10.05.1972
Neðri deild: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

209. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af ýmsum ummælum, sem hér hafa hrotið af vörum manna. Ég geri mér alveg ljóst, að helztu vandræði í sambandi við niðursuðu- og niðurlagningariðnað á Íslandi hafa verið fólgin í því að koma vörunni á markað. Það er út af fyrir sig ekki mikill vandi að sjóða niður. Hitt hefur reynzt miklu erfiðara að koma vörunni á markað í útlöndum. Þessi markaður er sennilega einn sá allra þrengsti, sem við þurfum að reyna að koma okkar framleiðsluvörum á framfæri á.

Með þessu frv. er stefnt að því að sameina fyrirtækin, hvað snertir sölu afurðanna. Og ég álít það mjög skynsamlegt og raunar einu leiðina að gera þetta þannig, að allir selji sína framleiðslu undir einu merki í útlöndum. Og til þess þarf einmitt myndarlegt átak, sem ég held að hér sé verið að gera. Reynslan hefur sýnt, að núverandi fyrirkomulag hefur ekki dugað og þess vegna er þetta átak, svo að ég álít, að lausn hv. þm. Björns Pálssonar, að lækka upphæðina 25 millj. ofan í 5 millj. og leyfa síðan atvinnurekendunum að hafa meiri hl. í stjórn, muni ekki duga. Það hefur ekki sýnt sig.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði hér áðan, að íslenzkur sjávarútvegur hefði fengið og fengi hundruð millj. úr ríkissjóði í styrk. Það er sá atvinnuvegur, sem allir landsmenn vita, að stendur undir öllum rekstri þessa þjóðfélags. Þessi atvinnuvegur er hér af hv. þm. kallaður styrkþegi, atvinnuvegur, sem skaffar ríkissjóði beint og óbeint mest af tekjum hans. Mér er óskiljanlegt, hvernig þm., sem kennir sig við flokk vinstri manna, getur barizt fyrir því, eins og fulltrúi Sjálfstfl., 3. þm. Sunnl., á sama hátt, að einkaaðilar eigi að hafa meiri hl. í stofnun, þegar peningar hennar eru að meiri hluta fengnir sem óafturkræft framlag frá ríkinu. En þó er þetta aðeins hugsað fyrstu fimm árin.

Ég hef nú ekki hugsað mér að þessu sinni að gera fleiri aths. við það, sem hér hefur verið sagt, en vil taka undir þau orð hv. þm. Péturs Péturssonar, að hér sé verið að stefna í rétta átt og þetta frv. til laga geti komið lagmetis- og niðursuðuiðnaði á Íslandi á réttan kjöl.