18.05.1972
Efri deild: 96. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

255. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 5. þm. Vestf. sagði, að mjög stönguðust á fullyrðingar okkar, þar sem félmrh. hefði sagt, að engin breyting yrði gerð til hins verra á vaxtakjörum þeirra, sem eiga inni skyldusparnað, en ég hefði hins vegar sagt, að það ætti að hækka um helming. Ég hef aldrei sagt þetta og það er misskilningur hjá hv. þm., að ég segi það. Hins vegar sýndist mér við þá athugun, sem ég hef getað gert á lögunum, sýndist mér það vera athugunarefni, hvort þeir hefðu ekki verið hlunnfarnir miðað við lögin eins og þau eru á undanförnum árum. Það er allt og sumt, sem ég sagði um þetta, en ég var ekkert að fullyrða, að það ætti bara að hækka. En mér finnst, að það geti leikið vafi á því, hvort þeir hafi fengið það, sem þeir raunverulega áttu að fá samkv. lögum. En það, sem ég vildi svo frekar segja um þetta, að mér beri skylda til að framkvæma frekari rannsókn á þessu sem deildarforseta, þá bæri mér það nú frekar sem formanni heilbr.- og félmn., en ég hef notað allan þann tíma, sem n. hafði, og einnig allt kvöldmatarhléið, sem ég hafði, til þess að skoða þetta mál og afla upplýsinga um það, og betur get ég ekki gert. Það er skylda mín sem forseta deildarinnar að greiða fyrir framgangi mála hér, og þetta mál hefur fengið alla þá athugun, sem mögulega var hægt að framkvæma hér í hv. d. á þeim tíma, sem hún hefur til starfa.

En það var kannske ekki þetta, sem kom mér fyrst og fremst til þess að standa hér upp og segja nokkur orð, heldur það, að ég gleymdi hér í framsöguræðu minni að ræða till. hv. 1. landsk. þm., Eggerts G. Þorsteinssonar, sem hann hefur flutt og síðan tekið aftur, en hún var um það að auka möguleika innlánsdeildarinnar til þess að fá fé, með því að allt, sem lagt væri þar inn sem sparnaður, væri hvorki útsvarsskylt né tekjuskattsskylt. Ég játa það fullkomlega og virði það við hv. flm., að hann hefur vakið hér máls á atriði, sem er vissulega íhugunarvert og þyrfti að gefa gaum, þ. e. því, hvaða ráðstafanir unnt er að gera til þess að auka fjárráð húsnæðismálakerfisins í gegnum innlánsdeildina. Það tel ég sjálfsagðan hlut. Hins vegar verð ég að játa, að ég er ekki tilbúinn til þess að mæla með samþykkt þessarar till. nú nema þá a. m. k. að miklu betur athuguðu máli, því að mér sýnist, að hér sé um svo stórkostlegt skattaspursmál að ræða, að það geti jafnvel opnað möguleika til þess, að mönnum yrði mjög mikið mismunað í sköttum. Ef við tökum t. d. bara dæmi um einhleypan mann, sem hefur 1 millj. kr. í tekjur og gæti t. d. lagt fyrir 600 þús. kr. á ári og fengið þær skattfrjálsar, þá sýnist mér, að það mundi vera eignatilfærsla hjá þessum manni vegna þessara hlunninda, sem þarna er tæpt á, þá væri þar um eignayfirfærslu að ræða frá ríkinu til þessa manns á einu ári, sem næmi nokkuð á fjórða hundrað þús., umfram aðra þegna, og mér finnst hér tekið það djúpt í þessari ár, að það þurfi a. m. k. miklu betri athugunar við, hvort slíkt er hægt. Hitt tel ég svo alveg sjálfsagt, að bæði þetta atriði og raunar ýmis önnur í sambandi við húsnæðismálalöggjöfina séu tekin til áframhaldandi endurskoðunar, en þær lagfæringar, sem eru gerðar með þessu frv., skoða ég alls ekki sem neina heildarendurskoðun og tel það sjálfsagðan hlut, að endurskoðunin haldi áfram á þessum lögum. Ég er sannfærður um, að það er ýmislegt, sem betur má fara í þessari löggjöf þrátt fyrir þær lagfæringar, sem í þessu frv. felast, og ég mun a. m. k. gjarnan beita þeim áhrifum, sem ég kynni að geta haft á það, að slík nánari og betri endurskoðun á lögunum færi fram og eins fljótt og við væri komið. Og þá væri tekið bæði til athugunar það mál, sem hv. 1. landsk. þm. gaf tilefni til. að gefinn væri sérstakur gaumur, þ. e. hvaða aukin fríðindi þyrfti að bjóða sparifjáreigendum til þess að ákvæðin um þessa innlánsdeild kæmu að nokkru gagni. Sannleikurinn er nú samt sá, að þau kjör, sem innlánsdeildin býður, eru tiltölulega mjög góð miðað við þá möguleika, sem menn hafa til að ávaxta fé sitt í lánastofnunum, en það hefur ekki dugað til, og ég tel sjálfsagt, að það sé skoðað rækilega, hvað hægt er að gera þar til viðbótar, þó að ég álíti, að slík till. eins og hann flytur um þetta mál gangi það langt, að hún sé tæpast raunhæf.