18.05.1972
Neðri deild: 87. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mun hafa kvatt mér hljóðs um þetta mál á fundi fyrr í dag og ætlaði þá að ræða um 2. gr. frv. almennt og þá brtt., sem fram hafði komið við hana frá hv. 7. þm. Reykv. en hann er iðinn við kolann og hefur verið á undanförnum þingum að reyna að opna þó ekki sé nema í hálfa gátt hurðina fyrir útlendum nafnasið hér á landi. Það, að ég kvaddi mér hljóðs, var áður en þessu máli var vísað til allshn. og hún beðin að taka það til athugunar, en sá fundur var haldinn og ég dvaldi um stund á þeim fundi, en var þar ekki, þegar tekin var ákvörðun um það í n. að flytja nýja brtt., sem nú liggur fyrir, en hún er á þskj. 940. Sú till. er um það, að ef maður sem heitir erlendu nafni, fái íslenzkt ríkisfang með lögum, skuli hann taka sér íslenzkt fornafn. Börn hans skuli taka sér íslenzk nöfn samkv. lögum um mannahöfn. Ég var að endursegja efni brtt. á þskj. 940. Nú hef ég ekki í n. tekið afstöðu til þessarar till., en afstaða mín í heild er nú sú, að óþarft sé að breyta þessari gr., þessari 2. gr. frv., en ef ætti að breyta henni á annað borð, mundi ég nú helzt hallast að brtt. hv. 5. þm. Reykv. um að gefa dómsmrh. heimild til þess að gera undantekningar og þá með þeirri skýringu, að eitthvað sérstaklega standi á, eins og þegar útlendur maður, sem verður íslenzkur ríkisborgari, er þekktur víða um heim undir sínu útlenda nafni. Það má segja, að það geti skipt einhverju fyrir hann, hvort hann getur haldið því nafni. Annars held ég nú, að listamenn hafi margir þann sið að auglýsa sig ekki undir sínu eiginlega nafni, heldur undir einhverju sérstöku listamannsheiti, þetta eigi því ekki að þurfa að valda verulegum vandkvæðum.

Mér finnst það furðulegt, þegar menn eru að halda því fram, að það sé verið að ganga á rétt einhverra með þessu ákvæði um nafnbreytingu. Þegar verið er að veita íslenzkan ríkisborgararétt, þá eru það útlendir menn, sem eru að óska eftir því að fá þennan rétt, yfirleitt fólk, sem dvelur hér í landinu. Enginn amast við, að það dveljist hér eins lengi og það vill en það óskar eftir að fá þennan rétt, að vera íslenzkir ríkisborgarar. Það að vera íslenzkur ríkisborgari er út af fyrir sig mikilsverður réttur og ég vil segja ekkert minni heiður fyrir þann, sem þennan rétt fær, en fyrir Ísland að eignast nýjan ríkisborgara, jafnvel þó að það séu frægir menn, sem í hlut eiga. Þannig lít ég nú á það mál. En það er enginn að vorkenna Íslendingum, sem dvelja þúsundum saman í öðrum löndum og hafa þúsundum saman tekið upp nafnsið þeirra þjóða, sem þeir dveljast með, t. d. Íslendingar í Vesturheimi. Ég held, að það yrði dálítið erfitt, þegar búið er að veita útlendum manni leyfi til þess að halda sínu nafni, ef svo ætti að fara að krefjast þess af börnum hans, að þau breyttu sínu nafni, og auðvitað kæmi þá fram ný brtt. til þess að rétta þeirra hlut og það yrðu borin fram svipuð rök og spurt: Úr því að foreldrarnir fengu að halda sínum nöfnum, hvers eiga þá börnin að gjalda, hvers vegna mega þau ekki halda sínu gamla útlenda ættarnafni, hvort sem um er að ræða það, sem venjulega er kallað ættarnöfn, eða nöfn úr ættinni? Þess vegna er enginn vafi, að ef farið verður inn á þessa leið að gera slíka reglu, að menn fái ríkisborgararéttinn á sínu nafni, þá yrði framhaldið svona, eins og ég hef núna verið að segja, eða ég get ekki annað séð. Hinn rétti tími til að fá nafnaskiptin fram á þessum verðandi ríkisborgurum er þegar rétturinn er veittur.

