01.03.1971
Neðri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (3073)

188. mál, loðdýrarækt

Ásberg Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa brtt. við loðdýraræktarlögin vil ég segja aðeins örfá orð. Það hefur sloppið aliminkur, það er rétt, og það er ákaflega leiðinlegt atvik. En ég held, að það sé nú óþarfi að rjúka til strax og breyta lögunum, það ætti að lofa lögunum að vera í eitt eða tvö ár og sjá, hverju fram vindur. Ég tel, að þetta atvik sé hreint óhapp, sem hefði alls ekki þurft að koma fyrir. Það er að vísu rétt, eins og frsm. málsins sagði, að eftir því sem árin líða er meiri hætta á því, að slíkt geti komið fyrir, þegar tæki ganga úr sér og annað slíkt. Það er alveg rétt. En ég held, að við vitum það, að það eru í landinu 4–5 þús. villiminkar. Þeir, sem hafa hænsni eða slíkan búpening, verða að sjálfsögðu að girða sig af gagnvart þessum vágesti, villiminknum, og það er bara hrein tilviljun, að það kemur á daginn, að þetta er aliminkur. Ég meina, það er ekki ástæða til þess að rjúka upp til handa og fóta strax, en sjá heldur, hvernig þróunin verður. Það er ekki vafi á því, að útbúnaður í þessum búum er mjög góður, ef hann er notaður rétt, ef menn umgangast þetta eins og gera á. En merkingar á dýrunum eru svo kostnaðarsamar og valda svo miklum óróa í búunum, að það er eiginlega óframkvæmanlegt. Það þarf þrjá menn til að framkvæma þetta, tvo til að halda dýrinu, þann þriðja til að húðflúra það. Þetta tekur langan tíma og skapar þvílíkt garg og læti í búinu, að það eru almenn leiðindi og afurðatjón. Þetta hefur komið á daginn á þeim tilraunabúum, þar sem þetta hefur verið gert. Þessi dýr eru hvergi merkt á venjulegum búum, það er staðreynd. Og ég vildi mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til athugunar, þ. e. landbn., að hún kalli fyrir sig þá pilta, sem á undanförnum árum hafa verið að kynna sér þessi mál erlendis, og leiti ráða hjá þeim og álits þeirra um það, hvort þetta er í raun og veru framkvæmanlegt. Og ég veit, að það verður í raun og veru örugglega gert.