09.11.1970
Neðri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

101. mál, atvinnuöryggi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Málsvarar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja hafa lokið ræðum sínum um þetta mál. Ekki fer á milli mála, að hér er um mikilvægt frv. að ræða, hér er um stórmál að ræða, og þess vegna kemst ég ekki hjá því að láta í ljós þá skoðun mína í upphafi þessara orða minna, að ég undrast, hversu linlegur málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur verið.

Satt að segja ætti ég e. t. v. ekki að láta í ljós neina undrun á því, því að málavextir eru þeir, að í sannleika sagt er ekki hægt að láta mikinn þunga fylgja gagnrýni á því máli, sem hér er um að ræða. Samt sem áður hefur maður vanizt því af hálfu stjórnarandstæðinga, að þeir hafa gert mikið úr litlu, að þeir hafa viðhaft stór orð af mjög litlu tilefni, og þess vegna hefði það ekki komið mér á óvart, þó þeir hefðu nú virkilega tekið upp í sig í ræðum sínum í eftirmiðdag, en það gerðu þeir nú raunar ekki. Kannske ber þetta vitni um, að þeir séu batnandi menn, og batnandi mönnum er bezt að lifa, eins og allir vita. Ég vona a. m. k., að það sé ástæðan til þess. Ég skil þessi linlegu andmæli þannig, að þrátt fyrir allt þá sé nú þessum hv. þm. ekki svo mikils varnað, að þeir skilji það ekki, að hér er í fyrsta lagi um bráðnauðsynlegar aðgerðir að ræða og í öðru lagi aðgerðir, sem hafa verið mjög vandlega undirbúnar og skynsamlega frá efnahagslegu sjónarmiði, og auk þess mjög sanngjarnar og réttlátar frá félagslegu sjónarmiði, og að því mun ég víkja svolítið nánar hér á eftir.

Við hæstv. utanrrh. munum vera einu tveir þm., sem höfum unnið í ríkisstj. með öllum þingflokkunum, og ég mun vera sá eini af núverandi ráðh., sem hefur haft þá ánægju að vinna með þeim flokki, sem ég nú vinn með, í 10 ár, en einnig með þeim flokkum, sem nú eru í stjórnarandstöðu, og það er eðlilegt, að þetta sé nokkur reynsla. Það er sannarlega nokkur lífsreynsla að hafa unnið með öllum aðalflokkum þingsins í ríkisstj. Ég hef ágætar minningar um samstarfið í stjórn Hermanns Jónassonar við Framsfl. og Alþb. Eins og hverjum manni ber skylda til, sem er falið það að gegna ráðh.-embætti fyrir flokk sinn, þá lagði ég mig fram í þeirri stjórn um það að ná sem skynsamlegustu samstarfi um þau vandamál, sem við var að etja hverju sinni, og barðist svo fyrir þeirri niðurstöðu, sem fékkst, af því viti, sem mér er léð, alveg eins og ég starfa í þessari ríkisstj., sem ég sit í núna. Þegar lausn er fundin á vandamáli og maður leggur sig fram um, að sú lausn sé eins lík sjónarmiðum síns flokks og mögulegt er, þá leggur maður sig allan fram um að skýra og auka skilning á þeirri lausn, sem fundin er.

