26.03.1971
Efri deild: 76. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (4133)

274. mál, sjúkraflug á Vestfjörðum

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir athyglisverðar upplýsingar og vil, að það komi skýrt fram, að ég er með þessari þáltill. alls ekki að leggjast gegn því, að meðalstór þyrla verði keypt til Landhelgisgæzlunnar. Þvert á móti styð ég það eindregið og tel mikilvægt, að það verði gert sem allra fyrst.

Það er þó staðreynd, hygg ég, að ein slík þyrla þjónar alls ekki öllu sjúkraflugi hér á landi. Tækið er ómetanlegt við alls konar aðstæður, þar sem nánast ekkert annað tæki getur komið til greina, eins og t.d. iðulega við björgun á hafi úti eða í klettum eða uppi í fjöllum, svo að eitthvað sé nefnt. En ein þyrla fær ekki gert mikið. Viðhald hennar er afar mikið. Hana þarf oft að yfirfara, og vitanlega fer hún langtum hægar yfir en góðar tveggja hreyfla flugvélar.

Ég tel því, að ein góð þyrla, þótt hún sé mikilvæg, þjóni alls ekki öllu sjúkraflugi, t.d. á Vestfjörðum. Því er jafnnauðsynlegt, að þar sé góð tveggja hreyfla flugvél og sjúkraflugvellir þannig, að þá megi nota í flestum tilfellum. Þegar þeir eru lokaðir, getur hins vegar þyrla að sjálfsögðu komið að mjög mikilvægum notum.

Menn verða einnig að gera sér grein fyrir því, að þyrla er ekki fær um flug í öllu veðri. Um þyrlu leikur einhver dýrðarljómi í hugum margra. Vitanlega eru þær gífurlega mikilvægt og gott tæki, en þær þola ekki fremur en aðrar vélar verstu veður, sviptivinda og erfiðar aðstæður að öðru leyti.

Ég er alveg sammála þeim samanburði, sem hæstv. dómsmrh. gerði á meðalstórri þyrlu og lítilli þyrlu. Þetta eru tvö mjög ólík tæki. Meðalstór þyrla er færari til flugs í langtum verra veðri og aðstæðum, og tel ég afar mikilvægt eins og ég sagði í upphafi míns máls, að slík þyrla verði fengin til landsins hið fyrsta.