25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (4101)

167. mál, Landssmiðjan

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þeirrar till., sem hér er til umr. og er um rekstur Landssmiðjunnar, var mjög undrandi yfir því, að hæstv. forsrh., sem er jafnframt formaður Sjálfstfl., sé andvígur rekstri Landssmiðjunnar. Mér finnst, að síðasti ræðumaður þurfi ekki að vera neitt undrandi yfir því. Sjálfstfl. hefur lýst sig andvígan ríkisrekstri yfirleitt, og því gegnir engri furðu þó að það komi fram í ræðu hjá hæstv. forsrh. hér á þingi. Það skeður ekki svo oft, að ég sé sammála hv. síðasta ræðumanni hér á þingi, 6. þm. Reykv., að ég vil nú nota tækifærið, þegar ég hef ástæðu til. Ég er fylgjandi þessari till. til þál. og mun greiða henni atkv. mitt. Í þessari till. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera áætlanir um endurskipulagningu Landssmiðjunnar í þeim tilgangi, að afkastageta fyrirtækisins verði nýtt til fullnustu. Skulu þær áætlanir m.a. taka mið af áformum um þurrkví í Reykjavík og endurskipulagningu verkstæða, sem starfrækt eru á vegum ríkis og ríkisstofnana.“

Hér finnst mér, að mætti bæta við þessa þáltill. eitthvað á þessa leið, og mun ég e.t.v. athuga það nánar í sambandi við flutning á brtt.:

Einnig verði athugaðir möguleikar á því, að Landssmiðjan starfræki a.m.k. eitt útibú á Vestur-, Norður- eða Austurlandi.

Ég held, að það eigi að athuga möguleika á endurskipulagningu Landssmiðjunnar, og í því sambandi verði haft í huga, að ríkissjóður á stórkostlegar eignir á Skagaströnd, á Siglufirði, á Húsavík, á Seyðisfirði og á Raufarhöfn, svo að ég nefni nokkra staði, sem ég held, að væri einmitt hægt að nýta sem útibú fyrir Landssmiðjuna. Þessar byggingar eru að verðmæti til í dag hundruð millj. kr. Þær standa algerlega auðar sem minnismerki síldarleysisins, og ég held, að ef þessi till. yrði samþ., yrði rétt að hafa þessa staðreynd eins og bakgrunn fyrir þá menn, sem koma til með að gera þær áætlanir, sem till. fjallar um. Ég man eftir því, að þegar ég átti þátt í því að vinna hjá ríkinu að uppbyggingu síldarverksmiðja, þá komu á staðinn, þar sem uppbyggingin var mest, starfsmenn frá þremur smiðjum hér í Reykjavík, Héðni, Hamri og Landssmiðjunni. Allir þessir menn unnu kappsamlega að því að byggja upp þessi fyrirtæki.

Ég er ekki í þeirra hópi, sem vilja alveg fortakslaust skera Landssmiðjuna niður við trog. Hitt er annað mál, að það er ósköp eðlilegt, að þeir, sem með völdin fara hverju sinni; vilji ekki horfa upp á það ár eftir ár, að það þurfi að borga stórkostlegt rekstrartap með ríkisfyrirtækjum, sem eru rekin við hliðina á sambærilegum fyrirtækjum, sem skila hagnaði. Það er mál út af fyrir sig. En það er víða hægt að koma við hagræðingu, og ég held, að það sé hægt að koma við hagræðingu hjá þessu fyrirtæki ríkisins, eins og gert hefur verið hjá ýmsum öðrum.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að hann hefði á síðasta ári og ég held líka á þessu ári þurft að útvega rekstrarfé fyrir Landssmiðjuna. Og þetta er alveg rétt. Hæstv. ráðh. hafa verið, svo að notuð séu orð ráðh., eins og útspýtt hundsskinn til að útvega ýmsum ríkisfyrirtækjum lán, rekstrarlán og uppbyggingarlán. Þetta er staðreynd. En þá spyr maður: Er ekki eitthvað að í þessu kerfi, að ráðh. sjálfir, sem bera ábyrgð á siglingu skútunnar, skuli vera í svona snatti, bankasnatti? Ég held, að þeir ættu í eitt skipti fyrir öll að veita bankastjórum þjóðbankanna á Íslandi tiltal, þannig að þeir hlusti á þá, sem standa í atvinnurekstri, bæði ríkisins og einstaklinga.

