16.05.1972
Neðri deild: 81. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

124. mál, Tækniskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta frv. vil ég leyfa mér enn á ný að minna á það, hæstv. forseta og aðra, að ég hef fyrir alllöngu flutt till. til þál. hér í þessari hv. d. um Tækniskóla Íslands á Akureyri. Þessi till. var þess efnis, að Nd. Alþ. lýsti yfir þeim vilja sínum, að Tækniskóli Íslands yrði fluttur frá Reykjavík til Akureyrar, en jafnframt tekið til athugunar, ef nauðsyn þætti til bera, að reka undirbúningsdeild í Reykjavík og bekkjardeildir. Þegar ég mælti fyrir þessari till., gerði ég það allítarlega og m. a. með því að lesa upp úr fræðilegum grg. um þetta mál, sem mér og öðrum þm. Norðurl. e. hafa borizt um þetta, bæði frá bæjarstjórninni á Akureyri og Fjórðungssambandi Norðlendinga, og ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði þá. Þessu máli var þá eftir ekki langar umr., en samt lærdómsríkar, vísað til hv. menntmn. þessarar d., löngu áður en þetta frv. kom hingað til d. frá Ed. Eigi að síður hefur ekkert álit borizt frá n. um þetta. Og fyrir alllöngu ítrekaði ég það og ámálgaði við hæstv. forseta, og hann hét því þá að ræða við n. um að skila áliti um þessa till. Ég lýsi yfir megnri óánægju minni yfir meðferð þessa máls hér í d. og þá náttúrlega sérstaklega við hv. menntmn., en get ekki heldur varizt því að inna eftir því, hvort það geti skeð, að hæstv. forseti hafi gleymt að ámálga þetta við n., sem auðvitað gæti skeð, því að hann hefur mörgu að sinna.

En nú er svo komið, að í raun og veru er lagzt á þessa till. á óþinglegan hátt. Menntmn. hefur á óþinglegan hátt lagzt á þessa till. og tekið annað mál seinna fram komið fram yfir hana. En ég mun ekki um hana ræða núna, hún er ekki á dagskrá, heldur þetta frv. Og ég vil segja, að eins og nú er komið mun ég greiða atkv. með þeirri till. um að vísa málinu til ríkisstj„ sem hv. 3. þm. Norðurl. e. (JJ) hefur borið fram, enda sýnist mér nú vera svo mikið af hugmyndum uppi í sambandi við þetta mál, að ekki sé annað vænna en að athuga það eitthvað nánar. Auk þess hefur þetta gerzt, sem hv. þm. nefndi, að nú alveg þessa dagana hefur hæstv. ríkisstj. skipað n., eftir því sem mér er tjáð, — skipað n. til þess að gera till. um staðarval ríkisstofnana. Mér hefur alltaf sýnzt það, að þessi stofnun væri ein af þeim, sem fyrst og fremst kæmi til mála að flytja hér úr höfuðborginni á annan stað, og hefur þá Akureyri einkum verið nefnd. Það getur vel verið, eins og frsm. n. sagði hér áðan, kannske bæði í gamni og alvöru, að það væri rétt að flytja stofnun eins og Búnaðarfélag Íslands. Vel er ég til viðtals um það að flytja Búnaðarfélag Íslands frá Reykjavík og til Akureyrar eða á einhvern annan stað. Það mætti kannske hugsa sér að flytja ýmsar aðrar stofnanir, hálfopinberar, eins og t. d. miðstöðvar einhvers þingflokks eða samtaka af slíku tagi, sérstaklega þeirra, sem eru enn þá léttar í vöfum, — það mætti flytja miðstöðvar þeirra til Akureyrar, og það mundi vera vel þegið og kannske verða tilheyrandi flokki til góðs að skipta um verustað. Ég er til viðtals um allt slíkt, sem ekki þarf af málefnalegum ástæðum beinlínis að vera í höfuðborginni. Ég hef meira að segja látið mér detta það í hug, að við ættum að taka það til alvarlegrar athugunar að flytja löggjafarþingið til Þingvalla, á hinn fornhelga stað við Öxará, og hef ásamt öðrum þm. hér stundum lagt fram till. um það, að þjóðaratkvgr. færi fram um það mál. (Gripið fram í: En að flytja Reykjavík?) Flytja Reykjavík, já. „Landið okkar suður í sjó, svikull ætli að draga“, stóð einhvers staðar í Alþingisrímum í fyrri daga. Landið verður nú ekki dregið eða fjöllin færð. En við skulum tala um þetta mál í alvöru, og það er ég að gera hér.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en eins og málið horfir nú, þá vil ég greiða atkv. með till. hv. 3. þm. Norðurl. e. Hitt þykist ég sjá, að frv. hafi heldur batnað við meðferð Ed. á því, en þó er ýmislegt af því, sem þar virðist vera nýmæli, í raun og veru tekið upp úr eldri lögum. eins og t. d. ákvæðið um það, að stefna skuli að því, að upp rísi fullkominn tækniskóli á Akureyri. Þetta var sett í lög fyrir 9 árum, og hæstv. fyrrv. menntmrh. var falið að stefna að þessu, og hann hafði til þess 7 ár. En hann var ekki kominn neitt áleiðis að þeim 7 árum liðnum. Það er ekki nein breyting í því, þó að þetta standi áfram í nýjum lögum, sem staðið hefur í 9 ár í hinum eldri lögum.

Það væri mjög svo freistandi að tala langt mál um þetta atriði og fara þá nokkuð inn á þá stefnu, sem margir játa nú í orði, að það beri að dreifa ríkisstofnunum um landið meira en nú er gert, og eins gera sér nokkra grein fyrir því, hvernig þessu er tekið, hvernig þessari stefnu er tekið í reynd. Henni er yfirleitt vel tekið í orði, en þegar um það er að ræða að flytja einhverja stofnun eða velja einhverri stofnun annan stað en höfuðhorgina, þá kemur viðkvæðið, sem við heyrðum hér í salnum fyrir nokkrum dögum: Það er borið niður á röngum stað því miður í þetta skipti.