10.11.1970
Neðri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

101. mál, atvinnuöryggi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það fór þó aldrei svo, að þessar efnahagsumr. gætu ekki veríð dálítið skemmtilegar og hughreystandi, og þakka ég alveg sérstaklega síðasta þm., hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarssyni, því að hann sagðist ekki vera í nokkrum vafa um það, að núv. ríkisstj. mundi verða við völd 31. ágúst 1971. (Gripið fram í.) Jú, jú, eftir því að dæma eins og hann talaði. Hann sagði, að það yrði hellt úr skjóðunni, það erum við, sem áttum að hella úr skjóðunni, ekki mundi hann og hans líkar gera það, og ég þakka honum mjög fyrir. Það er hughreystandi fyrir okkur að geta búizt við slíkum kosningaúrslitum. Þetta voru nú meir gamanmál og eins hitt, viðræður okkar forsrh. Dana, um hvað tæki við eftir verðstöðvun. En ég leiddi ýmsum getum að því í lok ræðu minnar og hirði ekki að fara fleiri orðum eða endurtaka það nú, það er ástæðulaust.

En út af því, sem hv. 9. þm. Reykv. vitnaði í ræðu mína áðan, þá stendur rétt á undan þessum setningum, og það vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fá að taka upp:

„Á undanförnum áratugum hefur hvað eftir annað orðið að grípa til hliðstæðra ráðstafana og nú til þess að stöðva örar verðhækkanir og tryggja atvinnuöryggi. Því hefur þá verið haldið fram, og svo mun sjálfsagt enn verða gert að þessu sinni, að með slíkum ráðstöfunum sé verið að leggja byrðar á þjóðina, og deilur hafa spunnizt um það, hvort þeim byrðum sé réttlátlega skipt á milli þjóðfélagsþegnanna. Þetta er hið mesta öfugmæli. Með þessum ráðstöfunum er ekki verið að leggja byrðar á þjóðina, heldur er þvert á móti verið að koma í veg fyrir, að hún þurfi að bera þær byrðar, sem minnkandi framleiðsla og samdráttur atvinnu að öðrum kosti mundi leggja henni á herðar. Framkvæmd þessara ráðstafana mun stuðla að því, að raunverulegur tekjur og neyzla allra þjóðfélagsþegnanna verði meiri á árinu 1971 en á árinu 1970.“

Þessi skoðun mín fer alveg saman við skoðun hæstv. viðskmrh., sem kom fram hér í gær og vitnað var til.

Það eru ekki ýkjamörg atriði í þessum umr., sem ég þarf að víkja að, en þó vil ég sérstaklega taka eitt fram. Hér hefur verið margendurtekið, að ég hafi auglýst eftir verðhækkunum í landinu. Það var á ósvífinn hátt gert í sjónvarpinu af fleiri aðilum þar og alveg sérstaklega hv. 3. þm. Vesturl., og hann hefur margendurtekið þessar ósvífnu staðhæfingar sínar hér í þingsölunum, og hann lætur prenta þær eftir sér á forsíðunni í Tímanum í dag, en aðrir þm. hafa því miður fallið fyrir þeirri freistingu að taka undir þetta og þ. á m. hv. 9. þm. Reykv. En það, sem ég átel hérna, er, að því er haldið fram, bæði hér í þingsölum og í sjónvarpi, að það hafi verið boðaðar aðgerðir af mér um verðstöðvun nokkrum vikum fyrir framkvæmd hennar, svo að allir, sem áhuga höfðu, gátu fullnægt löngun sinni um hækkun á vörum og þjónustu og þar með ríkisstofnanir. Hér er ekki aðeins verið að fara með rangt mál, hér er ekki aðeins verið að fara með blekkingar, heldur er hér verið að fara með vísvitandi blekkingar, því að ég ætla engum þeirra þm., sem viðhafa þessi orð, að þeir viti ekki, hvernig verðlagslögum og verðlagsákvæðum er háttað hér á Íslandi. Ég gerði grein fyrir því í minni ræðu og að því hefur hvergi verið vikið og enginn vefengdi það, að það væri rétt, sem ég sagði um það. Ég hef fengið umsögn formanns verðlagsnefndar um þetta atriði, sem er alveg nákvæmlega í samræmi við það, sem ég sagði í minni ræðu, en ég vil leyfa mér að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Því hefur verið haldið fram, að umr. um verðstöðvun í okt. hefðu magnað verðbólguþróunina stórlega. Í slíkum fullyrðingum felst ókunnugleiki á ríkjandi verðlagningarkerfi í landinu. Nær allar vörur, sem fluttar eru til landsins, eru háðar verðlagsákvæðum, og hefur svo verið frá því í des. 1967. Sama er og að segja um ýmiss konar þjónustu. Hafa verzlunar- og þjónustufyrirtæki því ekki haft heimild til að hækka álagningu sína nema með samþykki verðlagsnefndar. Svo til einu vörutegundirnar, sem eru óháðar verðlagsákvæðum, eru nokkrar íslenzkar iðnaðarvörur, þegar þær eru seldar frá verksmiðju, framleiðandanum, en í smásölu eru þær háðar verðlagsákvæðum. Lausleg athugun, sem gerð hefur verið á verðlagi þessara vara, bendir ekki til, að það hafi hækkað óeðlilega mikið undanfarnar vikur. Ef það kemur í ljós við nánari athugun, að óhóflegar verðhækkanir hafi átt sér stað, þá er það að sjálfsögðu á valdi verðlagsnefndar að ákveða verðlækkun.“

