03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (3412)

37. mál, fiskileit og fiskirannsóknir

Flm. (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 37 um fiskileit og fiskirannsóknir í Húnaflóa. Till. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara vísindalega fiskileit og nákvæmar fiskirannsóknir í Húnaflóa undir stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélags Íslands. Rannsóknir þessar skulu miða að leit nýrra fiskimiða, könnun á því, hvers konar fiskveiðar væru hagkvæmastar og hvaða stærð fiskiskipa hentaði bezt á þessum slóðum. Þá verði einnig rannsakað, hvort hagkvæmt gæti verið að koma upp fiskrækt og fiskuppeldi í Húnaflóa.“

Með hverju ári sem líður verður mönnum það ljósara, að uppbygging atvinnulífsins hér á landi verður að vera höfuðverkefni okkar, eða m.ö.o., við verðum að tryggja öllu vinnufæru fólki næga atvinnu, hvar sem það býr í landinu. Því miður hefur verið mikill misbrestur á þessu, og við vitum, að á velgengnisárum þjóðarinnar var allt of mikið einblínt á síldina og síldargróðann. Við könnuðum ekki og notfærðum okkur ekki marga möguleika, en við vitum, að um leið og síldin brást, fór strax að síga á ógæfuhliðina, og við verðum að viðurkenna, að við sýndum litla fyrirhyggju í atvinnumálum þjóðarinnar.

Í þessari till. til þál. er gert ráð fyrir, að gerðar verði víðtækar fiskirannsóknir og fiskileit í Húnaflóa, og ástæðan til þess að Húnaflói er valinn frekar en aðrir flóar eða firðir, er sú, að fyrir 24–30 árum var Húnaflói ein af gullkistum þjóðarinnar, en allir vita, að á síðari árum hefur þar verið mikil aflatregða og afleiðing þess hefur orðið atvinnuleysi og fólksflótti úr sjávarþorpum. Og það má sjá það í opinberum skýrslum, að launatekjur fólks hafa verið minni á þessu landssvæði en víða annars staðar. Við vitum líka, að það er árið 1965, sem fyrst er farið að veiða rækju og rækjuvinnsla hefst. Og sannleikurinn er sá, að það er í raun og veru þetta, sem hefur bjargað afkomu fólksins á þessu svæði. En það sjá allir í hendi sér, að rækjuveiðar og rækjuvinnsla er of einhæf atvinnugrein. Og hvað skeður, ef þessar veiðar bregðast?

Eins og ég sagði áðan, vitum við, að með aflaleysi kemur fljótlega atvinnuleysi og tilhneigingin til að fara brott til annarra staða, þar sem lífsafkoma er betri og öruggari. Unga fólkið getur valið þessa leið, en fjölskyldufólkið ekki, því að það hefur yfirleitt bundið allt sitt í húseignum eða öðru á þessum stöðum. Og þó að það vildi selja eignir sínar, þá eru kaupendur tæplega finnanlegir. Og það er hægara sagt en gert að ganga frá eignum sínum, flytja burt með tvær hendur tómar, og það má því segja, að þetta fólk sé í sjálfheldu. En það hefur lifað í þeirri von, að fiskurinn kæmi aftur og atvinnulífið yrði aftur eðlilegt.

Að undanförnu hefur verið unnið að svokallaðri Norðurlandsáætlun og sá þáttur tekinn fyrir, sem snýr að almennri uppbyggingu atvinnulífsins á Norðurlandi. Húnaflói fellur undir þessa áætlun. Í skýrslu, sem Efnahagsstofnunin lét gera um Húnaflóasvæðið og lögð var fyrir stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs 16. ágúst 1966, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þýðingarmikið er, að athugun fari fram á fiskimiðum í Húnaflóa, jafnt miðum fyrir þorskfisk sem fyrir aðrar tegundir, sem lítt hafa verið veiddar fram að þessu. Jafnframt er þýðingarmikið, að athugað sé, hvaða veiðiaðferðir og bátastærðir geti gefið bezta raun.“

