10.04.1972
Neðri deild: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

235. mál, skipulagslög

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 499 er flutt að beiðni Sambands ísl. sveitarfélaga. Það eru fimm þm., sem flytja þetta frv. og flokkarnir hafa valið til þess að vera tengiliðir við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa hér langa framsöguræðu um þetta mál, en efni frv. er það, að skipulagsstjórn getur heimilað sveitarstjórn að annast á eigin kostnað tiltekin skipulagsverkefni undir yfirstjórn skipulagsstjórnar. Ráðh. er þá heimilt að láta greiða úr ríkissjóði allt að helmingi kostnaðar sveitarstjórnar við það verkefni, enda hafi skipulagsstjórn staðfest samning sveitarstjórnar við þann aðila, sem verkefnið tekur að sér, þ. á m. kveðið á um hámarksframlag ríkissjóðs.

Ég vil aðeins geta þess, að skipulagsstjórn ríkisins hefur einróma samþykkt að mæla með samþykkt frv., og sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Hv. þdm. geta kynnt sér frekari rök málsins í greinargerð.