02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3926)

143. mál, endurskoðun löggjafar um óbyggðir

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um endurskoðun löggjafar um óbyggðir landsins, vötn, ár, jarðhita og námur. Ég vil þegar taka fram, að hér hefur áður komið fram till., sem fjallar um hluta af þessu verkefni, og mín till. er ekki miðuð við það að setja á nokkurn hátt fót fyrir þá till., en þar sem hún fjallar um ýmis atriði önnur, taldi ég rétt, að hún kæmi hér fram. Ég ætla að leyfa mér að lesa fyrst till. Hún er í nokkuð mörgum liðum og hljóðar svo:

Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu. Við samningu frumvarps eða frumvarpa að lagagerð þessari verði m.a. athugað:

1. Hvort ekki sé rétt að lýsa allt hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins liggja ekki fyrir, og hvernig kveða megi á, svo að glöggt sé, um mörk þessarar ríkiseignar.

2. Hvort ekki sé rétt, að öll not afrétta, sem eru ekki í einkaeign, skuli teljast réttindi viðkomandi sveitarfélaga, eins og þau yrðu nánar skilgreind.

3. Hvort veiði- og fiskræktarréttur í stöðuvötnum og fallvötnum í byggðum skuli ekki fremur bundinn viðkomandi sveitarfélagi en einkaeigendum jarða.

4. Hver mörk skuli setja milli eignarráða ríkis og réttinda annarra eigenda fallvatna, t.d. varðandi virkjanir, þegar árekstrar verða milli einkanota og almenningsnota.

5. Hver eignarmörk ríkið skuli hafa yfir jarðhita og hve djúpt í jörð eignarréttur jarðeigenda á honum skuli ná.

6. Hvort verðmæti í jörðu, á landi eða landgrunni, er finnast fyrir atbeina ríkisins, skuli ekki teljast ríkiseign og háð valdi ríkisins, hvernig unnið verði og farið með. 7. Hver takmörk náttúruvernd skuli sett.

8. Hvern umgengnisrétt og hverjar umgengnisskyldur almenningur skuli hafa til ónotaðs lands og óbyggða.“

Hér eru ýmis atriði tekin fram, sem mönnum þykir kannske einkennilegt við fyrstu sýn, að gerð séu að tillöguefni. Hins er að gæta, að nú í seinni tíð hefur margt komið upp á, sem gerir það að verkum, að menn fara að endurskoða viðhorf sín um eignarrétt á landi og landgrunni. Viðhorf okkar í þessum málum hafa breytzt vegna nýrrar tækni t.d., og gætum við tekið jarðhitann þar sem gott dæmi. Áður fyrr datt engum í hug, að hægt væri að bora svo og svo djúpt í jörðu eftir jarðhita, eins og nú er farið að gera, og þá vaknar spurningin: Hve langt nær eignarréttur jarðeigenda niðuríjörðina?

Annað dæmi, sem ég tek hér, er um eignarrétt yfir veiði í ám og vötnum. Það er að verða mjög svo áberandi víða, hvað það getur verið mikill réttindamunur, mikill eigendamunur, mikill aðstöðumunur til þess að nota eða hafa gagn af sínu landi, hvort menn hafa veiðirétt í ám eða stöðuvötnum, og þá vaknar spurningin: Er ekki eðlilegra, að sveitarfélögin sem slík eigi þennan rétt, heldur en einstakir landeigendur? Er ekki eðlilegra, að allir bændur í viðkomandi sveitarfélagi njóti góðs af þessum gögnum, en ekki einstakir menn, sem kannske fyrir einhverja tilviljun, sem ekki þarf að vera svo merkileg að einkarétti upphaflega, skuli hafa þar öll gögn og gæði? M.a. mundi þetta kannske koma í veg fyrir það, að fjársterkir menn úr kaupstöðunum gætu keypt upp jarðir uppi í sveitum og kannske lagt þær niður sem bújarðir, en farið að hafa þar eingöngu veiðistöð og hindrað þannig eðlilega byggðarþróun eða byggðarvöxt í viðkomandi sveitarfélagi.

Enn vil ég nefna það, að í seinni tíð hafa af skiljanlegum ástæðum breytzt viðhorf varðandi virkjanir fallvatna. Í seinni tíð hefur raforkunotkun farið ört vaxandi hér á landi, og allir vita, að íslenzka þjóðfélagið er hraðfara að breytast úr og þegar búið að breytast mjög verulega úr því, sem áður var bændaþjóðfélag, yfir í það, sem við köllum núna þéttbýlisneytendaþjóðfélag. Þá vaknar upp þessi spurning: Hvaða rétt skal þéttbýlisbúinn hafa á móti strjálbýlisbúanum varðandi þennan afnotarétt, virkjun fallvatnanna? Og í því sambandi getur maður farið að hugleiða hitt og annað út frá þessu. Hvernig má það ske, að regnið, sem fellur yfir landið og dregst síðan saman í ár og læki víða af jörðum, skuli svo allt í einu verða eign þessa eða hins landeiganda, þegar vatnið fellur þar um? Er ekki eðlilegra, að einmitt þessi lind, regnið, sem fellur yfir landið allt og streymir síðan um það hingað og þangað, þessi orkulind sé í eign alþjóðar? Allt þetta vaknar upp í hugum manna við þær breyttu aðstæður, sem við erum nú farnir að lifa við á seinustu tímum, og með þetta í huga hef ég leyft mér að leggja fram þessa þáltill. Ég tel, að það sé orðið tímabært að endurskoða ýmiss konar hugtök, ýmiss konar aðstöðu varðandi eignarréttinn á landi. Við getum spurt: Hverjir eiga landið, gögn þess og gæði, er það ekki fyrst og fremst þjóðin öll?