25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2687)

15. mál, námskostnaðarsjóður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. menntmn. og hæstv. menntmrh. hafa vakið athygli á því, að frá minni hl. menntmn. hafi komið fram brtt. við það frv., sem upphaf1ega lá fyrir og tel ég, að með þeirri brtt., hafi eðli málsins verið breytt mjög verulega. Mér þykir rétt að segja um þetta nokkur orð, vegna þess að þessi brtt. er frá mér komin. Ég bar það upp við hv. alþm. Sigurvin Einarsson og Eystein Jónsson, hvort þeir gætu ekki fallizt á að breyta frv. á þá 1und, að hlutverk Námskostnaðansjóðs yrði ekki aðeins það að veita námsstyrki nemendum í skólum .landsins, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum, meðan á námi stendur, heldur yrði þar bætt við, að þeir nemendur, sem eiga við erfiðar fjárhagsaðstæður að búa af öðrum ástæðum, ættu einnig rétt á framlögum úr þessum sjóði. Þessir tveir hv. þm. féllust á þetta sjónarmið og við flytjum þessa till. sameiginlega. Hins vegar taldi ég það mikið „prinsipmál“, að þetta atriði yrði fellt inn í frv. einnig. Það er grundvallaratriði í lýðræði á Íslandi að tryggja öllum jafnan rétt til náms. Það eru margar aðstæður, sem torvelda það, að hægt sé að tryggja mönnum þennan rétt. Það er þetta ástand, sem menn þekkja, að fjölmargir nemendur verða að fara langar leiðir brott frá heimilum sínum til þess að stunda skóla, en það er einnig þannig ástatt í okkar þjóðfélagi, að nemendur, sem búa í nágrenni við skólann, hafi ekki alltaf efni á að stunda þar nám.

Ég hef nokkrum sinnum spurt um það hér á þingi og raunar einnig í menntann., hvort ekki hafi verið framkvæmd einhver könnun á því, hvernig aðstæður stúdenta eru, þ.e.a.s. úr hvaða stétt stúdentinn er kominn. Mér hefur skilizt, að einhver gögn um þetta muni vera til í menntmrn., en mér hefur ekki tekizt að fá neina vitneskju um þetta. Samt hygg ég, að þetta mundi koma í ljós, ef þetta væri kannað gaumgæfilega. En því fer mjög fjarri, að t.d. Reykvíkingar hafi raunverulegt jafnrétti til náms í menntaskólum hér af þessum ástæðum, að það er stór hópur af fjölskyldum, þar sem svo er ástatt fjárhagslega, að þeir hafa ekki efni á, að ungt fólk geti stundað nám, eftir að skyldunámi lýkur. Það verður auðvitað að leiðrétta þetta misrétti engu síður en það misrétti, sem stafar af því, að ýmsir búa mjög fjarri þeim skólum, sem börn eða unglingar verða að sækja.

Ég skal segja það hreinskilnislega, að ég tel ekki, að þetta frv. til l. um Námskostnaðarsjóð leysi þann mikla vanda, sem við okkur blasir. Ég tel ekki, að það gangi of langt, eins og hæstv. ríkisstj. eða þeir flokkar, sem hana styðja, virðast ætla, heldur að það gangi til muna of skammt. Ég hef ekki trú á því, að þó að þetta frv. yrði samþ., mundi það leysa þann stóra vanda, sem hér er við að eiga. Hann er miklu stærri en svo. Engu að síður væri þetta ákaflega mikilvægt skref og mér finnst það furðumikið fálæti hjá stjórnarflokkunum að afgreiða þetta mál algerlega á neikvæðan hátt án þess að sýna nokkra tilburði til þess að koma ti1 móts við sjónanmið flm.