Ráðh. sagði alveg réttilega, að hann hefði stuðlað að því, að Siglóverksmiðjan fékk milljónalán á síðasta ári. Það er rétt. Ég hef verið á fundum með hæstv. forsrh., þar sem verið var að skýra rekstrarmöguleika Siglóverksmiðjunnar nú í ár, og mér finnst það fyrir neðan allar hellur, að það skuli þurfa að taka kannske 2–3 klst. einu sinni í viku eða oftar af tíma hæstv. ráðh. til að vera að skýra út málið fyrir þeim og biðja þá að standa í reddingum með rekstrarlán. Ég hugsa, að ef þetta kæmi í norrænum tíðindum, mundi þetta þykja undrum sæta, að íslenzkir ráðh. þyrftu að eyða tíma sínum í þetta. Haldið þið t.d., að eigendur síldarniðursuðu- og niðurlagningarverksmiðja í Noregi þurfi að fara upp til Bortens vinar okkar og biðja hann að fara í norska þjóðbankann til að redda rekstrarlánum? Þetta er ekki til í dæminu, og þetta verður að breytast.

Fyrst hæstv. forsrh. byrjaði að tala hér um Siglósíld, þá ætla ég að leyfa mér að gera það einnig. Síldarverksmiðjur ríkisins áttu nægilegt húsnæði á Siglufirði, til þess að þar yrði komið upp niðurlagningarverksmiðju. Henni var af miklum vanefnum komið þar fyrir í byggingu, sem fyrir var. Ég hef leyft mér hér á þessum stað og líka í blöðum að halda því fram, að það sé svipað með Siglóverksmiðjuna, frá því að hún fæddist og til þessa dags, eins og olnbogabörnin, sem er ekki ávallt of vel tekið á heimilinu. Og þetta fyrirtæki hefur aldrei fengið nægilegt rekstrarfé, og það hefur stundum ekki getað fengið þá síld, sem það hefur þurft. Í ræðu minni hér í gær eða fyrradag, þegar verið var að tala um þetta mál, þá sagði ég, að eitthvað væri að, en ég vil taka það fram hér, að það var engin sneið til síldarútvegsnefndar. Það er margt að í þessu máli. Verksmiðjan var ekki nógu vel úr garði gerð. Það er númer eitt. Það vantaði stofnfé og rekstrarfé. Ég tel, að það sé ekki lagt nóg í það að afla markaða fyrir þá vöru, sem þarna er framleidd. Verksmiðjan hefur ekki heldur alltaf fengið síld á þeim tíma, sem hún hefur þurft. Við fáum ekki beztu fáanlegu síld á Íslandi í þessa verksmiðju, hvorki þessa verksmiðju eða aðrar niðurlagningarverksmiðjur. Ég er ekkert að kenna síldarútvegsnefnd um það. Hún hefur á fundi, þar sem ég hef mætt, fært fram rök að því, að ef bezta síldin væri tekin úr, þá gætum við ekki selt 2. flokks síld til útlanda. Og þetta er líklega alveg rétt. En þarna kreppir skórinn líka að. Að lokum vil ég taka fram, að ég tel ekki heldur hægt að vinna í þessari verksmiðju á tímavinnukaupi. Ég tel, að það sé ekki hægt að borga þeim, sem leggur niður í flestar dósir á dag, sömu laun og þeim, sem er við hliðina á honum og leggur niður í fæstar. Það verður að taka upp akkorðsvinnu. Og ég held, að ef hæstv. ríkisstj. vill leggja sig fram um að tryggja framtíð þessara verksmiðja, þá þurfi að athuga öll umrædd atriði. Það þarf fleiri og betri vélar, svo er það akkorðsvinna, þá er það öflun nýrra markaða og meiri rekstrarlán.

En því minnist ég á Siglóverksmiðjuna hér? Það er vegna þess, að það vaknar sú spurning, ef leggja á Landssmiðjuna niður, vegna þess að hún ber sig ekki: Hefur þá hæstv. ríkisstj. ekki í huga að leggja niður Siglóverksmiðjuna, ef hún ber sig ekki á pappírnum? Ég vona, að til þess komi ekki. Það hafa verið birtar tölur um tap á rekstri þessarar niðurlagningarverksmiðju ríkisins, en þegar maður hefur krufið þær tölur til mergjar, þá sést, að það hefur ekki verið um tap að ræða. Það er búið að borga svo og svo mikið í útflutningssjóðina, og það er búið að borga Síldarverksmiðjum ríkisins svo og svo mikið fyrir starfsmannahald, sem er hjá síldarverksmiðjum hvort sem er. Það er borgað svo og svo mikið í leigu fyrir hús, sem eru á staðnum og voru fyrir.

Að lokum ætla ég að leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., sem jafnframt er iðnrh., hvenær vænta megi nýrrar löggjafar um niðurlagningarverksmiðju ríkisins á Siglufirði.