17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. kvaðst ekki vilja halda langa ræðu um þetta efni, því að nú væri naumur tími á Alþ. og hann fyrir sitt leyti vildi ekki tefja málið með löngum ræðuhöldum, og sagðist því vilja stytta mál sitt og það yrðu því heldur einhverjir aðrir að drepa málið þannig. Þessu er því til að svara, að mál eru stundum lögð fram með þessum hætti, í fyrsta lagi mjög seint á þinginu og í öðru lagi eru þau að veltast vikum saman í nefnd og koma síðan tveim eða þrem dögum fyrir þingslit frá n. inn í þingið og þá er ætlazt til þess, að umr. um svo veigamikið mál eins og húsnæðismál eru séu skornar niður og málið nánast þvíngað í gegn. Ég segi fyrir mig, að ég hef allan fyrirvara á því, hversu langar mínar ræður verða, og tel að þetta mál sé þess eðlis, að það þurfi að athuga vel og enginn tími sé of langur, þegar rætt er um húsnæðismál og Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Það var rétt ábending, sem kom fram frá hv. 10. þm. Reykv., að þegar nú er lagt til í þessu frv., að vísitölubindingin sé afnumin vegna þess, hversu þessi vísitölubinding geti komið sér illa þegar frá líður, þá felst sannarlega í þessari till. að nokkru leyti, ef ekki öllu leyti, uppgjöf núverandi yfirvalda, stjórnvalda, á því að ráða við verðbólguna, þeir gera sem sagt ráð fyrir því, að verðbólgan haldi áfram, hún skrúfist áfram upp og vísitölubindingin leiði til enn óhagstæðari kjara en hingað til. En þessi uppgjöf ríkisstj. er afskaplega athyglisverð og segir sína sögu, og ég tel raunar, að það sé mjög athyglisverð viðurkenning, sem rétt sé að halda á lofti. Ráðh. hæstv. greip fram í fyrir þessum hv. þm. áðan. Þegar hv. þm. Pétur Sigurðsson var að tala um að í Ólafskveri væri vikið að því, að afnema skyldi vísitölu húsnæðislána, þá greip hæstv. ráðh. fram í og sagði, að ekkert væri um það í Ólafskveri. Nú má vera, að hann hafi misskilið hv. 10. þm. Reykv., en staðreyndin er auðvitað sú, að í þessum málefnasamningi margfræga og margumtalaða er mjög skýrum stöfum vikið að þessu, sem reyndar síðasti ræðumaður benti á, og þar segir, með leyfi forseta: „að eitt af loforðum ríkisstj. er að gera ráðstafanir til að lækka óhóflegan húsnæðiskostnað almennings m. a. með lækkun byggingarkostnaðar, hagstæðari lánum og afnámi vísitölubindingar húsnæðislána.“ Afnámi vísitölubindingar húsnæðislána. Þetta loforð hefur eflaust verið sett inn í málefnasamninginn fyrir tilstuðlan þessa hæstv. ráðh., félmrh., vegna þess að hann tók mjög stórt upp í sig hér á síðasta þingi um þau okurlán og þá okurvexti, sem væru á húsnæðismálalánum, og hann flutti meira að segja sérstaka þáltill. í lok síðasta þings, sem gekk út á, að þegar í stað skyldu þessir okurvextir afnumdir.

Hér fyrr í vetur leyfði ég mér að bera fram fsp. einmitt um vísitölubindingu húsnæðislána, fsp. til hæstv. félmrh., sem var svo hljóðandi:

„Hverjar eru niðurstöður þeirrar könnunar, sem fram hefur farið á vegum Seðlabanka Íslands og Alþýðusambands Íslands fyrir tilstuðlan félmrn. varðandi vísitölubindingu húsnæðislána?