Á öðrum stað í þessari sömu skýrslu stendur: „Ástæður fyrir þessu aflaleysi eru ekki vel kunnar. Er því þýðingarmikið að fá fiskifræðinga til þess að framkvæma nánari athugun á Húnaflóasvæðinu og raunar Norðurlandi öllu, bæði til þess að vita, hvort afli getur fundizt á öðrum slóðum en hefur verið áður, hvort hægt sé að ná aflanum með öðrum veiðarfærum eða hvort hægt sé að veiða aðrar tegundir sjávardýra en áður hafa verið veiddar. Slík rannsókn er verkefni Hafrannsóknastofnunarinnar.“

Og í þriðja lagi stendur í þessari skýrslu: „Hugsanlegt er, að kúfiskur gæti komið til greina.

Allt þetta þarf frekari athugunar við, og kemur þá fyrst og fremst til greina skipulögð fiskileit undir umsjá Hafrannsóknastofnunarinnar.“

Niðurstaðan í þessari skýrslu Efnahagsstofnunarinnar frá árinu 1966 um Húnaflóasvæðið er því sú, að höfuðnauðsyn sé, að framkvæmd verði fiskileit og fiskirannsóknir í Húnaflóa. Við vitum, að atvinnuástandið á Húnaflóasvæðinu í sjávarþorpunum hefur verið mjög bágborið á undanförnum árum. En þrautseigja þessa fólks hefur verið aðdáunarverð. Það hefur trúað því, að fiskurinn kæmi aftur í flóann og þá skapaðist næg atvinna. En við vitum nú, að þessi bið er orðin bæði löng og ströng og þolinmæði fólksins er á þrotum. Það hefur vantað ákveðinn skilning til þess að gera raunverulegt átak til þess að efla atvinnuþróunina á þessum stöðum. Viðfangsefnið í dag hlýtur því að vera að bæta hvers konar skilyrði til atvinnuuppbyggingar, þannig að lífsafkoma þessa fólks sé tryggð. Það liggur ljóst fyrir, að hráefnisöflun þarf að auka og treysta ekki um of á eina veiðiaðferð og eina fisktegund. Þess vegna þarf að kanna vísindalega alla tiltæka möguleika og skapa sem mesta fjölbreytni í fiskútgerð og fiskvinnslu. Það er aðkallandi, að nú þegar verði kannaðir allir möguleikar á meiri fjölbreytni í þessum efnum. Efling og örvun atvinnulífsins á svæðinu er grundvallaratriði fyrir heilbrigða atvinnuþróun.

Við vitum, að á mörgum fundum útvegsmanna og sjómanna hefur á undanförnum árum verið rætt um nauðsyn þess, að hafizt verði handa um fiskrækt og uppeldi nytjafiska í fjörðum landsins. En því miður hefur allt of lítið af þessu verið gert hingað til. Hér bíður okkar vissulega stórt verkefni, sem við verðum að inna að á næstunni, og ég tel einmitt, að í Húnaflóa séu margvíslegir möguleikar á að koma upp fiskrækt eða fiskuppeldi. Við vitum, að á þessum stöðum, í sjávarþorpunum í kringum Húnaflóa, eins og á Drangsnesi, Hólmavík og Skagaströnd, eru frystihús, hafnir, atvinnutæki og þjálfað starfsfólk í fiskvinnslu, sem gæti afkastað miklu meira framleiðslumagni en nú er, ef nægilegt hráefni væri fyrir hendi.

Nú er unnið að Norðurlandsáætlun, að alhliða uppbyggingu atvinnulífsins, og Húnaflóasvæðið fellur undir þessa áætlun. Það er því brýn nauðsyn, að einmitt nú verði framkvæmdar þær rannsóknir í Húnaflóa, sem till. þessi fjallar um.

Herra forseti. Eftir þessa umr. legg ég til, að till. verði vísað til allshn.