10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

238. mál, höfundalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir ummæli hæstv. ráðh. og annarra ræðumanna um nauðsyn þess, að þetta mikla frv. nái nú fram að ganga, þannig að höfundar listaverka fái aukin réttindi. Ég vil einnig leggja á það ríka áherzlu, að afgreiðsla málsins verði í samvinnu við Ríkisútvarpið, þar sem málið getur skipt okkur millj. kr. Komi til þeirra milljónaútgjalda, verða þau lögð beint á almenning í afnotagjöldum. Kjarni þessa máls er sá, að undanfarin ár hafa ekki aðeins höfundar, heldur einnig flytjendur listaverka, fært sig upp á skaftið og fengið aukinn rétt. Þetta hefur þá þýðingu hér, að ef Ríkisútvarpið ætti að greiða gjald til flytjenda á allri þeirri tónlist, sem það flytur af hljómplötum frá morgni til miðnættis og einnig í sjónvarpinu, þá mundu það verða stórar upphæðir, sem mundu hafa áhrif til hækkunar á afnotagjöldum svo að segja þegar í stað. Viðleitni Ríkisútvarpsins hefur því verið sú, að farið yrði eins hægt og mögulegt er að þessu leyti til þess, að þessi útgjaldaaukning vegna flutningsréttar skylli ekki á í einu lagi.

Það eru mjög erfið mál við að fást, sem hér er fjallað um, og eru einnig til höfundaréttarmál, sem eru utan við ramma þessa frv., hvimleið og valda erfiðleikum. Ég vil geta þess, að það er óleyst vandamál í sjónvarpinu, hverjir eigi höfundarétt að dagskrárliðum, sem þar eru framleiddir. Þar er ekki aðeins um að ræða þá, sem koma fram, ekki þá, sem skrifa handritið, ekki þá, sem stjórna upptöku, heldur einnig þá, sem annast ljósaútbúnað, sviðsútbúnað o. s. frv. Ég get sagt mönnum frá því sem dæmi, að fyrir einum þrem árum var flutt í sjónvarpinu mjög gott efni um Jón Sigurðsson, sem Fræðslumyndasafn ríkisins vildi gjarnan fá á kvikmynd til að láta ganga til skólanna, en það hefur ekki verið hægt til þessa dags, vegna þess að það er ósamið við starfslið útvarpsins um það, hverjir eigi höfundarétt að slíku verki, þegar það er selt út úr stofnuninni.

Hér hefur fjárhag Ríkisútvarpsins einnig borið á góma, og skal ég ekkert um hann segja almennt. Það er ljóst, að Ríkisútvarpið þarf á miklum tekjum að halda og þar bíða nú óleyst allmikil verkefni, sérstaklega á sviði húsbygginga og annarrar aðstöðu. En í sambandi við áhrif þess, að fjárhagur Ríkisútvarpsins er nú þröngur, vil ég taka það fram, að fyrrv. útvarpsráð hafði engin áform um að taka upp sjöunda sjónvarpsdaginn. Það hefur undanfarin 2–3 ár verið einróma skoðun útvarpsráðs þess, sem fór frá um áramót, og útvarpsstjóra, að dagskrá bæði hljóðvarps og sjónvarps væri nú hæfilega löng og ætti héðan í frá að vinna að því að bæta hana, en ekki lengja hana. Frá þessu er þó ein undantekning, og ég hygg, að minn ágæti flokksformaður hafi þar ruglað tveimur málum saman. Ríkisútvarpið fellir niður sjónvarpssendingar sínar í júlímánuði, og það hefur verið deiluatriði. Ég og fleiri hafa verið mjög harðir andstæðingar þess að loka sjónvarpinu algerlega í mánuð. Ég hef haldið því fram, að það gerði ekkert til fyrir okkur, sem erum á bezta aldri, getum hreyft okkur um landið og förum í sumarleyfi, þó að við misstum af sjónvarpinu mikinn hluta sumarsins. En við megum ekki gleyma því, að stærsti hlutinn af þeim, sem nota sjónvarpið, er fólk, sem verður að sitja heima af ástæðum, sem það ræður ekki við. Það er gamla fólkið, það eru sjúklingar, það eru húsmæður og aðrir, sem eru bundnir við heimili sín. Þetta fólk er ekki á flakki um landið allan júlímánuð. Ég hef því verið þeirrar skoðunar, að það ætti að stytta sjónvarpsdagskrána almennt yfir sumarmánuðina, en ekki loka fyrir sjónvarpið algerlega í heilan mánuð. Þetta er eina atriðið varðandi lengd dagskrár, sem hefur verið umdeilt, en það hafa sárafáar hugmyndir heyrzt og alls engar í útvarpsráði um að taka upp sjöunda sjónvarpsdaginn.

Þegar fjárhagur Ríkisútvarpsins þrengist til muna, þannig að það gengur út yfir dagskrána, þá mun það ekki koma fram í því, að dagskráin verði stytt. Það út af fyrir sig sparar ekki mikið fé, heldur mun fjárskortur fyrst og fremst koma fram í því, að það verða skornir niður dýrustu dagskrárliðirnir, sem eru yfirleitt beztir, íslenzku dagskrárliðirnir. Nú er t. d. flutt að jafnaði eitt íslenzkt sjónvarpsleikrit í mánuði hverjum, og ég geri ráð fyrir, að þessi eini liður kosti 3–5 millj. kr. Ég geri líka ráð fyrir því, að það yrði freistandi að reyna að spara þarna, en flestir munu sammála um, að þetta sé eitt það merkasta af því efni, sem íslenzka sjónvarpið flytur. Hættan er sú, ef fé skortir til dagskrár, að lítið verði hægt að spara með því að stytta hana, því að fólkið, sem vinnur að dagskránni, er margt á vöktum og sæti þá aðgerðalaust, ef dagskráin væri stytt um hálfan eða einn klukkutíma, svo að kostnaðurinn minnkar ekki sem því svarar. Fjárskortur til dagskrár mun ganga út yfir það efni, sem við viljum sízt missa.