08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í D-deild Alþingistíðinda. (4340)

337. mál, afurðalán landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þau tíðindi hafa nú gerzt, að hv. fyrirspyrjandi virðist vera verulega ánægður með þau svör, sem ég hef gefið, og þá afgreiðslu, sem þetta mál hefur fengið, og út af fyrir sig er það fréttnæmt, ef þessi hv. þm. verður sæmilega ánægður með það, sem hann er að velta fyrir sér í sambandi við landbúnaðarmálin. En ég sagði áðan, að honum væri ekki of gott að þakka sér það, að það hefði ýtt á afgreiðslu málsins, að hann bar þessa fsp. fram. En ég tók það hins vegar fram um leið, að Seðlabankinn treysti sér ekki til þess að ákveða afurðalánin út á sauðfjárafurðir fyrr en slátrun er lokið að hausti. Það hefur verið venja undanfarin ár að gera þetta í nóv., þegar birgðatalning hefur legið fyrir, og þannig var þetta nú.

Nú harmar hv. þm., að það var ekki afgreidd fyrr hækkun út á mjólkurafurðir en gert hefur verið. En hv. þm. veit, að smjörbirgðirnar voru ekki hækkaðar fyrr en 1. des. Það var verið að bíða eftir því, hvað yrði með þær. Og þess vegna voru afurðalánin út á mjólkurafurðirnar hækkuð eins fljótt og mögulegt var miðað við það, að smjörið hafði ekki hækkað fyrr en 1. des. Þetta veit nú hv. þm.

Hv. þm. talar um það, að ekki hafi verið hækkuð lán út á gærur. Það liggur þó ljóst fyrir, að heildarhækkun út á sauðfjárafurðir eru 23% eða eins og sauðfjárafurðirnar hækkuðu og meira en það, sem þær hækkuðu í grundvellinum. Gæruverðið mun hafa hækkað sáralítið nú frá því í fyrra. Ég er þó ekki alveg öruggur um það. Kannske er það eitthvað í áttina, sem þær hafa hækkað. En það er ekki mikið, og það er rétt, að það hefur ekki verið tekið sérstaklega fram, að lán út á gærur hafi verið hækkuð.

Þá má einnig geta þess, að það er rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að lán út á nautgripaafurðir hafa ekki verið hækkuð. Það má segja, að það væri eðlilegt að hækka þessi afurðalán eins og önnur. En þetta er þó ekki höfuðatriði fyrir landbúnaðinn. Höfuðatriði er það að fá rétt lán og hækkuð lán út á aðalframleiðsluvörurnar, sem eru sauðfjárafurðirnar og mjólkurafurðirnar, og þetta hefur verið gert. Það er nokkurt atriði að fá hækkuð lán út á kartöflurnar, og eins og ég sagði, þá er að því unnið nú, og ég geri mér vonir um, að það verði. En það er ekki heldur aðalatriðið, vegna þess að þetta er ekki aðalbúgreinin nema á örfáum stöðum, og því miður allt of lítil uppskera á s.l. hausti. Það er nú aðeins þetta, sem ég vildi bæta við, en tel svo ekki ástæðu til að tala meira um þetta. Ég tel, að það hafi ekki dregizt neitt óeðlilega að afgreiða þessi mál í þetta sinn, og tel, að Seðlabankinn hafi eftir atvikum gert þetta mjög sæmilega.