En þannig vill til, að þegar vinstri stjórnin, stjórn Hermanns Jónassonar, tók við völdum í júlí 1956, var við vanda að etja í efnahagsmálum, sem að ýmsu leyti var ekki ósvipaður þeim vanda, sem er nú við að etja. Ég man það, að við einmitt, þeir sömu menn, sem talað hafa hér í dag, hv. þm. Hannibal Valdimarsson, sem þá var félmrh., hv. þm. Lúðvík Jósefsson, sem þá var sjútvmrh., og ekki hvað sízt hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson, sem ekki hefur nú talað enn þá, lögðum okkur mikið fram um það í margar vikur sumarið 1956, að finna sameiginlega og skynsamlega lausn á þeim vanda, sem þá blasti við og við var að etja. En hann var í mjög einföldum og fáum orðum sagt sá, að það lá fyrir, að kaupgjaldsvísitala átti 1. sept. 1956 að hækka úr 178 stigum í 184 stig. Hún átti að hækka 1. sept. um 6 stig eða um rúmlega 3%, og við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu, við hv. þm. Hannibal Valdimarsson og Lúðvík Jósefsson og ríkisstj. öll raunar, að útflutningsatvinnuvegunum alveg sérstaklega og atvinnuvegunum yfirleitt mundi verða ofboðið með þessari 6 stiga kauphækkun. Þá yrði ekki hjá því komizt að grípa til ráðstafana til að hjálpa sérstaklega útflutningsatvinnuvegunum, og það töldum við ranga leið, svo að niðurstaðan varð sú, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson, þáv. félmrh., gaf út brbl. 28. ágúst 1956 um það, að greiðsla þessara vísitölustiga skyldi falla niður. M. ö. o., að það skyldi engin kauphækkun verða 1. sept. 1956 þrátt fyrir skýlaus ákvæði samninga stéttarfélaganna um það, að þau ættu þessa kauphækkun, þessa 3% kauphækkun, 6 stiga kauphækkun, 1. sept. 1956.

Við rökstuddum þetta með því, og ég tel fyrir mína hluta algerlega réttilega, að jafnvel þótt þessi kauphækkun kæmi til framkvæmda, þá yrði að því mjög skammgóður vermir fyrir launþegana sjálfa, vegna þess að verðleggja átti landbúnaðarvörur í sept. og vitað var, að þær mundu einnig hækka mjög verulega, þannig að kauphækkunin 1. sept. mundi verða að engu orðin um miðjan sept., þegar landbúnaðarverðið kæmi. Að vísu, samkv. gildandi samningum, átti kaupverðið aftur að hækka Í. des. 1956, og þá væri vísitöluskrúfan í fullum gangi, og við vorum hjartanlega sammála um, að þessa þróun yrðum við að hindra og hún var hindruð ofur einfaldlega með því að greiðsla þessara 6 vísitölustiga var felld niður, launþegar voru með löggjöf látnir afsala sér þessari kauphækkun. Hið sama var látið gilda um bændur, en engar byrðar voru lagðar á atvinnurekendur í þessu sambandi. Sú aukna niðurgreiðsla, sem átti sér stað, var greidd úr ríkissjóði og það auðvitað með auknum álögum á borgarana á næsta ári, þegar næstu fjárlög voru afgreidd. Það voru engar hliðarráðstafanir með þessari 6 stiga vísitöluskerðingu, engin hækkun á tryggingabótum t. d.

Við í Alþfl. gerðum okkur algerlega ljóst, að á þessum tíma var fjárhagsástand bæði atvinnuvega og ríkisins svo erfitt, að ekki var hægt, ef maður vildi halda réttlæti í heiðri, að leggja til, að atvinnurekendur legðu fram verulegar fúlgur til þess að létta á þessum vanda, og fjárhagur ríkissjóðs var líka þannig, að við gátum ekki lagt til, að t. d. tryggingabætur yrðu verulega auknar. Það, sem gert var í ágústlok 1956, var það, að það var lögð einhliða byrði á launþega og bændur til þess að leysa þann vanda, sem fyrir hendi var.

Hitt er svo alveg rétt, að það hefði orðið þyngri byrði að gera þetta ekki, því að þá hefði verðbólguhjólið farið að snúast og snúizt með vaxandi hraða, og það getur enga skynsama menn greint á um það, að þegar verðbólguhjólið snýst, og snýst með vaxandi hraða, þá tapa allir launþegar líka. Þess vegna var þessi bráðabirgðafórn, sem færð var 28. okt., eins og við sögðum, ekki fórn, ef yfir lengri tíma er litið. Hún var réttmæt, ef horft var fram í tímann og það skoðað, hvað mundi gerast, ef þetta ætti sér ekki stað. Þess vegna var ég þá og er enn, sannfærður um, að þær ráðstafanir voru réttar.