Það er náttúrlega út af fyrir sig vafamál hvort okkur tekst, Íslendingum, að halda okkar forna nafnasið. Það er mikið vafamál, hvort okkur tekst það, og það er svo um ýmislegt annað, sem lýtur að þjóðerni og tungu, en mér finnst, að við eigum að verjast svo lengi sem unnt er í þeim efnum. Nafnamálið er gamalt deilumál. Það var mikið deilumál hér á þingi á þriðja tug aldarinnar, eða þegar þeir voru að berjast fyrir nafnalögunum Bjarni frá Vogi, Tryggvi Þórhallsson o. fl., og svo hefur það síðustu tvo áratugina orðið að deilumáli hér, þegar menn hafa verið að reyna að brjóta niður þær varnir, sem settar voru með þeim lögum. Fyrir þessu þingi liggur frv., samið af sérstakri nefnd um þetta mál frv. til nýrra nafnalaga, þar sem að mjög verulegu leyti a. m. k., ef ekki öllu, er gengið til móts við þá, sem breyta vilja okkar gamla nafnasið. Þetta frv. var lagt fram sem stjfrv. á öndverðu þingi í hv. Ed., ekki samið af ríkisstj„ heldur þessari nefnd, sem ég gat um hér áðan, en það frv. fékk þá meðferð í Ed., að því var vísað aftur til ríkisstj., sem er nú reyndar frekar óvenjulegt um stjfrv., en það sýnir það, að í hv. Ed. er nú nokkru andófi haldið uppi enn þá í þessu máli, og nú er það svo, að þetta ríkisborgarafrv. á eftir að fara til Ed. Og nú vil ég spyrja þá, sem vilja fara að hrófla við 2. gr.: Getur það ekki orðið til þess, að ríkisborgarafrv. hreinlega dagi uppi í hv. Ed., þegar þar að kemur, ef þar eiga að hefjast deilur um 2. gr., þegar á það er litið, hverjar viðtökur nafnafrv. stjórnarinnar hefur fengið í d.? Ég bara spyr. Nú má segja, að það sé kannske ekki neinn stór skaði skeður, þó að á einu þingi falli niður að setja ný lög um ríkisborgara. En þeir, sem þarna eiga í hlut, hafa gilda ástæðu til þess, geri ég ráð fyrir, að vilja verða ríkisborgarar á þessu ári, og þeim er að sjálfsögðu öllum kunnugt um þetta ákvæði, sem er í íslenzkum lögum um nafnaskiptin. Hér hefur mikið verið talað um tiltekinn frægan mann í þessu sambandi. Það hefur samt ekki verið upplýst, að frá honum liggi fyrir nein ósk um það, að hans vegna verði lögum landsins breytt. Slíkt liggur ekki fyrir eða ég hef ekki fengið neinar fréttir af því, að svo sé. Það er sagt, að sumir útlendingar, sem hafa fengið ríkisborgararétt, hafi tekið sér það nærri að skipta um nafn. Þetta hefur verið fullyrt hér almennt, en ekki veit ég nú neitt dæmi um þetta, satt að segja. Enda held ég, að hitt sé nú enn meiri breyting í lífi manns, að taka sig upp frá ættlandi sínu, ætt og þjóð og flytja yfir í annað land, þar sem töluð er framandi tunga, en þó að menn þurfi að breyta eitthvað nafni sínu.

Svo skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð, en rétt teldi ég, að ekki væri hróflað við þessari 2. gr., — það a. m. k. látið bíða, þar til nafnafrv. væntanlega kemur fyrir næsta þing.