22.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (3103)

198. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Í kjölfar gengislækkunarinnar 1968 voru sett lög um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Með lögum þessum var ákveðið, að áður en afli kæmi til skipta á íslenzkum fiskiskipum skyldi greiða 17% aflaverðmætis til útgerðarinnar til greiðslu á útgerðarkostnaði, ef landað væri í íslenzkri höfn, og að auki 10–20% eftir tegundum afla í Stofnlánsjóð fiskiskipa. Við sölu á afla í erlendri höfn skyldi á sama hátt greiða 22% aflaverðmætis í Stofnfjársjóð. Með þessum ákvæðum laganna var með valdboði stórkostlega raskað þeim reglum, sem sjómenn og útgerðarmenn höfðu samið um að skyldu gilda um skiptingu aflaverðmætis milli áhafna og útgerðar, og afleiðingarnar urðu þær, að þegar á þeirri vertíð, sem þá fór í hönd, þegar lögin voru sett, þ. e. vertíðinni 1969, olli þessi lagasetning langvinnu verkfalli á bátaflotanum. Ákvæði laganna hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár og óhemju fjárhæðir hafa samkvæmt þeim verið teknar af óskiptum afla til greiðslu á almennum útgerðarkostnaði og í Stofnfjársjóð. Við setningu laganna var því haldið fram, að framlag af óskiptum afla í Stofnfjársjóð mundi nema 300–400 millj. kr. árlega, en nú liggur fyrir, að á árinu 1969 nam þessi greiðsla 428 millj. kr. og hefur að líkindum verið enn hærri á s. l. ári. Í grg. með frv. að lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi var því einnig haldið fram, að upphæðin, sem tekin yrði af óskiptum afla í Stofnfjársjóð fiskiskipa mundi nema, eins og þar sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „talsvert lægri upphæð en afborganir og vextir af stofnlánum flotans.“

Reynslan hefur hins vegar sýnt, að sú upphæð, sem með lagaboði var tekin af óskiptu aflaverðmæti í Stofnfjársjóð, nam ekki talsvert lægri upphæð en vextir og afborganir af stofnlánum, heldur nærri 100 millj. kr. hærri upphæð á árinu 1969 og mismunurinn rennur til greiðslu á almennum útgerðarkostnaði til viðbótar við þær um 390 millj. kr., sem samkvæmt öðrum ákvæðum þessara sömu laga eru teknar til greiðslu á þeim kostnaði. Á árinu 1969 námu þær greiðslur, sem teknar eru af óskiptum afla í Stofnfjársjóð og til greiðslu á almennum útgerðarkostnaði, samtals um 820 millj. kr. og ætla má, að þessar greiðslur hafi orðið enn hærri á árinu 1970, svo að sú upphæð, sem tekin hefur verið af óskiptu aflaverðmæti síðan lögin voru sett, sé tekin að nálgast 2000 millj. kr. og hlutur sjómanna virðist skertur um nær 1000 millj. kr. á þessu tímabili. Þessu til viðbótar má nefna, að með sömu lögum var útflutningsgjald sjávarafurða hækkað í því skyni að auka tekjur Tryggingasjóðs fiskiskipa og var sú hækkun áætluð 48 millj. kr. á ári umfram þá hækkun í krónutölu, sem hlauzt af sjálfri gengislækkuninni. Þessi hækkun útflutningsgjalds hefur að sjálfsögðu áhrif á fiskverðið og greiðist að því leyti að hálfu af hlut sjómannanna. Í því verkfalli á bátaflotanum, sem á vertíðinni 1969 hlauzt af setningu laganna um ráðstafanir í sjávarútvegi, fengust engar breytingar gerðar á þessum lögum og ljóst var, þegar leið að næstu vetrarvertíð 1970, að enn mundu ákvæði þessara laga valda uppsögn kjarasamninga, kjaradeilum og jafnvel verkfalli. Þess vegna var af hálfu Alþb. flutt á Alþ. fyrir næst síðustu áramót till. til þál. um, að skipuð yrði n. fulltrúa frá samtökum sjómanna og útgerðarmanna og sjútvrn. til þess að gera tillögu um endurskoðun laganna á þann veg, að þau yrðu ekki þrándur í götu samninga sjómanna og útgerðarmanna um kaup og kjör á vetrarvertíðinni 1970. Þessi tillaga fékk ekki afgreiðslu og enn kom til verkfalls á bátaflotanum á þeirri vertíð. Það verkfall leystist ekki fyrr en tryggt var, að ákvæðum laganna um ráðstafanir í sjávarútvegi yrði breytt á þann veg, að framlag af óskiptu aflaverðmæti við sölu innanlands til greiðslu á almennum útgerðarkostnaði yrði lækkað úr 17% í 11%. Þegar sjómenn gengu til samninga á þessum grundvelli, var það með það í huga fyrst og fremst, að hér væri um að ræða áfanga á þeirri braut að fá þessi lög afnumin, enda hafði hagur útgerðarinnar vænkazt mjög á því tímabili, sem liðið var frá því að lögin voru sett, og þau rök, sem helzt voru uppi höfð til stuðnings lagasetningunni, bág afkoma ritgerðarinnar, sem óðast að gufa upp og allar forsendur fyrir ákvæðum laganna að bresta. Enn auðsærra var þetta atriði, þ. e. að aðalforsendur fyrir setningu laganna eru brostnar, þegar dró að þeirri vertíð, sem nú er hafin, þegar ljóst er, að árið 1970 var útveginum enn hagkvæmara en árið 1969, afli mjög góður og afurðaverð enn hækkandi. Sjómenn litu því á þá breytingu, sem gerð var á lögunum með lækkun greiðslu til almenns útgerðarkostnaðar úr 17% í 11%, sem byrjun á þeirri leið, að lögin yrðu afnumin, og í ályktun 7. þings Sjómannasambands Íslands, sem haldið var 9.–11. okt. s. l. segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álit þingsins, að óhjákvæmilegt sé að ná því, sem tekið var af fiskimönnum með nefndum lögum, og þá ekki aðeins af því, sem heyrir undir 21% og 31% samkvæmt lögunum, eins og þau eru nú, heldur einnig 22%, sem tekin eru, þegar skip siglir með aflann og selt er erlendis.“