Ég skil ekki hv. þm., af hverju þeir vilja fara að koma fram fyrir þjóðina bæði í útvarpi og sjónvarpi og í þingsölunum með blekkingar, eins og hér hafa átt sér stað.

En til viðbótar þessu hef ég einnig lista yfir ákvarðanir verðlagsnefndar um leyfðar verðhækkanir í okt., en eftir þennan tíma eru þær örfáar. En alveg sérstaklega eru það þó ákvarðanirnar 28. október, sem eru þrjár, og 30. október, sem eru fjórar, sem allar voru gamlar beiðnir, sem lágu hjá verðlagsnefnd, sem ákveðnar voru þannig, að ríkisstj. hafði hlutazt til um afgreiðslu þeirra með þeim hætti, að það var ekki leyfður nema hluti af þeim hækkunum, sem beðið var um, og sumar hækkanir, sem beðið var um, voru lagðar til hliðar í sambandi við þessar afgreiðslur. Allt er þetta þess vegna út í bláinn, og mig furðar á því, að það skuli margendurtekið hér. En hitt vil ég, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái nánari vitneskju um hið rétta hjá þeim verðlagsyfirvöldum, sem um þetta hafa fjallað. Það liggja fyrir listar, sem ég fer ekki nánar út í, um allar afgreiðslur verðlagsnefndarinnar frá því að verðhækkanirnar og kauphækkanirnar voru, og það er hægt líka að fá vitneskju um það, með hvaða hætti þær voru samþykktar, margar hverjar með shlj. atkv., sumar með engum mótatkv., sumar með nokkrum ágreiningi.