Ég vil minna á það, að fyrir nokkrum vikum hafnaði meiri hl. þessarar d. frv., sem ég hafði flutt ásamt hv. alþm. Þórarni Þórarinssyni um framlög í Lánasjóð ísl. námsmanna. Það frv. var einvörðungu flutt til þess að Alþ. staðfesti stefnu, sem hæstv. menntmrh. hafði gert grein fyrir hér á þingi, þ.e.a.s. að auka þennan sjóð svo á þremur árum, að hann næði upphaflegu markmiði sínu. Hæstv. ráðh. hafði sagt, að þetta væri stefna ríkisstj., en engu að síður var því hafnað, að þetta yrði fellt hér í lög og meðal þeirra, sem höfnuðu því, var hæstv. ráðh. sjálfur. En aðalröksemdin, sem þá kom fram frá frsm. menntmn., var sú, að þeir, sem fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna, væru þrátt fyrir allt miklu betur settir en ýmsir aðrir, sem ekki hefðu aðgang að þeim sjóði. Og hann minntist á þá nemendur, sem væru í námi milli skyldunámsstig síns og háskólastigsins. Hann taldi, að það væri ekki hægt að leggja fram meira fé í þessu skyni vegna þess, að þeir væru að hjálpa þessum mönnum. En núna örskömmu síðar koma þessir sömu menn og hafna því, að nokkuð nýtt sé gert til stuðnings við þetta fólk. Þetta eru ekki heilindi. Það er ósköp auðvelt að standa hér og mæla fögur og bjartnæm orð. En þegar á reynir, þá kemur í ljós, hvað er á bak við orðin og því miður er það ekki neitt í þessu dæmi.

Ég hygg, að það sé nærri því áratugur, sem þetta mál hefur verið rætt hér á þingi — á hverju einasta þingi - og þar hafa þm. úr dreifbýlinn haft forustu og lagt sérstaka áherzlu á aðstöðumun vegna búsetu. Það eina, sem komið hefur verið til móts við þessi sjónarmið, er upphæð, sem tvívegis hefur verið á fjárl., fyrst 10 millj. kr. og nú 15 millj. Við heyrðum hæstv. menntmrh. lýsa því áðan, hversu erfitt verk hefði verið að úthluta þessum 10 millj. af nokkru skynsamlegu viti og það skil ég ákaflega vel. Til þess að úthluta slíkri upphæð, þannig að til gagns mætti koma, þyrfti hæstv. menntmrh. að búa yfir svipaðri kraftaverkaorku og Jesús Kristur, því að þessi upphæð er svo fjarri allri þeirri nauðsyn, sem við blasir á þessu sviði. En þó að lítið hafi fengizt gert í þessu máli hér á Íslandi, hefur verið mikið í þessu gert í nágrannalöndunum, eins og raunar hefur verið minnst á hér áður í ræðu Ingvars Gíslasonar hv. alþm. Ég hef kynnt mér dálítið, hvernig þetta kerfi er, t.d. í Svíþjóð. Þar er um að ræða aðstoð við námsmenn, sem skipt er í tvo þætti. Annars vegar er aðstoð við námsmenn undir 20 ára aldri, þ.e.a.s. námsmenn á menntaskólastigi eða þar undir. Þar er um að ræða menntaskóla og aðra skóla af ýmsu tagi, sem koma á eftir skyldunámsstiginu. Síðan þar fyrir ofan, er um að ræða aðstoð á háskólastigi, en munurinn á þessum tveimur þáttum er sá, að undir 20 ára aldri er fyrst og fremst um styrki að ræða, en eftir 20 ára aldur eykst hlutfall lánanna.

Það kom fram hér hjá hæstv. ráðh. áðan, að sú hugmynd væri uppi, að barnalífeyrir og fjölskyldubætur héldu áfram, þegar ungt fólk væri við nám. Þetta kerfi er búið að vera í Svíþjóð frá því 1965. Það er haldið áfram að greiða fjölskyldubætur með börnum, sem stunda nám í menntaskólum eða öðrum hliðstæðum skólum og raunar upp á háskólastig einnig. Og þessa aðstoð fá allir. Þar er um að ræða 100 sænskar kr. á mánuði, eða um 1.700 kr. íslenzkar á mánuði. Auk þess eru í skólum á þessu stigi ókeypis bækur, og þar er um verulega upphæð að ræða, eins og menn vita. Og það er einnig mjög algengt í skólum í Svíþjóð, að þar er ein máltíð á dag ókeypis. Auk þess er í Svíþjóð lagður fram ferðakostnaður og hann er þannig, að hann á að geta staðið undir öllum ferðalögum þeirra nemenda, sem verða að sækja nám utan heimabyggðar sinnar. Það eru settar um þetta sérstakar reglur miðað við það, hvað fjarlægðin er mikil, allt niður í 6 km. Auk þess er um að ræða sérstaka styrki, þar sem farið er eftir efnahag aðstandenda námsmanna. Það eru um þetta flóknar reglur, sem ég vil ekki fara að rekja hér, en þar er aðalreglan sú, að þeir, sem fá þennan rétt, fá 100 sænskar kr. aukalega á mánuði, eða 1.700 íslenzkar kr. Og á árinu 1969–1970 voru það 197 þús. nemendur á þessu stigi, menntaskólastigi eða hliðstæðu stigi, sem fengu þennan styrk, og nam upphæðin yfir 2.000 millj. ísl. kr. Þarna er um að ræða mjög umfangsmikla styrktarstarfsemi, eins og menn sjá. Auk þess er svo greiddur sérstakur dvalarkostnaður fyrir þá nemendur, sem verða að dveljast fjarri heimilum sínum og það er reiknað með því, að sá dvalarkostnaður hrökkvi bæði fyrir mat og húsnæði. Þar er um að ræða 125 kr. sænskar á hvern námsmánuð, eða um 2.400 ísl. kr. Við þetta bætast svo sérstakir styrkir, sem veittir eru, ef um mjög erfiðar fjárhagsaðstæður er að ræða og þeir geta komizt upp í 75 sænskar kr. á mánuði, eða 1.275 kr. Þessa sérstöku styrki fengu á árinu 1968—1969 11.300 nemendur á þessu stigi og þetta nam um 119 millj. ísl. kr. Og enn er til í þessu kerfi sá möguleiki, að nemendur undir 20 ára aldri geti einnig fengið námslán, svo að hér er um að ræða kerfi, sem er orðið býsna fullkomið og hefur verið í Svíþjóð frá 1965.