Og í ályktun fulltrúafundar aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá 10. okt. s. l. var tekið svo til orða, með leyfi hæstv. forseta:

„Með lögum um ráðstafanir í sjávarútvegi o. s. frv. frá 19. des. 1968 voru kjör sjómanna skert stórkostlega, svo að þess eru engin dæmi, að svo harkalegar ráðstafanir hafi átt sér stað gagnvart nokkurri launastétt í landinu. Samningsbundnum skiptakjörum var allt í einu breytt svo í óhag sjómönnum, að ekki verður lengur við unað. Þrátt fyrir einhuga varnarbaráttu hefur ekki tekizt að halda hlut sjómanna þannig, að lífskjörin rýrni ekki ár frá ári.

Fari svo, að umrædd lög verði ekki felld úr gildi, hafa samtökin ekki aðra leið en að sækja hlut sinn við samningaborðið. Samtökin krefjast óskerts samningsréttar án lögbindingar um kaup og kjör. Þar sem með fjölmörgum lagasetningum hefur verið kippt stoðum undan grundvelli þeim, sem lögin um verðlagningu sjávarafurða voru byggð á, telja samtökin nauðsyn á endurskoðun umræddra laga:

„Þetta var samþykkt fulltrúafundar aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambandsins frá í haust. Það er því ljóst, að enginn vinnufriður gat orðið á fiskiskipaflotanum á þeirri vertíð, sem nú er hafin, ef stjórnvöldin ætluðu enn að streitast við að halda óbreyttum eða lítt breyttum ákvæðum laganna. Það var ljóst, að ekki einungis með tilliti til hagsmuna sjómanna og sanngirni gagnvart þeim, heldur einnig með tilliti til hagsmuna þjóðarheildarinnar var alger nauðsyn að gera nú þegar breytingar á lögunum og miða við, að ákvæði þeirra um greiðslur af óskiptum aflaverðmætum yrðu afnumdar með öllu eigi síðar en fyrir n. k. áramót. Það var því ljóst, að enginn vinnufriður gat orðið á fiskiflotanum á þessari vertíð, ef ekki yrði hreyft við lögunum og a. m. k. stigið verulegt spor í þá átt að afnema ákvæði þeirra um greiðslur af óskiptum aflahlut. Raunin hefur líka orðið sú, að verkfall hefur nú staðið á togaraflotanum vegna deilna um kjör yfirmanna síðan 6. jan. s. l., og allur togaraflotinn hefur verið bundinn í höfn mikinn hluta þess tíma. Staðið hafa yfir samningar um kjör á bátaflotanum og tillögur, sem gerðu ráð fyrir, að engar breytingar yrðu gerðar á skerðingarlögunum, en miðað væri við 25% hækkun fiskverðs, hafa ekki leitt til samninga eftir að þær voru felldar í Hafnarfirði og í Vestmannaeyjum. Nýjar tillögur, sem byggðar eru m. a. á því, að nú loks hafa stjórnvöld fengizt til þess að sýna lit með fyrirheiti um að lækka framlag í Stofnfjársjóð af afla seldum í erlendri höfn úr 22% í 16%, eru nú þegar til umræðu og afgreiðslu hjá sjómannafélögunum, en síður en svo er vissa fyrir því, að þær leiði til lausnar á kjaradeilunni hjá bátaflotanum, og nú síðast hafa Vestmanneyingar fellt þessar tillögur.