Svo eru menn að fjargviðrast yfir því, að ummæli mín í sjónvarpi 13. okt. hafi kallað á einhverja skriðu verðhækkana, og eins og orðað hefur verið, að flestir gátu fengið seðju sína í því að hækka einmitt vegna þessa ógætilega tals míns, og því hefur einnig verið haldið fram, að öðruvísi sé þetta nú í öðrum löndum og ráðh., sem gerist sekur um slíkt, ætti að hegna alvarlega í ákveðnum landsdómi, ef hann þá ekki sæi sóma sinn í því að segja af sér sjálfur. Hvað hefur gerzt í nágrannalöndum okkar að þessu leyti? Danska ríkisstj. boðaði til fundar í sumar með stjórnarandstöðunni og aðilum vinnumarkaðarins þar, fjölda manna, og byrjaði þá að ræða ráðagerðir sínar í svipuðum málum og við erum að tala um hérna. Öll blöð voru uppfull af skrifum um verðstöðvun í sept., og 22. sept. gaf forsrh. Dana skýrslu aðilum vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðunni um fyrirhugaðar aðgerðir í efnahagsmálunum. Og þar var beinlínis tekið fram, að einn þátturinn í þessum aðgerðum væri verðstöðvun, og frá henni yrðu engar undantekningar, nema um væri að ræða hækkun á hráefnum og hjálparefnum til framleiðslunnar. Þetta var 22. sept. Svo er lagt fram í danska þinginu 7. okt. frv. til verðstöðvunar. Það er afgreitt 9. okt. með gildistöku 15. okt. Eftir að þessi opinbera skýrsla forsrh. er gefin, þá líða 23 dagar, þangað til lögin taka gildi í Danmörku, 19 dagar frá ummælum mínum í sjónvarpinu, sem vitnað hefur verið til, og þangað til verðstöðvunin var tilkynnt og formlega gild. Samt koma menn hér skinheilagir hver á fætur öðrum og tala um einhvern ósóma, sem ég hafi gert af mér og sem þekkist ekki nokkurs staðar á neinu byggðu bóli eða með siðmenntuðum þjóðum. Ekki fleiri orð um það.

Þá skal ég aðeins fara nokkrum orðum um stigin 6 frá 1956. Hæstv. viðskmrh. gerði grein fyrir því í gær, hvernig þá var farið að. Þá var með brbl. tekinn af launþegunum réttur til kaupuppbótar, sem þá var réttilega metin miðuð við 6 stig um 3%. Það er svo að vísu satt, að það var gert í sambandi við samninga, og verð hækkaði ekki, og greitt var niður af landbúnaðarvörum. Það er nákvæmlega hið sama, sem við erum að gera núna. Við erum að lækka verðið á landbúnaðarvörunum, þegar við erum að fresta 2 stigum. Það er rétt, að það eru önnur vísitölustig. Við eigum ekki í raun og veru að þurfa að vera að deila um það hérna, hvort það séu endilega sömu vísitölustigin eða ekki, efnisatriði málsins er það sama. Og það er rétt hjá hæstv. viðskmrh.

Hv. 2. landsk., Eðvarð Sigurðsson, sagði, að þetta hefði verið gert með samþykki forustumanna verkalýðshreyfingarinnar, vegna þess að þeir hefðu haft þá barnalegu trú, að það væri góð stjórn á Íslandi. Nú verður auðvitað engin stjórnarathöfn betri eða verri, hvort sem Pétur eða Páll hafa meiri trú á því, sem gert er, eða ekki. Það hefur kannske komið einhver heilagur andi yfir forustumenn verkalýðshreyfingarinnar á þessu augnabliki, þegar þeir urðu uppvísir að að trúa á vinstri stjórnina. En það hvarf a. m. k. fljótt glansinn af þessari trú, eins og hv. þm. sagði sjálfur, því að það er svo annað mál, að endalokin urðu náttúrlega ekki glæsileg. (Gripið fram í.) Hins vegar sagði hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, að þetta hefði verið samþ. þá á þeirri forsendu, hvernig málið kæmi út kaupmáttarlega séð. Þetta var viðhorfið árið 1956. Þetta er alveg nákvæmlega sama viðhorfið núna, sem við höfum haft í huga, hvernig kemur málið út kaupmáttarlega séð? Að því skal ég víkja betur síðar, og það er það, sem máli skiptir. Það er meginefni málsins, og áður en ég vík að því, ætla ég aðeins að fá að minnast svolítið hér á hetjudáð Framsfl.

