16.03.1972
Neðri deild: 52. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

17. mál, atvinnu- og þjónustufyrirtæki sveitarfélaga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var lagt fram og því fylgt úr hlaði hér fyrr í vetur, þá leyfði ég mér að gera ýmsar aths. við þetta frv. og lýsa yfir andstöðu minni við það, eins og það var úr garði gert. Ýmsar fleiri ábendingar og aths. komu úr öðrum áttum, og ég mun ekki fara að lengja fundinn með því að endurtaka þær aths., sem fram komu, að sinni, en ég hafði gert ráð fyrir því, að með tilliti til þeirra aths., sem fram komu í 1. umr., mundi n. átta sig á þeim og reyna að gera sér grein fyrir því, hvort ekki væri rétt að breyta ýmsu til samræmis við þær ábendingar.

Ég sé mér til vonbrigða, að málið er lagt aftur hér fyrir d. alveg óbreytt, og mér leikur forvitni á að vita, hvort n. hafi leitað álits einhverra aðila utan þings um þetta frv., hvort Samband ísl. sveitarfélaga, Vinnuveitendasamband Íslands eða aðrir hagsmunaaðilar hafi fengið þetta mál til athugunar, því að ég trúi því ekki, að þannig sé frá þessu frv. gengið, að ekki megi um bæta, og ég trúi því ekki heldur, að nm. hafi ekki getað tekið tillit til þeirra aths., sem fram komu hér í 1. umr. Sérstaklega hef ég þá í huga, að flm., a. m. k. tveir þeirra, tjáðu sig reiðubúna til að hlusta á ýmis rök, sem fram gætu komið, fyrir breytingum, en aðaltilgangur þeirra væri sá, að þetta mál sem slíkt kæmist í gegn.

Hér er endurtekið af hv. frsm. n., að tilgangurinn sé sá að gera sveitarfélögunum kleift að setja á stofn atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð, og hann orðaði það einhvern veginn á þann hátt, að sveitarfélög mundu ekki ráðast í atvinnurekstur, nema þar sem um væri að ræða nauðsynlega félagslega þjónustu eða þar sem brýn þörf væri að fylla í skarðið. Það má vel vera, að þetta eitt vaki fyrir flm., en ég hef vakið athygli á því áður, að það er ekkert í þessu frv., sem kemur í veg fyrir það, að sveitarfélög geti ráðizt í hvers konar atvinnurekstur sem vera skal. Þar er enginn varnagli sleginn og ekkert því til fyrirstöðu, að sveitarfélög geti ráðizt í hvers konar atvinnurekstur algerlega án tillits til þess, hvort um nauðsynlega félagslega þjónustu er að ræða. Ég tel það varhugavert í sjálfu sér að opna slíka möguleika fyrir opinbera aðila að fara í auknum mæli að hafa afskipti af almennum atvinnurekstri og ekki sízt með tilliti til ýmissa ákvæða í þessu frv., og þá á ég sérstaklega við ákvæðið í 6. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki stofnuð og rekin samkvæmt lögum þessum skulu undanþegin gjöldum til ríkis og sveitarfélaga samkvæmt sömu reglum og gilda á hverjum tíma um sömu atvinnustarfsemi, væri hún rekin af sveitarfélagi með ótakmarkaðri ábyrgð.“

Þarna er verið að binda í lögum, ef þetta frv. verður samþ., að sveitarfélög geti ráðizt í, eins og ég segi, hvers konar atvinnurekstur við hliðina á almennum frjálsum atvinnurekstri, og fyrirtæki sveitarfélaga eru á sama tíma undanþegin öllum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga á sama tíma og sambærilegur rekstur við hlið þeirra verður að greiða þessi gjöld. Þetta er náttúrlega engan veginn sanngjarnt og fyrir neðan allar hellur, að menn, sem eru hlynntir frjálsum atvinnurekstri, skuli styðja slík frv.

Ég hefði haldið með tilliti til þeirra umr., sem hér fóru fram fyrr í vetur, að menn mundu taka þessa grein til athugunar og leiðréttingar, a. m. k. þessa grein, svo að ekki sé um hreina mismunun að ræða milli opinberra aðila annars vegar og einkaaðila hins vegar. Og meðan frv. er ekki bætt að þessu leyti, þá legg ég til. að frv. verði fellt, en áskil mér að öðru leyti rétt til að leggja hér fram brtt.