Ákvæði laganna um ráðstafanir í sjávarútvegi hafa nú verið í gildi í rúm tvö ár og menn geta haft ýmsar skoðanir á því, hverja nauðsyn bar til þessarar lagasetningar fyrir tveimur árum, en jafnvel þeim, sem knúðu þær fram þá á þeim forsendum, að afkoma útvegsins væri þá í algeru óefni, þeim hlýtur að vera orðið ljóst, að hvað sem því líður, þá eru forsendur allar aðrar í dag og tilvist þessara lagaákvæða eftir að hagur útgerðarinnar hefur stórlega batnað vegna aukins afla og hækkaðs afurðaverðs, hefur nú þegar valdið þjóðarheildinni stórfelldu verðmætatjóni vegna stöðvunar bátaflotans á undanförnum vertíðum og togaraflotans nú. Það er ljóst, að meðan þessi lagaákvæði gilda, er þess engin von, að vinnufriður verði á fiskiskipaflotanum. Kjarasamningar nást ekki með eðlilegum hætti á meðan sjómenn eru undir oki þessara laga. Þótt lagaákvæðunum, sem hér er um rætt, sé ætlað að verða útgerðinni til styrktar, þá er það mikil skammsýni að ætla, að kjaraskerðingarlög gegn sjómönnum verði útgerðinni til framdráttar, þegar til lengdar lætur. Ekkert er útgerðinni nauðsynlegra en að eiga völ hinna hæfustu og dugmestu manna til starfa á fiskiskipunum, en léleg kjör sjómanna valda því, að nú eru stórfelld vandkvæði á því að manna bátaflotann, enda þótt allur togaraflotinn liggi bundinn í höfn. Slíkar ráðstafanir sem lagasetning um greiðslur af óskiptum afla, svo að nemur um 500 millj. kr. á ári af aflahlut sjómanna, verða því ekki útgerðinni til framdráttar. Vinnustöðvanir og skortur hinna dugmestu sjómanna verður afleiðingin. Afleiðingar lagasetningarinnar bitna því ekki aðeins á sjómönnum. Áður en lýkur bitna þær einnig á útgerðinni og þjóðinni allri. Engar ráðstafanir stjórnarvalda í kjaramálum eru fjær allri skynsemi en þær að efna til stríðs gegn þeim mönnum, sem vinna þau störf, sem eru undirstaðan undir svo til allri þjóðarframleiðslunni. Þessu stríði verður að linna og því ber Alþ. að taka til endurskoðunar þau lög, sem sett voru í des. 1968 um ráðstafanir í sjávarútvegi og valdið hafa verkföllum og kjaradeilum á hverri vertíð síðan. Sjómenn hafa sjálfir sett sér það mark, að ákvæði laganna verði afnumin í áföngum, og í því frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir, að nú þegar verði minnkaður um helming sá hluti, sem ætlað er að taka af aflaverðmætinu óskiptu og á að renna annars vegar til Stofnfjársjóðs fiskiskipa og hins vegar til greiðslu á almennum útgerðarkostnaði, en ennfremur er gert ráð fyrir því, að greiðslur þessar falli síðan með öllu niður um n. k. áramót.

