófært annað, en leggja þau bara fram hér á þinginu. En hvor aðferðin, sem heldur er höfð, að þau séu felld nú við 1. umr. ellegar þau séu svæfð í n., eða látin sofna í n., finnst mér ekki neinu máli skipta.

Það, sem ég vil svo segja að síðustu, er, að mér finnst þessi lög vera til viðvörunar um það, að til gerðardóma og brbl. á ekki að grípa nema þegar alveg sérstök nauðsyn er til þess, en hún var ekki til hér, heldur urðu l. miklu frekar til þess að skapa og valda deilum, sem hefðu sennilega engar orðið, ef atvinnurekendur hefðu ekki átt von á því, að ríkisstj. mundi fara inn á þessa braut.