Hvenær má búast við, að ríkisstj. geri þær ráðstafanir varðandi afnám vísitölubindingar, sem boðaðar eru í málefnasamningi ríkisstj.?“

Í þessu sambandi vitnaði ég til ummæla, sem fólust í fyrrnefndri þáltill. hæstv. félmrh. og fleiri þm. og ummæla, sem komu fram í grg. með þessari þáltill., en þar sagði m. a., með leyfi forseta:

„Ástæða er til að ætla, að gildandi lagaákvæði um vísitölutengingu lána Húsnæðismálastofnunar ríkisins leiði og hafi leitt til óþolandi misréttis lántaka úr Byggingarsjóði ríkisins miðað við aðra lántaka. Enn fremur, að raunvextir bindi þeim, sem fengið hafa lán úr sjóðnum á tímabilinu frá því er lán voru tengd vísitölu, nú slíka fjárhagsbagga, að þeir fái ekki undir þeim risið og þurfi hér því þegar í stað að breyta vaxtakjörum að lágmarki svo, að vextir Byggingarsjóðsins verði a. m. k. aldrei hærri en útlánsvextir banka. Í meðfylgjandi fylgiskjali er mál þetta kannað til hlítar og komizt að niðurstöðu, sem telja verður óyggjandi, að sanni hina brýnu nauðsyn úrlausnar þessa máls.“

Svo mörg voru þau orð í þessari grg., sem fylgdi þáltill. hæstv. ráðh. Hannibals Valdimarssonar og annarra tveggja hv. þm. Þeir sem sagt fullyrtu í þessari grg., að það væri óyggjandi niðurstaða, að lán úr sjóðnum, sem tengd voru vísitölu, byndu slíka fjárhagsbagga, að lántakendur gætu ekki undir þeim risið. Hér væri um að ræða óþolandi misrétti, sem úr þyrfti að bæta þegar í stað. Þessi till., sem flutt var á s. l. vori, eins og fyrr er sagt, var gerð að heilmiklu máli í kosningabaráttunni, var blásin upp og stóð nú ekki á málgögnum þáverandi stjórnarandstöðu að tíunda það, hvers konar ólög þetta væru, hvers konar misrétti væri þarna á ferðinni, allt undan rifjum vondrar viðreisnarstjórnar, og ég gizka á, að það sé nærri lagi, að þessi áróður hafi haft allveruleg áhrif í kosningabaráttunni, og vissulega höfðaði hann til þess stóra hóps fólks, sem bæði hafði tekið lán eða hugðist taka lán, fólks, sem hefur staðið í húsbyggingum og hugðist hefja húsbyggingar, eða fólks, sem þurfti að kaupa fasteignir af ýmsum ástæðum.

Eins og fyrr segir, spurðist ég fyrir um efndir á þessu málefnasamningsloforði og höfðaði jafnframt til þessara ummæla frá því fyrir kosningar til þess að reyna að draga fram bæði hvað liði efndunum og eins hvort rétt væri, sem þarna var fullyrt. Þetta barst í tal á þinginu í lok nóvember s. l., og þá upplýsti félmrh. hæstv., eins og reyndar var kunnugt og ég hafði upplýst í grg. með fsp. minni, að þessu máli hefði verið vísað til athugunar Seðlabankans og ASÍ, þar sem þess var óskað, að þessar tvær stofnanir könnuðu, hversu mikil áhrif vísitölubindingin hefði og hversu réttar væru þær fullyrðingar, sem uppi voru og m. a. komu fram í plaggi, sem Þórir Bergsson tryggingastærðfræðingur sendi frá sér og var reyndar upphaf þeirra umræðna og þeirrar tillögugerðar, sem í gang fór fyrir kosningarnar: Þessu hafði verið vísað til Seðlabankans og ASÍ af fyrrv. stjórn til athugunar í maí 1971. (Forseti: Ég vil spyrja ræðumann, hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni, og ef svo er, hvort hann gæti þá fallizt á að fresta henni þar til síðar í kvöld.)

Ég skal gjarnan verða við beiðni forseta um að fresta ræðu minni, því að ég er ekki nærri búinn enn þá. (Forseti: Þess er óskað, svo að mál, sem óhjákvæmilega þurfa að fara á milli deilda, geti komizt áfram. Ég þakka ræðumanni fyrir að hafa orðið við þessari ósk.) [Frh.]