En við stöndum núna frammi fyrir mjög svipuðum vanda. Að vísu vissum við 1. sept. s. l., hvað var að gerast. Þá hækkaði kaup um 4.2% vegna hækkaðs framfærslukostnaðar. Við tókum þá ákvörðun, að þessi kauphækkun skyldi borin af atvinnurekendum, og það hefur verið. Engin samþykkt verðlagsnefndar hefur leyft að reikna þessa 4.2% kauphækkun 1. sept. inn í verðlag nokkurrar vöru, er vald verðlagsnefndar tekur til. En við gerðum okkur auðvitað ljóst, að þetta var hægt 1. sept. en þetta er ekki hægt áfram. Við höfum séð fram á það undanfarið, að fram til 1. febr. n. k. þá mun verðlag hækka og þar með kaupið í kjölfar verðlagsins um 7.5%. Og við teljum núna í ríkisstj., alveg eins og við töldum í stjórn Hermanns Jónassonar, að þetta sé meiri kauphækkun en atvinnuvegirnir mundu geta þolað, án þess að nauðsynlegt væri að hefja styrki, stefnu, sem við ekki viljum taka upp. Þegar það er haft í huga, að kaupgjald er nú 26.5% hærra en það var í maí s. l. þá þarf engum getum að því að leiða, að það væri þeim algerlega um megn að bera 7.5% kauphækkun til viðbótar fram til 1. febr. n. k.

En hvað á þá að taka til bragðs? Ef við í ríkisstj. núna hefðum farið eins að og ríkisstj. Hermanns Jónassonar, þá hefðum við átt að koma í veg fyrir alla þessa kauphækkun. Ef við teljum kaupið ekki geta hækkað frá deginum í dag, af því að búið var að hækka það um 26.5%, þá hefðum við átt að láta þessi vísitölustig hverfa. Það var það, sem stjórn Hermanns Jónassonar raunverulega gerði. (Gripið fram í.) Ég ætla einmitt að koma að því. Auðvitað tel ég það sjálfsagt, að það sé tekið skýrt fram, að allar aðstæður til þess að hafa ráðstafanir sanngjarnar og réttlátar núna eru miklu betri en þær voru sumarið 1956. Árferði nú er miklu betra en það var á árinu 1956. Þess vegna urðu aðgerðirnar 1956 eins og þær raunverulega urðu, en nú eru betri skilyrði til þess að láta aðgerðirnar ekki verða byrði á almenningi og þau skilyrði eru notuð, það er einmitt það, sem verið er að gera núna. Það er verið að nota góðar efnahagsaðstæður til þess að láta ráðstafanir ekki verða byrði fyrir hinn almenna launamann.

Ég skal ekki rekja það, sem hæstv. forsrh. sagði. Efni frv. sjálfs er öllum hv. þm. kunnugt eftir þær umr., sem fram hafa farið. En mergurinn málsins er sá, að sú leið, sem við í ríkisstj. eða stjórnarflokkunum ákváðum að fara, var það, að svipta launþegana ekki þeirri kaupuppbót, sem þeir eiga að fá, raska ekki vísitölukerfinu, raska í engu þeim umsamda rétti launþegans að fá kauphækkun, ef verðlagið hækkar, heldur að greiða niður íslenzkar landbúnaðarvörur og auka fjölskyldubætur, sem því svarar, sem við vítum, að vísitalan kemur til með að hækka um. Til viðbótar þessu er síðan 2% kauphækkun frestað til 1. sept., ekki felld niður, henni er frestað. Að því skal ég víkja nánar á eftir.

Þessar ráðstafanir hafa verið miðaðar við það, að sú kaupmáttaraukning, sem launþegasamtökin sömdu um í sumar, haldist. Ég endurtek og ég undirstrika sérstaklega, að það er kjarni þessara ráðstafana, það er grundvöllur þeirra, það er meginforsenda þeirra. Það er innsti kjarni þeirra, að kaupmáttaraukningin, sem um var samið í júní, haldist. Allir vita, að það var samið um u. þ. b. 18% meðaltalshækkun á grunnkaupi, og auk þess kom til framkvæmda vísitöluhækkunin frá því í mal, þannig að kaup hækkaði við samningana um u. þ. b. 21%. Eftir samningana var útborgað kaup í krónum 21% hærra en það var að meðaltali fyrir samningana.

