04.05.1972
Efri deild: 75. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. iðnn. fyrir jákvæða afstöðu til meginatriða í þessu frv., til þeirrar stefnu, sem þar er mörkuð. Um það er samstaða í n., sem ég tel vera ánægjuefni, og raunar hefur sú samstaða áður komið fram í viðræðum stjórnvalda við atvinnurekendur í þessari grein, sem hafa fagnað mjög þessum hugmyndum, sem gert er grein fyrir í þessu frv.

Hins vegar hefur hér komið fram ágreiningsefni, sem ég harma mjög og á raunar dálítið erfitt með að skilja. Því er haldið fram af tveimur hv. þm., Þorv. Garðari Kristjánssyni og Birgi Kjaran, að með ákvæðum 4. gr. frv. um skipan stjórnar fyrstu fimm árin sé gengið á eðlilegan rétt atvinnurekenda í þessari iðngrein og ríkisvaldið sé þar að sitja yfir hlut þeirra. Mér finnst þessi ásökun vera algerlega ómakleg, og mér hefði fundizt miklu eðlilegra, að þetta frv. hefði verið gagnrýnt á þveröfugum forsendum, því að það er gert ráð fyrir því í þessari gr., að eftir fimm ár, þegar búið er að byggja upp þessa sölustofnun og fyrst og fremst með framlögum af almannafé, mjög stórfelldum framlögum, með beinum fjárframlögum, sem verða 100–200 millj. kr. á þessum fimm árum, og með ríkisábyrgð fyrir 100 millj. kr. í viðbót, þegar búið er að byggja upp þetta fyrirtæki, og við skulum vona, að það verði þá orðið mjög arðbært og öflugt fyrirtæki, eigi stórfelldar eignir, þá eigi að afhenda það atvinnurekendum, þeir fái meiri hl. þar í stjórn, án þess að nokkur greiðsla komi fyrir þessi framlög ríkisins. Þetta finnst mér, að hefði verið hægt að gagnrýna, en ekki hitt, að ríkisstj. með þeirri tilhögun, sem hún leggur til í þessu frv. sínu, sé að ganga á rétt atvinnurekenda. Sú gagnrýni er óréttmæt með öllu.

Við erum þarna að efna til samvinnu ríkisvaldsins við einkaatvinnurekendur í þessari iðngrein og ég tel, að þarna sé um að ræða ákaflega mikilvæga samvinnu. Og ég geri mér vonir um, að hún verði til þess að efla þessa iðngrein, lyfta henni eins og öll rök benda til að hægt sé að gera hér á landi. Ég gerði grein fyrir því, þegar ég mælti fyrir frv. í upphafi, að það er ástæða til þess að binda mjög miklar vonir við starfsemi þessarar sölumiðstöðvar. En fyrstu fimm árin leggur ríkið til meginhluta fjármagnsins, eins og ég benti á áðan, 125 millj., með beinum framlögum eftir till. nefndarinnar og auk þess kemur svo ríkisábyrgðin, og þau útflutningsgjöld, sem til falla samkv. 6. gr., munu á óbeinan hátt vafalaust lenda á ríkissjóði, vegna þess að þau eru tekin af sjóði, sem stendur undir tryggingum fiskiskipa og er févana, eins og menn vita, og verður þar vafalaust einnig að koma til aðstoð ríkisins til þess að jafna þau met. Ég tel, að það sé skylda okkar alþm., þegar við leggjum fram almannafé til slíkra hluta, að fulltrúar almennings fari þá með stjórn og ábyrgð í því sambandi. Mér hefur stundum fundizt, að þeir, sem segjast vera sérstakir málsvarar hins frjálsa framtaks á Íslandi, séu furðulega metnaðarlitlir fyrir hönd síns frjálsa framtaks. Þeir koma ákaflega oft og fara fram á fjárstuðning af almannafé, þegar illa gengur. En þegar vel gengur, þá á hið opinbera ekki að koma neitt nálægt málunum. Þetta hefur stundum verið kallað að þjóðnýta töpin. Ég er algerlega andvígur slíkum vinnubrögðum, tel þau vera óhrein, og mér finnst, að einkaatvinnurekendur eigi að sjá metnað sinn í því, að halda ekki þannig á málum. Mér finnst, að þegar þarna er efnt til samvinnu, sem er í því fólgin, að ríkið leggur til fyrstu fimm árin meginhluta fjármagnsins, þá sé það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið hafi þarna forustu, og mér er eins og ég segi ómögulegt að sjá, að menn geti gagnrýnt þá tilhögun með nokkrum rökum.

Hins vegar verð ég að lýsa yfir því, að mér finnst það ákaflega miður, að þessi ágreiningur skuli hafa komið upp. Ég tel, að það skipti ákaflega miklu máli, að það takist sem nánust og bezt samvinna á milli ríkisvaldsins og atvinnurekenda um þessa sölustofnun. Og ég taldi mig hafa ástæðu til að ætla, að slík samvinna mundi takast mjög greiðlega. En ef menn ætla að fara að gera þetta að einhverju hita- og ágreiningsefni, þá lít ég svo á, að með því sé hreinlega verið að grafa undan þessari hugmynd, og það getur leitt til þess, að þessi starfsemi, sem við bindum allir mjög miklar vonir við, verði ekki eins myndarleg eins og öll rök stóðu til að hún gæti orðið. Þess vegna vil ég mjög eindregið fara fram á það við hv. þm., að þeir hugi einnig að þessari hlið málsins og séu ekki að óþörfu að vekja upp ágreining og úlfúð út af málefni, sem mér virðist, að allir menn séu sammála um, að sé mjög mikilvægt og þurfi að ná fram að ganga á þessu þingi.