03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

36. mál, úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og uppsögn varnarsamnings

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Það eru nú 21 ár síðan ég tók fyrst sæti hér á hinu háa Alþingi, tiltölulega ungur maður. Fyrstu tvö þingin, sem ég sat á, var þátttaka mín í umr. einkum bundin málum, sem flokkur minn flutti til þess að vara við hættum, sem fylgdu þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Helztu hættuna sögðum við Sósíalistaflokksþingmenn vera þá, að hún, þátttakan í bandalaginu, mundi án efa áður en varði leiða til hersetu. Andstæðingar okkar kölluðu slíkt þvaður eitt. Herseta kæmi ekki til mála á friðartímum, og þeir vitnuðu til ákvæða í viðkomandi samningi þessari fullyrðingu til staðfestingar. Næstu tvö þingin, sem ég sat á í þetta sinn, tók ég helzt þátt í umr., sem flokkur minn hóf aftur og aftur til þess að benda á hættuna af þeirri hersetu, sem þá var orðin staðreynd þrátt fyrir fullyrðingu andstæðinga okkar. Og svona hefur þetta gengið síðan. Þing eftir þing hefur af hálfu Sósíalistaflokksins og síðan Alþýðubandalagsins verið haldið áfram þessari baráttu með till.-flutningi, fsp., með frv. og ræður fluttar svo margar, að ef allt yrði tekið saman, þá yrði án efa frekar að telja þær í hundruðum heldur en tugum. Og enn stendur þessi barátta. Enn liggur hér fyrir till. flutt af hálfu okkar Alþb.-manna um það, að Ísland losi sig við þær hættur og margvísleg skaðvænleg áhrif, sem fylgja þátttöku í hernaðarbandalaginu, og enn er ég hér staðinn upp til þess að fara nokkrum orðum um þessi mál, rúmum tveim tugum ára eldri en ég var, þegar ég gerði það fyrst og orðinn gráhærður maður. Hefur þá ekkert breytzt á öllum þessum tíma? Jú, víst hefur margt breytzt. Í hinum flokkunum t.a.m., þar sem fyrrum ríkti nærri eindregin andstaða gegn málflutningi okkar Alþb.-manna í þessum efnum, heyrast nú æ fleiri raddir, sem hafa uppi gagnrýni á þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu og á hersetunni, meira og minna samhljóða gagnrýni okkar Alþb.-manna. Ungir framsóknarmenn hafa á þingum sínum samþ. ályktanir, þar sem þess er krafizt alveg vafningalaust, að herverndarsamningnum svo nefnda við Bandaríkin verði sagt upp og hernum vísað úr landi. Sama er að segja um unga Alþfl.-menn. Nú fyrir skömmu gerðu þeir t.a.m. samþykkt, þar sem þeir ítreka fyrri viljayfirlýsingar sínar um það, að herinn verði látinn fara, og lýsa um leið mjög skorinort yfir óánægju sinni vegna þess, hve seint gangi að koma þessu í framkvæmd. Og af hálfu beggja þessara flokka og raunar Sjálfstfl. líka hefur æ oftar að undanförnu verið rætt um það opinberlega, að nauðsynlegt sé, að Íslendingar endurskoði afstöðu sína til Atlantshafsbandalagsins, væntanlega þá með það fyrir augum að losa um tengsl þeirra við bandalagið. En það eru sem sé einkum hinir yngri menn í þessum flokkum, sem knýja á í þessum efnum. Ef einhverjir þeirra, t.a.m. ungir framsóknarmenn eða ungir Alþfl.-menn, ættu sæti hér á hinu háa Alþingi, þá er ekki að efa, að skelegglega yrði unnið af hálfu flokka þeirra að þeim málum, sem hér um ræðir. Þeir mundu án efa standa einarðir við hlið okkar Alþb.-manna í þessari baráttu og án allra fordóma, því að þeir eru, þessir ungu menn, hamingjunni sé lof, lausir við þá fordóma og aðra kvilla, sem svo mjög hafa þjakað hina eldri stjórnmálamenn í samskiptum milli flokkanna. En því miður, þetta er ekki ungra manna þing. Þetta er þing hinna rosknu, þeirra, sem eru farnir að grána. Og er sá ágalli, því skal ekki neitað, sameiginlegur að því er varðar alla flokkana. En þeir, sem hér eiga sæti, þó að þeir séu teknir að eldast, eru þó fulltrúar jafnt þeirra yngri sem annarra í flokkum sínum, og það verður að teljast lýðræðisleg skylda þeirra að gera opinberlega grein fyrir afstöðu sinni til vilja hinna ungu. Ég beini þessu sérstaklega til hv. þm. Alþfl. og Framsfl., og mikið væri nú ánægjulegt að sjá fleiri slíka hér inni í salnum óg þá ekki hvað sízt flokksformennina. Vilja þessir hv. þm. framfylgja kröfum þeim, sem gerðar hafa verið í flokkum þeirra, um það t.a.m., að hinn bandaríski her verði látinn hverfa af landinu? Ef svo er, þá ætti það ekki að vefjast fyrir þeim að samþykkja a.m.k. úr till. þessari þann hlutann, sem að þessu lýtur.

Ég sagði áðan, að ræður þær af hálfu þm. Alþb. og áður Sósíalistaflokksins, sem hafa verið fluttar til rökstuðnings þeim atriðum, sem till. þessi felur í sér, yrðu sennilega frekar taldar í hundruðum heldur en tugum. Ég sé því ekki ástæðu til þess að bæta hér langri ræðu við allt það mál. En ég vil leggja sérstaka áherzlu á tvö til þrjú atriði.

