16.12.1970
Efri deild: 36. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

147. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í hv. Nd. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út í september s. l. Efni brbl. var það að taka inn í háskólalög ákvæði um nám í almennum þjóðfélagsfræðum. Háskólinn hafði ekki óskað eftir því, að sérstök háskóladeild væri stofnuð í sambandi við þetta nýja nám í almennum þjóðfélagsfræðum, heldur eftir því, að stofnað yrði til sérstakrar námsbrautar og skyldi námið stundað í nokkrum af deildum Háskólans og yrði það undir sérstakri stjórn. Féllst ríkisstj. á þetta sjónarmið Háskólans, og voru brbl. sett í samræmi við óskir stofnunarinnar. Hv. menntmn. hefur aukið við frv. nokkuð í samráði við mig og Háskólann. Aðalbreytingin er fólgin í því, að nú skuli heimilað að stofna sérstaka deild, sérstaka þjóðfélagsfræðadeild, í Háskólanum að fengnum till. háskólaráðs og umsögn rektors og háskólaritara. Það var andstaða gegn því á s. l. sumri í Háskólanum, að slík deild yrði stofnuð. Nú virðist svo sem sú andstaða sé orðin minni. Ég mun ekki stofna sérstaka deild, nema Háskólinn geri till. um það. Málið var afgr. shlj. í hv. Nd. samkv. einróma meðmælum hv. menntmn. Ég vona, að eins fari hér, að ekki verði ágreiningur um málið. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.