18.05.1972
Neðri deild: 86. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

237. mál, lögreglumenn

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vék nokkuð að 13. og 14. gr. þessa frv. í þeirri ræðu, sem ég flutti hér við 2. umr. þessa máls, og fjallaði nokkuð um þá tilhögun, sem skyldi verða á rekstri þeirra fasteigna, sem um er að ræða, þegar ríkið yfirtekur löggæzlu og rekstur hennar. Þá á ég við fasteignir, sem hingað til hafa verið og áfram verða í sameiginlegri eign ríkis og sveitarfélaga. Ég gerði aths. við, að ekki skyldu koma greiðslur fyrir viðtöku þessara fasteigna, þegar ríkið tekur við húsnæðinu, og ég vakti athygli á því, að um leið og það gerist, þá hefði mátt ætla, að ríkissjóður tæki á sig allan kostnað af rekstri þessara fasteigna. Það væri skynsamleg og rökrétt ályktun. En þegar lesin eru fjárlög fyrir árið 1972, þá vakti ég athygli á því, að í þessum fjárlögum, þar sem fjallað er um einstakar fasteignir, þ. e. hegningarhúsið í Reykjavík og fangaklefana í lögregluhúsinu, fangaklefa lögreglunnar í Reykjavík, væri ekki annað að sjá en gert væri ráð fyrir því, að sveitarfélagið, í þessu tilfelli borgarsjóður Reykjavíkur, tæki þátt í kostnaði af rekstri þessara fasteigna að hálfu. Ég óskaði eftir því, að hæstv. fjmrh. upplýsti, hvernig skilja bæri þessi ákvæði, hvernig framkvæmdin yrði. Ég hef ekki fengið svör við þessum fsp. mínum og ég ítreka þær enn. Ég get ekki séð, að hæstv. fjmrh. sé viðstaddur í þingsal, en mundi óska eftir því, að hann fengi upplýsingar um þessa fsp. mína og skal að sjálfsögðu doka við, ef hann er ekki viðstaddur, meðan náð er í hann. (Forseti: Það er verið að óska eftir, að það verði, nýr fundur.) Ja, ég lýk ekki máli mínu fyrr en ég get endurtekið þessa fsp. í hans áheyrn, hvort sem ég á að bíða hér í ræðustól eða . . . (Forseti: Það hefur nú verið gerð ráðstöfun til þess að . . .) Já.

Mér kemur ekki á óvart, þó að hæstv. fjmrh. sé eftirsóttur víða, en ég var, eins og ég sagði áðan, að fjalla um það í ræðu minni hér við 2. umr. málsins, hvernig með skyldi fara rekstur þeirra fasteigna og þess húsnæðis, sem ríkissjóður yfirtekur, og þá var ég sérstaklega að fjalla um fasteignir þær, sem staðsettar eru hér í höfuðborginni. Ég vakti athygli á því, að í 14. gr. þessa frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkið tekur við húsnæði, sem ríki og sveitar- eða sýslufélög hafa stofnað til sameiginlega, án greiðslu fyrir viðtöku þess, en sveitar- eða sýslufélög halda eignarhluta sínum í því.“

Ég gagnrýndi að sjálfsögðu það út af fyrir sig, að ríkissjóður tæki þarna yfir þessar fasteignir án þess að greiðsla kæmi fyrir og taldi, að þarna væri um eignaupptöku að ræða, sem jafnvel jaðraði við það að brjóta í bág við stjórnarskrána. Um það skal ég ekki fara mörgum orðum aftur, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um, hvernig með rekstur þessara fasteigna skuli fara, því að í fjárlögunum er, að bezt verður séð, gert ráð fyrir því, að móti gjöldum, sem af rekstri þessara húsa stafa, komi tekjur, sem nema helmingi áætlaðs kostnaðar, og verður ekki betur séð af því en þá sé reiknað með, að í þessu tilfelli borgarsjóður Reykjavíkur greiði eða taki þátt í rekstri þessara húsa að hálfu, eins og verið hefur hingað til, þegar hann hefur verið meðeigandi þessara húsa og tekið þátt í löggæzlukostnaði, sem nú er gerð breyting á.

Ég vildi óska eftir því að fá skýringu á, hvernig þetta er hugsað af hálfu hæstv. fjmrh.