02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (4483)

345. mál, kal í túnum

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil segja hæstv. ráðh. út af umvöndunum hans í minn garð um málflutning, að hann mætti nú bara horfa í eigin barm. Hans málflutningur á Alþ. er ekki alltaf af þeim toga, að honum farist að siðsæma aðra. Og ég tek ekki við neinum umvöndunum frá hæstv. ráðh. varðandi málflutning hér í þinginu.

Ég hef ekki dregið neitt úr því, að hæstv. ríkisstj. hafi brugðizt við varðandi stuðning við hey- og fóðurkaup. Það gagnrýndi ég ekki neitt. En hinu hélt ég fram, að hún hafi ekki haft nægilega forustu um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir fóðurskortinn og koma í veg fyrir fjárhagslega erfiðleika af hans völdum, en það er of langt mál að rekja nánar hér í aths.-tíma.

Ég vil ekki fallast á það með hæstv. ráðh., að ríkisstj. geti ekkert gert til forustu um bættar aðferðir í heyverkun annað en að fjölga ráðunautum. Það er hægt með framlögum og í gegnum ýmis löggjafarariði að stuðla að því, að hér séu teknar upp nýjar, betri og tryggari aðferðir við verkun heyfengsins en nú eru um hönd hafðar. Það er hægt, ef vilji eða skilningur er fyrir því hjá stjórnarvöldum, með stuðningi við tækjaöflun, með stuðningi við byggingarnar o. s. frv., því að þegar menn eru komnir í það fjármálalegt öngþveiti, sem grasleysi margra ára hefur leitt marga bændur í, þá eru þeir ekki mikils umkomnir í því að byggja upp og gera þær ráðstafanir, sem þarf, til þess að þeir geti haldið áfram búskap með eðlilegum hætti. Og það er ekki til neins fyrir hæstv. ráðh. að láta líta svo út hér sem hann viti ekki, að lausaskuldafyrirgreiðslan er allsendis ófullnægjandi. Auðvitað vitum við allir, að hún hefur í mörgum tilfellum komið mönnum að góðu gagni, en við vitum líka jafnvel, að í mörgum tilfellum hefur hún alls ekki náð að verða mönnum að liði, og það var það, sem ég vék að hér áðan.

Svo skal ég aðeins koma inn á þetta, sem ég gagnrýndi, að seint hefði verið við brugðið. Hæstv. ráðh. sagði frá því, að hann hefði komið austur 1965 og séð kalið. En það markar engin tímamót í kalsögunni, þó að einhver hæstv. ráðh. komi í einhvern landsfjórðung og sjái með eigin augum kalið það árið. Það er ekki það, sem úrslitum ræður og markar tímamót.

Mér kemur það alveg furðulega fyrir sjónir, þegar hv. 3. þm. Austf. segir, að hér hafi verið góðæri fram til 1960. Ég hélt, að hann hefði verið á Austurlandi í kringum 1950, þegar þar gengu yfir óskapleg harðindi ár eftir ár, vorkuldarnir 1949, rigningasumarið 1950, sem á sér engan líka í manna minnum, og síðan veturinn, þegar snjór lá yfir öllu landi fram á sumar. Ég man eftir því heima hjá mér, að við grófum upp túngirðinguna undan snjó 1. júlí 1951. Og síðan komu fleiri hörð vor. Kalið fyrir austan og sums staðar fyrir norðan byrjaði strax 1951. Það byrjaði þá að gera vart við sig. En árin eftir 1960 var óskaplegt kal á stórum svæðum á Fljótsdalshéraði, einkum 1962. Þó að hæstv. ráðh. hafi þá ekki komið til Austurlands og ekki séð kalið með eigin augum, þá var það samt fyrir hendi og olli mönnum óskaplegu tjóni. Hann þarf þess vegna ekki að vænta þess, hæstv. ráðh., að við komum hér upp í fsp.-tíma og þökkum fyrir viðbragðið, að það var skipuð kalnefnd 1969 og lagðar út tilraunir 1965. Það er ekki ástæða til að þakka fyrir það. Og það er yfirleitt ekki hægt að ætlast til þess af þm. í fsp.-tíma, sem á ekki að vera nema einar 5 mínútur, að þeir geti eytt þeim tíma í þakkarávörp. Þeir eru að leita upplýsinga um tiltekin atriði og þá um leið að gagnrýna það, sem þeim finnst áfátt. Til þess eru fsp. að fá upplýsingar og benda á atriði, sem þurfi úr að bæta. Þakkirnar verðum við, held ég, að láta koma fram á öðrum tíma.