16.12.1970
Neðri deild: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

6. mál, Lífeyrissjóður bænda

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er bara smáleiðrétting. Ég þarf ekki að halda langa ræðu út af því, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði. Hv. þm. var að tala um, að ég hefði verið að tala um 10–11%, og það er alveg rétt. En það var 10–11% af grunnkaupi, og það er bara allt annað en brúttótekjur. 33 þús. kr. eru 11% af 300 þús. kr. grunnkaupi. En sé um brúttótekjur að ræða, þá er það miðað við 800 þús. kr., og það er allt annað. Þá eru þetta 4.13% á vísitölubúið. Þessu má ekki rugla saman. Ég er ekki að gera lítið úr gáfum hv. þm., því fer fjarri. Það er eðlilegt, að slíkt geti farið fram hjá mönnum, og satt að segja skal ég viðurkenna, að hv. þm. hefur sett sig töluvert inn í þetta frv. og miklu betur en ýmsir aðrir, enda er hv. þm. skilningsgóður. Ég hef sennilega verið háfleygur. Það er eðlilegt, því að því stærri sem fuglinn er, þeim mun hærra svífur hann. Vængjahafið er meira. Það eru mörgæsir og grátittlingar, sem eru alltaf niðri við jörðu.

Ég er búinn að skýra þetta mál.

Landbrh. er ekki hér, því að hann veit, að það er allt satt, sem ég hef sagt, og hann er búinn að segja það við mig, að það sé hægt að laga þetta. En hvaða afsökun er það fyrir þm. að samþykkja vitlaust frv. í þeim tilgangi, að það sé hægt að laga það einhvern tíma? Eiga aðrir að vera vitrari en við? Þegar vitleysan er augljós, þá er hún alveg ástæðulaus.

Viðvíkjandi því, að ég muni tapa atkvæðum á þessu, þá er ég alveg óhræddur um það. Annars held ég, að samúð Eyjólfs sé með mér, því að hann studdi mig vel í Morgunblaðinu og „refereraði“ málið, þannig að ég veit, að í hjarta sínu er hann mér sammála. Ég er óhræddur að bera undir bændurna, hvort þeir vildu greiða hver meðalbóndi 5.7 millj. kr. á 40 árum og fá svo 200 þús. kr. í ellinni á ári. . . (Gripið fram í.) . . . til að byrja með. Það eru 200 þús. kr., þegar þeir eru orðnir 67 ára, þegar þetta er komið í fullan gang. Þegar bóndinn er búinn að borga 5.7 millj. kr., þá fær hann 200 þús. kr. á ári — 180—200 þús. kr. — og stórbændur 220 þús. kr. Svo fær hann 100 þús. kr. frá tryggingunum, og þá er hann kominn í 320 þús. kr. Það er 20 þús. kr. meira en grunnkaup hans er samkv. núgildandi reglum. Það er 20 þús. kr. meira en meðan hann var að koma sér upp búi og kosta börnin sín. Grunnkaup bóndans og konunnar eru 300 þús. kr. fyrir utan eftirvinnu, og það er von, að þú hristir hausinn; þú manst þetta náttúrlega ekki. Grunnkaupið er áætlað það á pappírnum, ég tek það fram. En hitt er svo annað mál, að sumt af þessum efnaminni bændum, sem þurfa að borga þennan skatt, fá auðvitað aldrei þetta kaup, og það kemur hvað harðast niður á þeim að greiða þetta, sem eru getuminnstir, þó að það eigi pínulítið að ræna af þeim, sem borga meira í framkvæmdinni. Það er ekki þar fyrir, að þeim veitist enn erfiðara að borga, þannig að þetta er allt í lagi. Ég er búinn að skýra þetta, og ég get það ekki betur.

En ég vara við því, að ég held þessum áróðri áfram. Ég læt ekki þegjandi fara svona með mína stétt, eins og gert er. Fyrir utan það, að þetta lífeyrissjóðstal núna um ógengistryggða lífeyrissjóði er tóm endileysa. Það er eins og þegar ein kýr baular, þá baular önnur. Þegar menn heyrðu talað um lífeyrissjóð hjá verkamönnum í fyrra hlupu allir af stað með lífeyrissjóði. Þetta hljóta að vera óskapleg hlunnindi.

Svo held ég, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, að þetta séu blekkingar. Auðvitað á aldrei að semja svona. Þeir áttu miklu frekar að borga þeim hærra kaup. Það versta og vitlausasta, sem atvinnurekendur ganga inn á, er að ganga inn á þessa aukaskatta, eins og launaskattinn og aðra slíka skatta. Því að kaupkrafan kemur ævinlega á eftir, en þeir sitja eftir með þessar álögur. Og það er alvarlegur hlutur. Nú er launaskatturinn kominn í 21/2%. Ég er ekki farinn að sjá kostina við hann. Hvernig gengur yfirleitt að losna við skatta, sem búið er einu sinni að leggja á? Hvernig hefur okkur gengið að losna við bændaskattinn, sem átti að standa í fjögur ár? Ég veit ekki betur en hann sé kominn yfir í Bjargráðasjóð, þ. e. sú lækkun, sem varð á honum. Og hvernig gengur okkur bændunum að losna við skattinn til stéttarsambandsins, þegar við erum búnir að byggja bændahöllina? Þeir eiga vitanlega að lífa á vöxtunum af því, sem við erum búnir að leggja í bændahöllina; ég ætlaðist til þess. Nei, þeir eru ekki að tala um að afnema hann, heldur eru þeir að tala um að leggja á okkur nýja skatta.