26.01.1972
Efri deild: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

11. mál, stöðugt verðlag

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að fagna því, að bætzt hafa nýir liðsmenn í varðstöðuna um launaréttindi verkafólksins, þar sem eru talsmenn hv. Sjálfstfl., og hefði það betur kannske verið fyrr, að þeir hefðu haft svipaða afstöðu og núna og borið jafnmikla umhyggju fyrir meðferð vísitölunnar á undanförnum 10–12 árum, sem þeir hafa verið hér við völd. En það þarf ekki alveg svo langt að fara til þess að glöggva sig á afstöðu sjálfstæðismanna almennt til vísitölunnar og þess máls, sem hér er um að ræða, því að í ræðu, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. hélt hér við 1. umr. í einmitt þessu sama máli, sagði hann m.a., að það væri sitt álit, að það væri alveg fráleitt að reikna almannatryggingagjöld inn í vísitölu, þar sem þar væri um að ræða stórfelldar kjarabætur fyrir stóran hóp þjóðfélagsborgara. Þetta sagði hv. þm. orðrétt hérna í okt. s.l. um þetta mál, svoleiðis að mér finnst það nú koma úr hörðustu átt, þegar þessi hv. þm., sem jafnvel eftir að hann var kominn í stjórnarandstöðu og hefði átt þá svona eftir öllum líkindum frekar að gæta tungu sinnar í sambandi við meðferð svona mála, var enn þá á þessari skoðun. En menn beri þetta svo saman við það, sem hv. þm. er nú að segja.

En sama er, það er betra seint en aldrei, að menn vitkist, og vissulega þykir mér það góðra gjalda vert, að þessir hv. talsmenn Sjálfstfl. vilja nú slá skjaldborg um það, að ekki séu skert launakjör verkafólksins á Íslandi eða launþega með óeðlilegum hætti. Hitt finnst mér heldur leiðinlegt, þegar jafngáfaður maður eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gerir sig svo skilningslausan sem hann gerði hér í ræðustólnum áðan, því að sjálfsagt er fáum betur kunnugt um það, hvernig vísitölumálið er í eðli sínu, hvernig farið er með vísitölu, hvernig hún er reiknuð út og hver er réttur manna, bæði lagalega og siðferðilega í þeim efnum, heldur en einmitt honum. Ég þarf áreiðanlega ekki að kenna honum neitt í þeim efnum. Mér þykir líka einkennilegt, að hann sé að snúa út úr samþykkt Alþýðusambandsins um þetta mál, svo glögg sem hún var. Þar sagði, ef ég man orðrétt, ég hef ekki samþykktina fyrir framan mig, að miðstjórnin teldi, að ekki ætti að verða meiri lækkun á kaupgjaldsvísitölunni vegna kerfisbreytingarinnar en næmi raunverulegri útgjaldaléttingu, sem verða kynni af henni. Þetta er, held ég, svo augljóst sem nokkur maður getur óskað eftir að hafa eina ályktun. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því, að við eigum engan siðferðilegan rétt á því, hvorki í Alþýðusambandinu né aðrir launþegar, að útgjaldabyrðin sé létt. Ef útgjaldabyrði viðmiðunarfjölskyldunnar er létt, þá er það alveg jafneðlilegt, að kaupgjaldsvísitalan sé lækkuð sem því svarar, eins og það er eðlilegt, að hún hækki, ef um útgjaldaaukningu er að ræða. Spurningin í þessu máli er því ekki um neitt annað heldur en það, hvort vegna kerfisbreytingarinnar verði þynging á útgjöldum viðmiðunarfjölskyldunnar eða ekki. Og er ég ræddi hér áðan um þetta mál, var ég ekki með neinar fullyrðingar. Ég sagði við hv. 2. þm. Reykv.: Við skulum bíða þangað til það sýnir sig, hvernig með þetta mál verður farið. Og ég sagði líka, að ég hefði enga trú á því, að hæstv. núv. ríkisstj. leysti þetta mál á öðrum grundvelli heldur en þeim grundvelli, sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt.

Ég held, að það sé hinn mesti misskilningur, að hér hafi nokkuð átt að fara aftan að mönnum, og þessi ítök, sem hv. 2. þm. Reykv. var með frá hæstv. ráðh. og ríkisstj., held ég, að hafi verið algerlega út í hött. Ég hygg, að þeirra meining hafi aldrei verið önnur en sú, að vísitalan kynni að lækka, vegna þess að það væri sannanlegt og útreiknanlegt, að um raunverulegan létti í útgjöldum þeirra fjölskyldna, sem miðað er við í öllum þessum efnum, væri að ræða. Og þá tel ég a.m.k. ekkert óeðlilegt við það, þó að hv. 2. þm. Norðurl. e. sé nú orðinn svo róttækur að vilja ekki láta vísitöluna breytast nema á einn veg, þ.e.a.s. til hækkunar, ef hækkanir verða, og lækkunar, ef lækkanir verða. En ekki man ég eftir því, að það hefði neinn á móti því á s.l. sumri, þegar námsbókagjaldið var afnumið, að það kæmi til frádráttar á öðrum hækkunum í vísitölunni. Ég held, að það hafi allir talið það sjálfsagt þá, og auðvitað gildir hér alveg nákvæmlega sama um meðferðina á vísitölumálinu í sambandi við niðurfellingu nefskattanna. Ef það yrði, sem ég skal ekkert fullyrða um, að niðurstaðan yrði sú, að skattalögin yrðu þannig frá gengin hér á Alþ., að hér yrði um að ræða rétt til útgjalda, alveg sem þeim nemur, þá vitanlega gerist það eftir réttum lögum, eftir réttum reglum, bæði lagalega og siðferðilega, að vísitalan lækkar um þá upphæð, og við því er ekkert að segja. Með því hefur engin kjaraskerðing verið gerð. Hitt er annað, ef hér væri um lækkun á vísitölunni að ræða vegna kerfisbreytinganna einna, en ekki vegna þess að það hefði verið um neina raunverulega lækkun útgjalda að ræða, þá væri hér auðvitað um gróft svindl að ræða. En á þessu er auðvitað reginmunur og það hygg ég, að þessir tveir hv. þm. skilji mætavel.

Ég held, að ég hafi svarað því alveg, sem ég var um spurður, og ég ætla ekki að fara út í það, hvernig hv. 2. þm. Norðurl. e. talaði hér um það, hvort það væri allt í lagi, ef það væri hægt með einhverjum reikningskúnstum að sýna það, að hér hefði verið um lækkun á gjaldabyrði að ræða. Hér verða áreiðanlega engar reikningskúnstir viðhafðar. Meðferð þessara mála lýtur algerlega föstum reglum hjá kauplagsnefnd, og ég fullvissa hann um það, að þó að þar eigi í hlut grandvarir og góðir menn, þá verður fylgzt með því alveg nákvæmlega af hálfu verkalýðssamtakanna, hvernig allir útreikningar í sambandi við þetta verða gerðir. Og ég vona það, að okkur í verkalýðssamtökunum reynist fært, ekki sízt eftir að við höfum fengið svo góða liðsmenn sem þessa hv. þm., sem hér hafa talað, að standa vörð um raunveruleg launakjör og samningsbundin launakjör launþegasamtakanna.