10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

238. mál, höfundalög

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða efnislega það frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel eðlilegt, að höfundar njóti sömu verndar og réttinda með verk sín hér á landi og gerist í nágrannalöndum okkar. Ég hef ekki kynnt mér frv. nægilega til þess að geta metið þetta, en auðvitað gefst tími til að skoða það nánar, þó að manni svona við lauslegan yfirlestur sýnist þar vera sumt, sem kannske mætti öðruvísi vera. En um það ætla ég ekki að dæma á þessu stigi.

En ég vildi leyfa mér að vekja athygli á öðru í sambandi við þetta frv., sem ég tel vera mál skylt því, sem hér er um að ræða. En það eru þær reglur, sem gilda um úthlutun listamannalauna, og fleiri atriði varðandi fjármál í sambandi við rithöfunda og listamenn, sem ég tel, að mjög hafi farið úrskeiðis á undanförnum árum. Ég held, að það hafi ekki farið fram hjá neinum, hvorki þm. né öðrum, að í hvert skipti, sem búið er að úthluta listamannalaunum, upphefjast umr., og ég tel, að í mörgum tilvikum sé það hreint þjóðarhneyksli, hvernig að þeim hefur verið staðið. Nú síðast endaði þetta með því, eins og kunnugt er, að sú nefnd, sem Alþ. kaus til að úthluta listamannalaunum, var kölluð fram í sjónvarpinu, og þar var ætlazt til, að hún gerði grein fyrir, hvernig hún hefði metið fjárhagslegan styrk eiginlega hvers og eins listamanns, sem úthlutað var listamannalaunum, og einnig, hvers vegna hún hefði ekki úthlutað ýmsum listamönnum launum, sem sumir töldu, að frekar hefðu átt að fá listamannalaun en þeir, sem fengu þau. Ég tel, að þegar þannig er komið málum um nefnd, sem Alþ. skipar til að vinna ákveðið verk eins og þarna er ætlazt til, þá verði að sjá fyrir því, að nefndin hafi a. m. k. einhverjar þær starfsreglur, sem verndi hana fyrir því, að það þurfi að koma til, að eðlilegt sé talið, að hún sé kölluð upp í sjónvarp og látin þar gera grein fyrir störfum sínum og í einstökum atriðum úthlutun til einstakra listamanna. Auðvitað hlýtur það að vera mjög viðkvæmt mál, þegar nefndin er að meta fjárframlög til listamanna. Þar kemur margt til greina, sem útilokað er, að hægt sé að skýra frá í sjónvarpi eða fyrir alþjóð.

Ég vildi því leyfa mér við þetta tækifæri að vekja athygli hæstv. menntmrh. og menntmn. á því, hvort ekki sé tímabært í sambandi við þetta mál að endurskoða einnig þær reglur, sem fram að þessu hafa gilt um úthlutun listamannalauna og önnur fjárframlög til listamanna. Ég tel á því fulla nauðsyn og tel, að ekki geti haldið áfram, eins og verið hefur og alltaf er að færast í aukana, þær hvimleiðu deilur — og ég segi mannskemmandi deilur — sem hafa átt sér stað í sambandi við úthlutun á fé til listamanna og greiðslur til þeirra, sem þeir telja sig eiga kröfu á til ríkisins. Það er ekki aðeins, að þetta bitni á nefndinni, sem Alþ. kýs til að úthluta þessum fjárframlögum til listamanna almennt, heldur höfum við séð það í blöðum og málgögnum, að það upphefjast deilur innbyrðis milli listamannanna sjálfra, sem margar hverjar eru á þann veg, að það er þeim lítt til sóma, sem þar eiga hlut að máli, og þar hefjast innbyrðis illvígar deilur bæði um störf nefndarinnar og kannske úthlutun til einstakra listamanna. Ég tel þetta, eins og ég sagði, vera slíkan blett, að það verði að vinna að því að setja einhverjar ákveðnar reglur, sem nefnd sú, sem Alþ. skipar til að vinna þetta verk, geti farið eftir, svo að hún verði ekki gagnrýnd eins og verið hefur að undanförnu. Einstakir nefndarmenn hafa jafnvel mannskemmt sig á afstöðu sinni til einstakra mála.

Það hefur komið fyrir — sennilega einu sinni átt sér stað — að samtökum og forsvarsmönnum listamanna var afhent viss, tiltekin upphæð úr ríkissjóði til úthlutunar innbyrðis til hinna ýmsu listgreina og einstakra listamanna. Ég tel, ef á að halda þessu áfram eins og verið hefur, að Alþ. leysi bezt sinn vanda á þann veg að taka þetta upp aftur, þ. e. að afhenda listamönnum í heild ákveðna upphæð, sem þeir svo innbyrðis komi sér saman um, hvernig úthluta skuli til hverrar listgreinar og hvers listamanns. Ekki er ráðlegt að setja þingkjörna menn í þann vanda, sem þeir vissulega hafa verið settir í á undanförnum árum og flestir hlotið, að því er ég segi, vansæmandi ummæli að launum og síður en svo þakklæti þeirra, sem þar eiga hlut að máli, þó að þeir án efa hafi gert það, sem þeim í hverju tilfelli fannst skynsamlegast og réttast.