02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (4463)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hafði á sínum tíma á s. l. hausti borið fram fsp. til félmrh. um byggingu verkamannabústaða, og sú fsp. var í níu liðum. Þar var komið máli, að hæstv. félmrh. hafði gefið svör við fsp. eins og málið blasti við þá. En það er rétt, að þá voru ekki nema rúmlega sex mánuðir liðnir frá því, að hin nýja löggjöf tók gildi. En svörin, sem hæstv. ráðh. gaf þá, voru sannarlega ekki uppörvandi að því er snerti þá niðurstöðu, sem þá lá fyrir. Það var aðeins eitt sveitarfélag á landinu, sem var komið nokkuð á rekspöl með að undirbúa byggingu verkamannabústaða, Sauðárkróksbær, ef ég man rétt. Er það ekki rétt? (Utanrrh.: Var komið út í framkvæmdir.) Var búið að inna af hendi formsatriði laganna, þannig að orðið gæti af byggingu verkamannabústaða á árinu 1971. Er það ekki rétt? Jú, það er rétt. Það var nú ekki beysnara en það. Og þá dró ég þá ályktun, að það liti út fyrir, að það hefði verið misráðið að afnema hinn félagslega þátt í sambandi við byggingu verkamannabústaða, þ. e. að leggja byggingarfélög verkamanna niður. Og ég er raunar þeirrar skoðunar enn, að hvað sem verður nú um framkvæmdir við byggingu verkamannabústaða á næsta ári, þá sé það miður farið, að byggingarfélög verkamanna voru afnumin með lögunum, þegar þau hefðu lokið þeim byggingum, sem þau höfðu byrjað á. Ég tel, að það hefði verið eðlilegra að gefa þeim líf og ætla þeim verkefni, a. m. k. meðan þau voru að byggja yfir það fólk, sem hafði verið árum saman á biðskrá hjá þeim og ekki fengið fullnægt sínum húsnæðismálum samkv. þessari löggjöf.

Nú gleður það mig að heyra, að það séu 22 sveitarfélög, sem eru komin það langt, að þau hafa tilkynnt félmrn. um áform sín um byggingarframkvæmdir á árinu 1971, og í annan stað hafa þegar skipað stjórn verkamannabústaða samkv. 15. gr. laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þetta er fyrsti undirbúningur, fyrstu viðbrögð frá hendi sveitarfélaganna til undirbúnings því, að þau gætu orðið aðnjótandi stuðnings laganna.

Nú er ég ekki viss um það, og það er kannske ekki alveg sanngjarnt að fara fram á það, að hæstv. ráðh. hafi svör á reiðum höndum um það, hvernig málin standa nú varðandi allar þær spurningar, sem hérna voru til umr. En samt langar mig nú til að spyrja frekar, af því að svona langt er um liðið og þm. sjálfsagt úr fersku minni, hvers spurt var og hvernig svörin voru þá. Ég vil þá halda áfram, eftir að við höfum fengið þá vitneskju, að nú séu 22 sveitarfélög búin að tilkynna svona fyrsta undirbúning sinn til framkvæmda. Nú endurtek ég spurningar og veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er víðbúinn að svara: Hvaða sveitarstjórnir hafa þegar lokið byggingaáætlun? Eru þær ekki eitthvað færri en 22? Hve margar byggingaáætlanir hafa þegar hlotið staðfestingu sveitarstjórna og húsnæðismálastjórnar, svo að byggingarframkvæmdir geti hafizt samkv. 20. gr.? Hvaða sveitarfélög hafa þegar samþykkt að hefja byggingu verkamannabústaða og hvaða fjárupphæð hafa þau ákveðið á íbúa, sbr. ákvæði 20. gr. um lágmarks- og hámarksframlag? Eru þau mörg sveitarfélögin, sem búin eru að ákveða hámarks- og lágmarksupphæð á íbúa í sveitarfélaginu og þar með að leggja fjárhagslega grundvöllinn af sinni hendi til framkvæmda? Ef þau eru 22, þá þykir mér hafa vel þokazt í áttina frá því í nóv., þegar spurningarnar komu fram. En ef þau sveitarfélög eru nú sárafá enn, sem ég óttast, þá er málið ekki komið á eins ánægjulegan rekspöl og ætla hefði mátt af viðbótarsvari hæstv. félmrh. núna áðan.

Í framhaldi af þessu vildi ég spyrja: Hvaða sveitarfélög hafa nú þegar samþykkt að hefja byggingu verkamannabústaða og hvaða upphæð hafa þau ákveðið á íbúa? Hvaða sveitarfélög hafa þegar greitt framlög sín til Byggingarsjóðs verkamanna árið 1970 og hve mikið fé er það samanlagt, því að á móti því koma aftur framlög ríkisins? Þegar maður hefur svar við þessu, þá fyrst getur maður gert sér í hugarlund, hvaða framkvæmdir muni fylgja í kjölfarið. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Ég á aðeins, herra forseti, eftir að endurnýja tvær spurningar skal ekki hafa nein orð um það, og það tekur brot úr mínútu. Hve margar íbúðir verkamannabústaða verða byggðar á árinu 1971 samkv. þeim tilkynningum, sem félmrn. hafa nú borizt? Svarið kann að verða annað heldur en í haust. Hve mörg lán hafa þegar verið veitt samkv. ákvæðum 22. gr. laganna um Húsnæðismálastofnun ríkisins?

Það eru aðeins tilmæli mín, að hæstv. félmrh. gefi upplýsingar um þetta, ef hann hefur upplýsingarnar tiltækar, af því að svo langt er um liðið síðan hann gaf hin fyrri svör, og margt hefur getað breytzt síðan.