21.04.1972
Neðri deild: 64. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

253. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Til allshn. þessarar d. var fyrir nokkuð löngu vísað frv. á þskj. 293, um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, 156. mál þingsins, en frv. þetta var samið af mþn. árið 1966 og hefur áður legið fyrir Alþ. Við 1. umr. um þetta frv., sem ég nú hef nefnt, fóru fram töluverðar umr. í hv. d., og komu fram hugmyndir um breytingar á frv., sem ekki er óeðlilegt, þar sem frv., sem fyrir þá, var samið fyrir 6 árum. Nú hefur n. haft þetta mál til meðferðar, og niðurstaðan varð sú, að n. samdi nýtt frv., sem hún ætlast til, að komi í stað hins frv., en er byggt á því með nokkrum breytingum, sem komu til greina í samræmi við umræður, sem urðu við 1. umr. Hér er í raun og veru um formbreytingu að ræða að verulegu leyti. Hér hefur verið samið nýtt frv., og við höfum gert ráð fyrir því í n. og rætt um það við hæstv. forseta d., að í raun og veru mætti telja, að 1. umr., sem fram fór um frv. á þskj. 293, gæti skoðazt sem 1. umr. um þetta frv. Það mundi flýta fyrir málinu, og af hálfu n. yrði þá við 2. umr. þessa frv. gerð nánari grein fyrir hinu nýja formi málsins og þeim breytingum á fyrra frv., sem þetta frv. hefur í för með sér. Málið er flutt af n.