Nú vita auðvitað allir, að kaupmáttur launa er ekki í réttu hlutfalli við hækkun krónutölu kaupsins, fyrst og fremst vegna þess, að það hefur verið um langt skeið ákvæði í öllum kjarasamningum, að kaupgjald skuli ekki hækka vegna þeirrar hækkunar á landbúnaðarvörum, sem á rót sína að rekja til þeirrar kauphækkunar bóndans, sem siglir í kjölfar umsaminnar kauphækkunar við sjávarsíðuna. Í samningum stéttarfélaga um áratugabil, held ég að megi segja, hefur því verið samningsákvæði, sem beinlínis gerir ráð fyrir því, að hækkuð krónutala jafngildi ekki auknum kaupmætti.

Það var reiknað út af sérfræðingum, og þeir útreikningar liggja fyrir, — ég man ekki betur en að þeir hafi verið kynntir fulltrúum vinnumarkaðarins í þeim viðræðum, sem fram fóru, — alveg óvefengjanlega, að það, sem launþeginn hefði haldið eftir af 21% kauphækkuninni, væru 17%. M. ö. o. kauphækkun í krónum um 21% skilar launþeganum 17% kjarabót. Það, sem við höfum verið að vinna að, allar götur síðan þetta gerðist, var með hverjum hætti við gætum tryggt launþeganum, að hann héldi 16–17% kjarabótum, m. ö. o. að kjör hans rýrnuðu ekki miðað við það, sem um hafði samizt í júní s. l. Þegar þær ráðstafanir, sem ráðgerðar eru í þessu frv., eru komnar til fullra framkvæmda, þ. e. a. s. þegar allar niðurgreiðslur eru komnar til framkvæmda, og þegar fjölskyldubæturnar hafa verið hækkaðar upp í það, sem ráðgert er, þá kemur einmitt í ljós, að eftir sem áður hefur launþeginn 17% meiri kaupmátt en hann hafði í maí s. l. (Gripið fram í: Þegar búið er að hækka tryggingagjöldin.) Já, það er rétt, þau hækka frá 1. nóv. Það verkar aftur fyrir sig. Það er þegar ákveðið. M. ö. o. er hugsunin í ráðstöfuninni einmitt þessi. Upphæð niðurgreiðslnanna og hækkun fjölskyldubótanna var beinlínis við það miðuð, að eftir yrði 17% kaupmáttaraukning frá því um miðjan maí s. l. Ef einhver tortryggir þá útreikninga, sem sérfræðingar hafa gert um þetta efni, þá er það þeirra að svara, en ég hef enga trú á því, því að hér er alls ekki um mjög torreiknað dæmi að ræða, og ekki nokkur minnsta ástæða til þess að vefengja þær tölur, sem sérfræðingar hafa afhent ríkisstj. og öðrum þeim aðilum, sem á þessu hafa áhuga.

Það, sem við höfum viljað gera og létum í ljós strax í sumar, að við vildum vinna að, þó við hefðum ekki getað lofað því, fyrr en við vorum raunverulega búin að semja um málið og kanna alla hugsanlega möguleika, var að varðveita umsamda kaupmáttaraukningu frá því í júní. Og ég leyfi mér að staðhæfa og fullyrða og það er ómótmælanlegt, að það hefur tekizt, þegar þessar ráðstafanir hafa komið til fullra framkvæmda. Í þessu dæmi er ekki reiknað með þeirri 2% kauphækkun, sem fresta skyldi til 1. sept. n. k. Að öllu öðru óbreyttu mundi sú kauphækkun verða aukning á kaupmætti frá því, sem nú á sér stað, og frá því, sem var í maí s. l. Ég segi að öllu óbreyttu. Ef mönnum tekst ekki að halda þessu gangandi með þeim hætti, sem ráðgert er, þá verður kauphækkunin, sem bíður til 1. sept., nettóviðbót við kaupmátt launanna.

Ég vona, að hv. stjórnarandstaða hafi gert sér ljóst í aðalatriðum, að málið er þannig vaxið. Og þegar málavextir eru svona, þá er ekki, og það met ég við hv. stjórnarandstæðinga, mikið tilefni til að hrópa sérstaklega hátt, sem betur fer.