Þeir hafa talað hér fyrir hönd flokksins, minni spámennirnir úr þingflokknum, og því var haldið fram hér með miklum fjálgleik, að Framsfl. sé eini stjórnmálaflokkur landsins, sem látið hefur af völdum í ríkisstj., af því að honum tókst ekki að ná samstöðu um þá leið, sem hann taldi nauðsyn bera til í baráttunni gegn verðbólgu. Þetta er glæsilegur flokkur, bara eini flokkurinn á landinu, sem baðst lausnar, af því að hann réð ekki við neitt. Forsrh. kom hingað til þingsins og sagði: Það er ekki samstaða um nein úrræði í ríkisstj., og þess vegna hef ég beðizt lausnar. Svo gerði hann reyndar frekari grein fyrir því. Hvað var það, sem hann vildi ná? Hvað var það, sem hann hafði beðið um og fékk ekki? Hann hafði farið til stórþingsins, þings Alþýðusambandsins, og beðið um að fá að koma inn á þingið og bað fulltrúana þar, hvort þeir vildu vera með sér í því að fresta 17 vísitölustigum, og ég held, að hann hafi haft eitthvað einn af tíu með sér. Allir hinir sögðu nei. Þó sagði forystumaður þessarar ríkisstj.: — Það er bara í mánuð, herrar mínir, því að þá ætla ég að vera búinn að finna úrræði. — Þeir höfðu bara enga trú á því, að það yrði búið að gera það eftir fjórar vikur. Það hafði vafizt fyrir vinstri stjórninni allan tímann, sem hún hafði setið að völdum.

Hitt er gott, og ég lasta það ekki, að háttv. þm. séu bóklærðir nokkuð í pólitíkinni og geti lesið upp úr eldri ritum um vísitölustig þá og þá og prósentuhækkun á dýrtíð o. s. frv., en það hefur aldrei þótt til sóma neinni ríkisstj., sem hefur þurft að biðjast lausnar, að hún hafi þá ekki sjálf gert grein fyrir því, að hún bæðist lausnar, vegna þess að hún næði ekki fram ákveðnum hlutum. Það gerði þessi ríkisstj. ekki. Alþ. fékk aldrei að vita um það, hvað viðkomandi ríkisstj. vildi, ekki neitt. En þessir menn segja, að það þurfi að breyta um stefnu, þá kannske að taka upp þessa stefnu frá 1956, að vita ekki neitt. Við sáum ríkisstj. í raun og veru sem stirnað lík í maí 1956 rísa aðeins upp við dogg þangað til í des. og leggjast þá aftur út af með þessum líka ummælum, sem ég hef vitnað til. Ég held, að þjóðin bjargist ekkert við að fá þessa menn til forystu.

Mig furðar stórlega á ummælum háttv. 2. landsk. þm., þegar hann segir, að kauphækkunum hafi verið hleypt svo til óhindrað inn í verðið. Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Þeim hefur ekki verið hleypt svo til óhindrað inn í verðlagið. Og alveg sérstaklega hefur það verið tekið fram og gerð grein fyrir því í frv., að kauphækkanirnar, sem urðu 1. sept., 4.2%, hafa hvergi verið leyfðar í verðlagi. Svo mega menn ekki halda, að allir þeir, sem greiða kaup, fái það beint bætt í verðlagi. Þetta er auðvitað höfuðmisskilningur og þar skipta langmestu, eins og ég hef vakið athygli á, útflutningsatvinnuvegirnir. Ekki fá þeir bætt í hækkuðu verðlagi, sem hér er leyft eða ekki leyft, hvort sem það er bundið eða frjálst. Þeir verða að bera það og taka skakkaföllunum, og ef á alltaf að miða við verðhækkun á erlendum markaði, er það mál út af fyrir sig. Það ræddum við m. a. á sínum tíma og höfum minnzt á í viðræðunum í sumar, að kaupgjald hækkaði að einhverju leyti í sambandi við verð á útflutningsframleiðslu, en þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því, að það verður að lækka það, ef útflutningsverðmæti lækkar. Þetta eru kannske leiðir, ef við settumst niður og töluðum um, til betri lausnar á ýmsum vanda en við höfum fundið fram að þessu.