Það er sannarlega ekki þannig ástatt, að við þurfum að ganga hér um í einhverri þoku og getum ekki áttað okkur á því, hvernig eigi að taka á þessum vandamálum. Við höfum reynslu annarra þjóða, þ.á.m. þeirra þjóða, sem eru mjög nálægar okkur og við höfum mikil samskipti við. Ég trúi ekki öðru en hæstv. menntmrh. og embættismenn hans hafi fulla vitneskju um þetta sænska kerfi. Hliðstætt kerfi er einnig í Noregi, eins og greint var frá hér áðan, og á síðasta ári voru sett ný lög í Danmörku um mjög víðtækt styrktarkerfi eða stuðningskerfi við námsmenn, sem byggt er á sömu grundvallarreglum og í Svíþjóð, þ.e.a.s. umskipti eru við 20 ára aldur. Á milli skyldunámsins og 20 ára koma til styrkir, en eftir 20 ára aldur koma meira til lán. Þessi lög eru tiltölulega ný. Þau voru sett seint á síðasta ári og það er enn verið að semja við þau reglugerðir og því verður ekki lokið fyrr en um mitt þetta ár, en það er talið, að þarna verði um mjög umfangs mikla bót að ræða. Samt hygg ég, að t.d. Danir eigi mun auðveldara með að sækja framhaldsskóla en Íslendingar, vegna þess hvernig byggð er háttað í landi þeirra. Þetta er mun alvarlegra vandamál hér hjá okkur og það er mikil grundvallarnauðsyn, að tekið verði á þessu máli af fullri alvöru.

Ég verð því miður að segja það eins og er, að ég legg ekki mikið upp úr þeim fögru orðum, sem hæstv. menntmrh. mælti hér áðan um nauðsyn umbóta á þessu sviði og lýsingum hans á því, hve mikið hefur verið að þessu unnið innan rn. Menn segja margt fagurt, þegar kosningar eru framundan og ég held, að það sé sérstök ástæða til þess að gjalda varhug við loforðum, sem gefin eru fyrir kosningar, en ekki á að efna fyrr en eftir þær. Hæstv. ráðh. hefur enga möguleika til þess núna að tala um það, hvað það merki að vísa máli til ríkisstj. Það eru engar líkur á því, að hann gegni húsbóndastörfum í menntmrn. eftir nokkra mánuði. Ef hann hefði haft hug á því, að Alþ. hefði markað einhverja stefnu, sem hefði getað bundið þá ríkisstj., sem tæki við eftir kosningar, þá er tækifæri til að gera það núna. Og ef hann hefði haft þann raunverulega áhuga, sem hann talar um, hefði hann átt að hlutast til um það, þegar þetta frv. kom fram í upphafi þingsins, að þessir sérfræðingar, sem hann telur hafa verið að fjalla um þetta mál, könnuðu þetta frv., gerðu við það brtt., umsteypu því, ef þeir vildu, en gerðu eitthvað til þess að leysa málið og létu sér ekki aðeins nægja að vera með fögur orð.