Einn hv. þm. Alþb. sagði hér í þessari hv. d. fyrir nokkrum dögum, að hann teldi sig vita, að ríkisstj. væri að undirbúa það að láta ekki koma til framkvæmda kauphækkun, sem svaraði 5, 6 til 7 stigum. Þarna var þessi ágæti þm. óvenjulega hreinskilinn, og ég minnist enn, hversu glaður ég var í sæti mínu, þegar ég heyrði þm. segja þetta, vegna þess að þá vissi ég, að ekkert slíkt stóð til, og engin hætta var á því, að til neins slíks þyrfti að koma. En þetta sýndi, við hverju þessi hv. þm. bjóst. Því var þetta prentað í blaði hans daginn eftir, þannig að ekkert fór á milli mála. Þetta var það, sem hann bjóst við, og ég er raunar ekkert hissa á því, að ýmsir fleiri hafi búizt við því, að eitthvað þvíumlíkt mundi gerast. Ekki af því að við værum illviljaðir, sem að þessu öllu saman stóðum, heldur af því, að málið væri svo torleyst og vandasamt, að við mundum ekki geta annað en látið ráðstafanirnar hafa í för með sér verulega kjaraskerðingu fyrir launamenn.

Það hefur verið sagt, að við værum þeirrar skoðunar, að kauphækkunin í sumar hafi verið allt of há. Það er rangt. Ég veit ekki til þess, að nokkur þm. stjórnarflokkanna hafi nokkurn tíma sagt eitt einasta orð, sem hafi mátt túlka þannig, að kauphækkunin í sumar hafi verið of há. Það getur verið, að ef þróun mála hefði orðið erfiðari en hún hefur reynzt, þá gæti verið, að svo hefði farið, að hún hefði reynzt of há, en þróun mála hefur verið þannig, að atvinnuvegirnir geta staðið undir henni, og þá viljum við láta þá gera það. Þeir geta staðið undir þeirri 26% hækkun, sem orðin er, og þá eiga þeir að gera það. Afkoma þeirra er svo góð, að við höfum treyst okkur til þess að láta atvinnuvegina leggja fram 1.5% launaskatt, sem gefur um 327 millj. króna, og afkoma ríkissjóðs er líka sem betur fer þannig, að hann hefur getað tekið á sig mjög verulegar byrðar í þessu sambandi.

Ég vona, að engum finnist það óréttlátt, þó að þeir, sem neyta áfengis og tóbaks, séu látnir greiða 15% hærra verð fyrir þessar vörur, þegar kaupgjald hefur hækkað um 30%, síðan verðinu var breytt síðast, svo að ég skil ekki í því, að nokkrum manni geti fundizt annað en þær fjáröflunarleiðir, sem farnar hafa verið, launaskatturinn, hækkun á áfengi og tóbaki og hagnýting á góðri afkomu ríkissjóðs, hafi verið réttlátar og skynsamlegar lausnir til þess að auka niðurgreiðslu, til þess að lækka verð á brýnustu nauðsynjum og hækka fjölskyldubætur, til þess að vega upp á móti þeirri óhjákvæmilegu hækkun á öðrum sviðum, sem hlýtur að eiga sér stað.

Þetta er það, sem ég tel vera merg málsins og vildi fyrst og fremst leggja áherzlu á nú þegar við þessa 1. umr. Það hefur tekizt að varðveita umsamda kaupmáttaraukningu í sumar. Það hvarflar ekki að mér að segja það, að þetta hafi tekizt vegna þess að þessi ríkisstj. sé betri en allar aðrar ríkisstj., sem setið hafa, eða við séum eitthvað sérstaklega klókir, úrræðagóðir eða hyggnir menn. Við erum bara venjulegir menn, sem gegnum þessum störfum, en við erum góðviljaðir, held ég, og viljum gjarnan leita að þeirri lausn, sem er sanngjörn og skynsamleg, og það hefur tekizt.