Það var aðeins annað atriði, sem skiptir að vísu litlu máli, en mér kom það mjög á óvart hjá háttv. 2. landsk. þm., þegar hann viðhafði þau ummæli um viðræðurnar í sumar að vara við þeirri sýndarmennsku, sem ráðh. hefðu viðhaft í þeim umræðum. Þetta á ég mjög erfitt með að skilja og ég furða mig mjög á þessu, og ég spyr: Er skoðun annarra, sem í umræðunum voru með okkur, hin sama? Þetta er mjög ólíkt þessum háttv. þm., sem er mjög grandvar maður og sanngjarn í einu og öllu, eftir því, sem ég veit, og mér kom þetta mjög á óvart, og ég kannast ekki við að hafa viðhaft sýndarmennsku á neinn hátt í tengslum við þessar viðræður.

Meginefni málsins, sem menn deila um með tölum og öðru, er, hvort aðstaða launþeganna skerðist frá því, sem þeir sömdu um 19. júní. Það gerir hún ekki. Þetta er hægt að sýna fram á tölulega, og fer betur á því að gera það í n. en að ég fari að bæta tölum ofan á tölur, sem hér hafa verið ræddar, en það er rétt, að kaupmáttur launanna minnkar ekki. Dæmið er mjög einfalt og þarf ekki allar þessar tölur í kringum það. Dæmið er þannig, að launin hafa hækkað um 26.5% núna, og með svipuðu áframhaldi og verið hefur, þá er áætlað, að það verði komin upp undir 40% launahækkun á næsta sumri. Við óttumst það, að slík launahækkun verði ofviða útflutningsframleiðslunni, bæði sjávarútvegi og sérstaklega hinum nýja unga útflutningsiðnaði, sem er að vaxa upp, því að það má vænta þess, að það verði ekki aðeins kauphækkanirnar, sem lendi sem aukinn tilkostnaður á atvinnuvegunum, heldur einnig verðhækkanir á aðfluttu hráefni, og á það ekki sízt við um iðnaðinn. En ef við höldum kaupinu niðri, eins og við gerum núna og gert er ráð fyrir með þessum verðstöðvunum, í 26.5%, þá eru líkur til þess, að atvinnuvegirnir geti borið það og kaupmáttur launanna verði hinn sami, en það, sem tryggist með því, er atvinnuöryggið, að fyrirtækin dragist ekki saman, að þau minnki ekki vegna óhóflegrar verðbólgu í landinu. Þess vegna er þetta mál mjög til hagsbóta öllum launþegum, og kaupmáttur launa minnkar ekki, það er ekki skerðing á samningsrétti þeirra. Launþegar í þessu landi geta ekki kvartað undan því ef löggjafi breytir að einhverju leyti aðstöðu frá því, sem samningar eru, meðan sú aðstöðubreyting er þeim í hag. Því eru byggðar á röngum forsendum bæði ályktun Dagsbrúnar, sem birt var hér í ræðustólnum, og einnig ályktun stjórnar Hannibalistanna, — liggur við að ég segi, ég ruglast alltaf í þessu góða máli, — Frjálslyndra og vinstri manna, sem gerði sína flokkssamþykkt og háttv. 9. þm. las einnig upp hér í ræðustólnum.

Lúðvík Jósefsson, háttv. 4. þm. Austf., sagði, að það hefði verið gengið út frá því, að kaupmáttaraukningin yrði um 5%. Það mun reynast svo. Það er að vísu deilt um það, hvort eigi að miða við maí eða júní. Hún verður meiri, ef miðað er við maí. Hún verður kannske ívið minni, ef miðað er við júníkaupið, en það má deila um það, við hvað á að miða. En hún verður eitthvað í kringum þetta, það er mergurinn málsins. Þetta er kaupmáttaraukningin, eftir því sem bezt verður séð, ef ekki koma ný tilvik, sem enginn fær séð fyrir núna, sem við skulum vona, að verði ekki. En félli verðið á erlendum markaði t. d. og að öðru leyti yrði árferði lélegt hjá okkur, þá væri þeim mun meiri þörf á þeim aðgerðum, sem hér er verið að leggja til, að Alþ. samþykki, því að það er einlæg sannfæring mín, að án þeirra þá mundi reka að óbreyttu í strand í íslenzku atvinnulífi.