17.11.1971
Neðri deild: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

67. mál, íþróttalög

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær undirtektir, sem hann hefur látið hér í ljósi við þetta frv., sem ég hef borið fram. Hann er annar framsóknarmaðurinn á tveimur dögum, sem lætur þá skoðun í ljósi að nærvera mín hér á þingi sé mjög æskileg. Ég verð að láta í ljósi þakklæti fyrir þennan óvænta stuðning og sé, að mín hefur verið saknað hér undanfarin ár. Ég skal játa það, að það fer talsvert í taugarnar á mér, þegar menn standa hér upp í pontunni og láta í ljósi álit sitt á hinum ýmsu málum ætíð út frá sjónarhóli síns eigin flokks.

Hér fóru fram umr. í gær um ýmis ágæt mál, en það var ómögulegt, að því er virtist, fyrir þm. og þá einkum, að því er virtist, fyrir ágæta framsóknarmenn að taka á þeim málum með hlutlausum og skynsamlegum hætti, heldur körpuðu þeir um það, hvort málið hefði upphaflega komið frá Framsfl. eða Sjálfstfl. Nú vil ég taka fram, að ef þetta frv. mitt skoðast sem gagnrýni á störf fyrri stjórnar og þykir bera vott um það, að slælega hafi verið að þessum málum staðið að undanförnu, þá er ég ekkert feiminn við að gangast við þeirri gagnrýni. Ég treysti mér vel til að fylgja hvaða máli sem er, hvernig sem að því hefur verið staðið og án tillits til þess, hverjir hafa farið með þau mál að undanförnu. Það, sem vakir fyrir mér, er það að koma brýnu nauðsynjamáli á framfæri og leiða það til lykta, þannig að viðunandi úrlausn fáist.

Vegna þessara aths. frá hæstv. fjmrh. um það, að Framsfl. eða framsóknarmenn hér á þingi hafi ekki fengið stuðning sem skyldi frá sjálfstæðismönnum, vil ég þó geta þess, án þess að ég vilji taka upp slíkar umr., að einmitt sú háa upphæð, sem nú er færð til skuldar hjá íþróttasjóði, stafar af mjög myndarlegu og verulegu átaki hér í Reykjavík, þar sem Sjálfstfl. hefur verið í meiri hluta og hrundið þessum málum áfram af miklum myndugleik að mínu viti. Þannig má lengi um það deila, hver sé fremstur íþróttaunnandinn og hver sé helzti stuðningsmaður þessarar ágætu hreyfingar, en látum það kyrrt liggja að sinni.

Ráðh. benti á, að fyrstu 15–16 árin, eins og ég reyndar tók fram og las upp úr bréfi Íþróttasambands Íslands, hefði íþróttasjóður staðið nokkurn veginn fyrir sínu, en síðan hefði sigið á ógæfuhliðina. Þetta á sér að sjálfsögðu þá skýringu fyrst og fremst, að nú á seinni árum, síðasta áratuginn og síðustu áratugina, hafa kröfur þjóðfélagsins á þessu sviði sem og mörgum öðrum félagslegum sviðum vaxið mjög og auknar kröfur eru gerðar til þess að byggja upp íþróttamannvirki og stuðla að auknu starfi slíkrar hreyfingar. Þessum þörfum og þessum kröfum hefur verið mætt af ýmsum sveitarfélögum og af frjálsum íþróttasamtökum, og þess vegna er hlutur íþróttasjóðs svo bágborinn sem nú ber raun vitni, þar sem ríkissjóður, íþróttasjóður fyrir hans hönd, hefur ekki staðið í stykkinu og lagt fram sjálfsagt framlag, sem hefði átt að koma frá ríkisvaldinu.

Ég skal játa það, að hér hafa ýmis mál á undanförnum árum verið borin fram til þess að leysa vandamál íþróttasjóðs. Þar er um að ræða heiðarlegar tilraunir, en þær hafa verið fálmkenndar að mörgu leyti, og ekki hefur tekizt að grípa á kjarna málsins til að reyna að leysa það í eitt skipti fyrir öll. Þann veg lít ég á málið og viðurkenni, að sú fjárveiting, sem nú er lagt til, að veitt verði samkv. fjárlagafrv., 13 millj. kr., er virðingarverð tilraun til þess að bæta hag íþróttasjóðs, en öllum hlýtur að vera ljóst, að það framlag nægir hvergi, þegar við höfum það í huga, að nú er skuld sjóðsins þegar orðin 75–76 millj. kr. Fyrirsjáanlegt er, að mjög verulegt átak er nauðsynlegt á allra næstu árum í þessum málum. Það er skoðun mín og trú, að sú till., sem hér er sett fram í nefndu frv., sé til þess fallin að leiða til raunhæfrar lausnar á þessu máli. Þess vegna er ekki gerð till. um að hækka nú fjárlög vegna þessa um tugi millj. kr., eins og þó er full þörf á. Það er ekki gert ráð fyrir því að krefjast þess af ríkisvaldinu, að úr 13 millj. kr. verði farið upp í 30–40, hvað þá 70 millj. kr., eins og stundum hefur viljað brenna við í málflutningi og tillögugerð hér á Alþ. Ég hef a. m. k. reynt að setja þessa till. þannig fram, að hún beri vott um ábyrgðartilfinningu, og ég vona, að menn virði mér það til vorkunnar, þótt ég gangi ekki lengra, en það er líka gert með því hugarfari, að hæstv. fjmrh. og þeir menn, sem með þessi mál fara nú, geti athugað þessa till. og raunverulega gert tilraun til þess að leysa þetta mál á þessum grundvelli.

Hæstv. fjmrh. hafði hér allmörg orð um það, að hann vildi nú gera tilraun til þess að greiða niður þá skuld, sem þegar væri fyrir hendi. Ég vék að því í framsöguræðu minni, að ég teldi öll líkindi til þess, að takast mætti að semja við íþróttasamtökin og sveitarfélögin um afslátt eða eftirgjöf á hluta þessara skulda, en að sjálfsögðu hlýtur það að haldast í hendur við það, að þessi mál séu leyst til frambúðar, þannig að viðkomandi aðilar geti átt von á því að eiga greiðslur vísar úr íþróttasjóði, eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vil ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vil þakka fjmrh. mjög vinsamleg orð um minn málflutning og um þetta mál. Hann undirstrikaði, að hér væri um mikið nauðsynjamál að ræða, og taldi það vera þýðingarmikið frá þjóðhagslegum, félagslegum og uppeldislegum sjónarhóli séð, að mál þessi væru leyst. Ég vil taka undir þessi orð og ítreka það, sem ég hef sagt áður, og treysta því, að við getum leyst þetta mikla hagsmunamál íþróttahreyfingarinnar í landinu án tillits til stjórnmálaskoðana.