En það hvarflar ekki að mér að bera á móti því, að það, sem hefur gert okkur þetta kleift, er gott árferði ársins í ár. Og gott árferði ársins í ár og ársins í fyrra hefur hagnýtzt mjög vel, vegna þess að við höfum fylgt réttri efnahagsstefnu á undanförnum árum. Við höfðum kjark til þess, þegar við urðum fyrir mestu áföllum á öldinni í efnahagsmálum okkar á árunum 1966, 1967 og 1968, til þess að grípa til erfiðra og um skeið óvinsælla ráðstafana. Við breyttum genginu í stað þess að taka upp nýtt kerfi uppbóta og hafta. Við þurftum kjark, og þann kjark höfðum við, sem betur fer. Ef við hefðum farið hina leiðina, ef við hefðum farið gömlu leiðina, sem ég vil nú gjarnan kenna við Framsfl., leið útflutningsbóta og innflutningshafta, þá er það alveg áreiðanlegt, að sá bati, sem hefur orðið í árferði og verðlagi erlendis, hefði ekki nýtzt með jafngóðum hætti og hann hefur nýtzt. Það er einmitt sú stefna, sem fylgt hefur verið, sem er skýringin á því, hversu tiltölulega fljótt batinn kom fram af hinu góða árferði og af hinu hagstæða verðlagi. Og þegar þetta á sér stað, er sjálfsagt að láta fyrst og fremst launafólkið njóta þess og það hefur fengið að njóta þess. Það fékk réttmæta, nauðsynlega og sjálfsagða kjarabót í sumar. Það má e.t.v. segja, að teflt hafi verið á tæpt vað í von um áframhaldandi bata, en sá bati hefur haldið áfram, og þess vegna er kaupmáttaraukningin tryggð og verður tryggð áfram, nema eitthvað algerlega óvænt gerist.

Hv. síðasti ræðumaður sagði, að í þessu frv. fælist árás á samningsréttinn. Þetta er eina atriðið, sem ég sé ástæðu til þess að nefna af einstökum atriðum úr ræðum ræðumannanna. Hér er nefnilega um mjög mikilvægt atriði að ræða, sem ég vil ekki láta ósvarað. Og það skal vera síðasta atriðið, sem ég vík að í þessari ræðu. Ég tel tal um árás á samningsrétt í lagasetningu Alþ. í raun og veru vera orðaleik í þetta skipti eins og í svo mörg önnur skipti áður. Nákvæmlega sama var haft uppi um brbl. hæstv. þáv. félmrh., Hannibals Valdimarssonar, haustið 1956. Þá var mikið um þetta talað líka. Mér fannst það vera í raun og veru orðaleikur. Samningar milli aðila vinnumarkaðarins eru eitt, og ráðstafanir Alþ. sem fulltrúa þjóðarheildarinnar eru annað. Alþ. þarf oft að setja lög, sem snerta samningsfrelsi manna, snerta samninga manna og ýmsar ráðstafanir og aðgerðir. Alþ. þarf að gæta hagsmuna þjóðarheildarinnar við sínar ráðstafanir. Ég skal fúslega játa, að að forminu til má segja, að það ákvæði frv. að taka ekki tillit til hækkunar áfengis og tóbaks í vísitölunni sé röskun á samningsrétti, þar sem það, sem samið var um í sumar, er ákveðin vísitala, ákveðinn vísitölugrundvöllur. Það má auðvitað líka segja, að það að taka ekki tillit til almannatryggingagjaldsins sé breyting á samningsréttinum, vegna þess að þetta breytir þeim grundvelli, sem kaupgjaldssamningar hafa hingað til verið miðaðir við. Enn fremur má segja um frestunina á 2%, að þetta er annað en orðið hefði, ef engin lög hefðu verið sett og samningarnir hefðu verið framkvæmdir, eins og þeir voru undirskrifaðir í júní s. l. En hér verður að hafa í huga, hvað á móti kemur. Það eru önnur atriði í þessum heildarráðstöfunum, sem breyta líka samningunum. Í samningunum stendur t. d. og er búið að standa mjög lengi, eins og allir vita, að verðhækkanir bætast aðeins á á þriggja mánaða fresti. En verðlagið getur haldið áfram að hækka með jöfnu millibili á þessum þrem mánuðum, þannig að þetta samningsákvæði er beinlínis um það, að menn skuli ekki fá fullar verðlagsuppbætur, þegar á langan tíma er litið. Það er alveg augljóst, að ef verðlag hækkar smám saman á 12 mánuðum, en kaupgjald hækkar bara 4 sinnum á þessum 12 mánuðum, þá tapar launþeginn. Um það hefur verkalýðshreyfingin samið, að þetta skuli vera svona. Þarna er m. ö. o. alveg skýrt ákvæði um það, að 100% vísitöluuppbót fær launþegi ekki með frjálsum samningum. Nákvæmlega sama gildir um þennan svokallaða búvörufrádrátt, sem verkalýðshreyfingin hefur samið um nú í marga áratugi. Þetta er ákvæði, sem skerðir 100% uppbót launþegans.