Það ofstæki og sú tortryggni milli austurs og vesturs, sem í upphafi skóp jarðveginn fyrir Atlantshafsbandalagið, hefur farið hraðminnkandi á undanförnum árum. Og sturlunin mikla, McCarthy-ismi í vestri, Stalínismi í austri, er nú löngu liðin tíð. Stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins, bæði hér á landi og annars staðar, kölluðu stofnun þess óhjákvæmilega öryggisráðstöfun vegna ástandsins, en við sósíalistar héldum því fram, að hún mundi auka ofstækið, magna sturlunina og tefja fyrir því, að heimurinn læknaðist af þessum ósköpum. Stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins héldu því fram þá og halda því fram margir enn þann dag í dag, að tilgangur þess væri að öllu leyti hinn göfugasti, enda helgaðist hann af margrómuðum friðarvilja Bandaríkjanna. Við hinir þykjumst geta bent á fjölmörg dæmi um haldleysi þeirrar kenningar, þ. á m. hinn sérstæða friðarvilja, sem Bandaríkin hafa sýnt með framferði sínu í Suðaustur-Asíu. Við höldum því einnig fram, að Varsjárbandalagið, sem til varð sem bein afleiðing af stofnun NATO, hafi torveldað alla þróun í frelsisátt fyrir austan járntjald og tryggt Sovétríkjunum aðstöðu til þess að sitja yfir hlut annarra þjóða þar og jafnvel beita þær vopnuðu ofbeldi eins og sýndi síg t.a.m. í hinni svívirðilegu innrás þeirra í Tékkóslóvakíu. Þá innrás þóttust Sovétríkin beinlínis geta réttlætt með því, að Tékkóslóvakía væri bandalagsríki þeirra. Um þetta getum við auðvitað lengi deilt enn, tildrög Atlantshafsbandalagsins og afleiðingar þess fyrir ástandið í heiminum, fyrir þjóðir í austri og vestri, fyrir mannkynið allt. Vandséð er þó, hvaða tilgangi slíkt gæti þjónað. Það eru viðhorf dagsins í dag, sem skipta máli. Í stað ofstækis milli austurs og vesturs hefur komið vaxandi skilningur á nauðsyn aukinna samskipta. Mestu áhrifamenn bæði í austri og vestri leggja æ meiri áherzlu á, að slík vinsamleg samskipti séu hin eina raunhæfa trygging friðarins. Boðskapurinn um vopnavald og það jafnvægi, sem á því eigi að byggjast, á sér æ færri formælendur. Og jafnframt þessu þokast æ meir í átt til lausnar á ýmsum mestu vandamálunum, sérstaklega þeim, sem snerta Evrópu. Þýzkalands-vandamálið, sem í upphafi og löngum síðar var helzta orsök tortryggninnar milli austurs og vesturs, virðist nú t.a.m. óðum nálgast lausn, sem báðir aðilar muni sætta sig við. Jafnframt þessum breytingum breytast einnig viðhorfin til hernaðarbandalaga og þess skefjalausa vígbúnaðar, sem þau hafa haft í för með sér. Það má skjóta því hér inn í, að samkv. nýbirtri skýrslu Svíans Gunnars Myrdals eiga nú risaveldin kjarnorkuvopnabirgðir, sem að sprengimætti samsvara 15 þús. tonnum, — það eru ekki kg, heldur tonn — 15 þús. tonnum af TNT á hvert mannsbarn á jörðinni. En hitt er sem kunnugt er einnig staðreynd, að meira en helmingur, ef ekki 15 þessara mannsbarna, býr við stöðugt hungur og næringarleysi. Ef einhver skyldi telja þetta nauðsynlegt vegna valdajafnvægisins í heiminum, þá má bæta við þeirri staðhæfingu, sem Myrdal byggir á rannsóknum sínum, að hversu mjög sem risaveldin drægju úr vígbúnaði sínum, þá eigi það óralangt í land, að það geti haft í för með sér nokkra minnstu röskun varðandi þetta margumtalaða valdajafnvægi.

En víkjum aftur að okkur Íslendingum sérstaklega. Er ekki kominn tími til, að við förum að átta okkur á hinum breyttu aðstæðum? Er ekki kominn tími til, að við förum að endurskoða afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins, svo sem nú er víða gert í aðildarríkjum þess? Er ekki kominn tími til, að við förum á alþjóðavettvangi að stuðla að þeirri þróun til friðar og samkomulags, sem nú á sér stað, en hristum af okkur það slen, sem fylgt hefur þátttöku okkar í NATO?

Og hvað um hersetuna? Ég bið hv. þm. Framsfl. og Alþfl. enn að leggja sérstaklega við eyrun. Margir helztu forustumenn þeirra flokka, sem fylgt hafa þátttöku okkar í NATO, hafa hvað eftir annað lýst yfir, að herinn ætti að fara strax og aðstæður leyfðu, strax og nógu friðvænlega horfði í þessum heimshluta. Því væri ekki úr vegi að spyrja hér að lokum: Hvað segja þessir menn um aðstæðurnar núna? Eru þær friðvænlegar? Og ef ekki, hvers vegna þá? Og hverjar þyrftu þær aðstæður að vera, sem þessir menn teldu nógu friðvænlegar til þess, að við gætum losað okkur við herinn?

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði, þegar þar að kemur, frestað og till. vísað til utanrmn.