Það er skoðun okkar flm., að þurfi útgerðin einhvers stuðnings við á hverjum tíma, þá verði hann að koma til á annan hátt en þann að ráðast á hlut sjómanna. Eitt aðalvandamálið í íslenzku atvinnulífi er það, hversu lág eru laun þeirra manna, sem við framleiðslustörfin starfa, og þá ekki sízt sjómanna, sem vinna mikilvægustu, áhættusömustu og erfiðustu störfin. Afleiðingarnar af þeim bágu launakjörum, sem sjómenn hafa orðið að búa við, m. a. vegna ákvæða laganna um ráðstafanir í sjávarútvegi, koma ekki aðeins fram í þeim vinnustöðvunum, sem orðið hafa, og þeirri óvissu, sem sífellt ríkir um vinnufriðinn og hefur sínar sérstöku afleiðingar, heldur fyrst og fremst í því, að vanir og þjálfaðir sjómenn yfirgefa starf sitt í æ ríkara mæli og ráða sig ekki upp á þau kjör, sem um tekst þó að semja hverju sinni. Halda menn t. d., að þótt samningar tækjust við sjómannafélögin nú, eftir að það fyrirheit hefur verið gefið að lækka greiðslur í Stofnfjársjóð úr 22% í 16% við sölu í erlendri höfn, að það væri auðveldara að fá menn á netavertíð nú heldur en raunin hefur orðið á til þessa? Ég held, að menn geri sér ekki ljósan vandann, ef þeir halda það. Nei, það er fráleitt að ímynda sér, að unnt sé að leysa vanda útgerðarfyrirtækjanna með því að ganga á hlut sjómanna með lagaboði frá Alþ., eins og verið hefur grundvallarstefna og trúaratriði hæstv. ríkisstj. á undanförnum árum. Slík stefna kallar eðlilega á þau viðbrögð sjómanna, sem skýrt koma fram í samþykkt aðalfundar Sjómannafélags Akureyrar nú fyrir skömmu, er svo hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Sjómannafélags Akureyrar haldinn 14. febr. 1971 áréttar fyrri mótmæli félagsins við lögum Alþ. frá 19. des. 1968 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o. fl., þar sem samningsbundin hlutakjör sjómanna á íslenzkum fiskiskipum voru skert svo óhemjulega, að slíks eru engin dæmi fyrr eða síðar, að íslenzkum launþegum hafi af löggjafans hendi verið boðið annað eins eða neitt svipað. Telur fundurinn, að lög þessi, svo lengi sem þau verða í gildi, standi þversum í vegi fyrir öllum eðlilegum samskiptum milli samtaka sjómanna og útgerðarmanna, einnig eyðileggi lögin bráðnauðsynlega samstöðu fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna í verðlagsráði sjávarútvegsins og brjóti í raun efnislega í bága við lögin um verðlagsráðið. Fundurinn telur, að þessi óréttláta lagasetning um flutning stórra fjármuna af aflahlut sjó manna til útgerðarmanna sé því ómaklegri sem meðaltekjur háseta á fiskiskipum voru 2 árin næst á undan, þ. e. 1967 og 1968, í algeru lámarki og ráðstöfunartekjur þeirra þau ár neðan við lægst launuðu starfshópa í landinu. Hásetastörf á íslenzka fiskiskipaflotanum eru óefað verst launuð vinna miðað við erfiði, vosbúð og stöðugar fjarvistir frá heimilum, sem hér er á boðstólum, og hefur það leitt til þess, að dugandi ungum mönnum, sem velja sér sjómennsku að starfi, fer stöðugt fækkandi eins og vonlegt er. Verður að telja það meira en lítið öfugsnúið, að svo verðmæt vinna sem fiskveiðarnar eru fyrir þjóð okkar og aðalgrundvöllur að batnandi lífskjörum og framförum í landinu fyrr og síðar skuli vera verst launaða starfið meðal landsmanna.

Fundurinn skorar því á Alþ. að nema nú þegar úr gildi lögin frá 19. des. 1968 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o. fl. eða a. m. k. að gera á þeim þær breytingar að nægi til þess að leysa þær vinnudeilur, sem nú þegar eru hafnar, og aðrar, sem yfirvofandi eru milli sjómannasamtakanna og útgerðarmanna og eru bein afleiðing ofangreindrar lagasetningar. Fáist ekki viðunandi lausn á kjaramálum sjómanna næstu daga, annaðhvort með breytingum á lögum frá 19. des. 1968 eða eftir venjulegum samningaleiðum við útgerðarmenn, eiga sjómannasamtökin ekki annarra kosta völ en að skipa sér vel saman til sameiginlegrar baráttu um allt land, þar til sú lausn fæst, sem sjómenn geta almennt sætt sig við.“

Hér lýkur samþykkt aðalfundar Sjómannafélags Akureyrar og svipuð eru nú viðbrögð sjómanna um land allt. Og útgerðarmenn eru sjálfir í vaxandi mæli að gera sér ljóst, að samskipti stéttarsamtaka sjómanna og útgerðarmanna geta ekki orðið með þeim hætti, sem þeir sjálfir kjósa, á meðan þvingunarákvæði laganna frá 1968 eru í gildi, og á meðan kjarasamningar eiga að fara fram undir oki þeirra laga, er engin von til, að vinnufriður verði á fiskiskipaflotanum. Það er því hagsmunamál þjóðarheildarinnar að ákvæði laganna um greiðslur af óskiptum aflahlut verði afnumin með þeim hætti, sem lagt er til í þessu frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.