En hvað er nú verið að gera, ef þessar ráðstafanir eru skoðaðar sem heild? Það er verið að tryggja stöðugt verðlag til sept. 1971. M. ö. o. er verið að forða launþeganum frá því, að verðlagið hækki smám saman, en kaupið ekki nema á þriggja mánaða fresti. Það er verið að forða launþeganum frá tapi, sem hann hefur samið um og viðurkennt í sínum samningum. Mér dettur ekki í hug í raun og veru að túlka þetta. Það eru útvegaðar 800 millj. kr. til þess að koma í veg fyrir verðhækkun, sem annars mundi verða og launþeginn hefði tapað á. Hagfræðingar hafa reiknað það út, að bara fram til 1. febr. n. k. mundi, ef ekkert hefði verið að gert, launþeginn hafa tapað 2%, á því, að verðhækkanirnar hefðu komið á undan kauphækkuninni. Á ársgrundvelli er þetta tap, miðað við að ekkert viðnám hefði verið veitt, einhvers staðar á milli 2–3%. Ekki dettur mér í hug að fara að segja, að þessar ráðstafanir raski samningsgrundvelli launþegum í hag. Það hvarflar ekki að mér að beita þeirri röksemdafærslu. En það er sams konar röksemdafærsla, sem verið er að beita, þegar verið er að tala um það, að áfengi og tóbak komi ekki inn í grundvöllinn og almannatryggingarnar og frestun um nokkra mánuði á 2% sé röskun á samningsgrundvellinum. Ef menn segja þetta, þá má eins segja hitt. Og það er ekkert undarlegt við það, þó að jafnvíðtæk löggjöf og hér er um að ræða, hafi einhver heildaráhrif á kaupmátt launanna. Og það er kaupmáttur launanna, sem er kjarninn í samningunum. Samningarnir eru ekki um það, hvað krónan skuli hækka mikið eða hvernig vísitalan skuli reiknuð út. Það er ekki kjarni samninganna. Kjarni samninganna er kaupmáttaraukningin, sem samningarnir færa launþeganum, og þessum kjarna samninganna er ekki raskað með þessum heildarframkvæmdum. Þvert á móti er þessi kjarni samninganna staðfestur með þeim. Hefði þetta ekki verið gert, þá hefði verðbólguhjólið haldið áfram að snúast með vaxandi hraða, og á því hefði launþeginn sannarlega stórskaðazt. M. ö. o. er með 800 millj. kr. framlagi frá atvinnurekendum, frá ríkissjóði og frá neytendum áfengis og tóbaks launþeganum forðað frá snúningi verðbólguhjólsins. Honum er forðað frá því að verða að bíða eftir kauphækkunum. Honum er forðað frá sannanlegu tjóni, sem hann ella hefði orðið fyrir. En með þessum ráðstöfunum er honum tryggð sú kaupmáttaraukning, sem hann samdi um í sumar og auðvitað mátti ekki og átti ekki að taka af honum.

Herra forseti. Auðvitað væri hægt að víkja að mörgum einstökum atriðum, sem komið hafa fram í ræðum þeirra þriggja stjórnarandstæðinga, sem talað hafa. En ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins. Ég tel hitt vera miklu, miklu mikilvægara að undirstrika það, sem ég og við í ríkisstj. teljum kjarna málsins. Það er tilgangurinn með þessum ráðstöfunum að varðveita þá samninga, sem gerðir voru á milli launþega og vinnuveitenda í sumar, varðveita þá kjarabót, sem var réttmæt og þá samdist um, og það tekst með þessum ráðstöfunum að varðveita hana. Þess vegna hafa engir aðilar í þjóðfélaginu jafnmikla hagsmuni af því, að þær nái fram að ganga, sem ég efast ekki um, að þær geri, og einmitt launþegastéttirnar á Íslandi.