12.05.1972
Sameinað þing: 68. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Strax eftir að málefnasáttmáli vinstri stjórnarinnar var birtur hófu sjálfstæðismenn með Morgunblaðið í broddi fylkingar að ráðast að honum af miklum tilfinningahita og ofstopa. Einkum eru það ákvæðin um eflingu efnahagslegs og stjórnarfarslegs sjálfstæðis landsins, sem valda þessum geðhrifum. Fáum, sem þekkja Morgunblaðið og aðstandendur þess, kemur þessi vanstilling á óvart. Í því blaði hefur bæði fyrr og síðar verið dróttað landráðum og svikum að þeim öflum íslenzkum, sem bezt og dyggilegast hafa barizt fyrir málstað Íslands og málstað verkalýðshreyfingarinnar, bæði í félagslegum og efnahagslegum skilningi. Og kom það glöggt fram í þessu efni í ræðu Ólafs G. Einarssonar hér fyrr í kvöld, að hann kann vel sína heimastíla.

Meiri furðu hefur það hins vegar vakið, að Alþfl-menn og málgögn þeirra hafa lapið sömu áróðursvelluna upp eftir íhaldsblöðunum, og er greinilegt, að endurhæfingin, sem varaformaður flokksins boðaði í haust, á erfitt uppdráttar. Maður fer jafnvel að trúa þeim sögum, sem gengið hafa, að Alþýðublaðið sé komið á framfæri Vísis.

En illa fer það málgögnum íhaldsins að ásaka vinstri stjórnina um niðurrif og óþjóðhollustu, ef haft er í huga getuleysi hennar allan síðasta áratug til að efla íslenzkt atvinnulíf og treysta efnahagslegt sjálfstæði landsins og tilraunir þeirra til beinnar landsölu til handa erlendum auðhringum.

Það er óhætt að fullyrða, að mikil þáttaskil urðu í íslenzkum stjórnmálum í vor, þegar rúmlega áratugsgömul samsteypustjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hrökklaðist frá. Og eins og harmur fésýsluvaldsins og braskaranna varð stór, var fögnuður alþýðufólks að sama skapi mikill, því að fyrst og síðast einkenndist stjórnarstefna viðreisnarinnar af síendurteknum árásum á kjör og hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar. Með stjórnarfarslegum aðgerðum, brbl. og gengisfellingum voru hverjar kjarabætur verkafólks gerðar að engu strax að loknum verkfallsátökum og samningum. Þrátt fyrir óvenjumörg og hörð verkföll allan þennan áratug, tókst aldrei að hækka raunverulegan kaupmátt launanna. Reiknimeistarar viðreisnarinnar kunnu sitt fag og voru trúir sínum herrum. Allan þennan áratug snerist baráttan fyrst og fremst um það að verja þau laun, sem fyrir voru, og gekk á ýmsu, því að ríkisvaldið sveifst þess jafnvel ekki að afnema sjálfsagðar vísitölubætur, vísitölubætur, sem voru þó eina vörn verkafólks gegn óðaverðbólgu og dýrtíð. Það kom því lítið á óvart, þegar sænska blaðið Dagens Nyheter birti fréttina um heimsmet Íslendinga í verkföllum, en í fréttinni kom fram, að tapaðir vinnudagar á hverja 1000 launþega á Íslandi á tímabilinu 1960–1969 voru 1556 á ári að meðaltali, og leita varð alla leið til S.-Ameríku til þess að finna einhvern samjöfnuð. Það fylgdi hins vegar ekki frétt sænska blaðsins, sem hefði þó gert hana enn stærri, að þrátt fyrir þessi miklu verkfallsátök hækkaði kaupmáttur verkamannalaunanna ekkert á þessu tímabili, eins og fyrr hefur verið getið. Ef við athugum t. d. kaupmátt tímakaups Dagsbrúnarverkamanns á þessu árabili, þá fellur hann úr rúmlega 100 stigum eftir samningana 1958 niður fyrir 80, þegar verst lét vorið 1969, og á öllum áratugnum nær hann aldrei 100 stigum, en kemst hæst að ársmeðaltali 1967 í 96.8 stig. Og menn muna líka, að á þessu tímabili voru framkvæmdar hvorki meira né minna en fjárar gengisfellingar. Á þessum 9 árum var dollarinn skráður úr 16.32 kr. í 88 kr. Gunnar Thoroddsen sagði hér fyrr í kvöld, að verðbólga eins og þessi „gæfi braski byr undir báða vængi.“ Það er hárrétt hjá Gunnari Thoroddsen. Í þágu þessara braskara stjórnaði viðreisnin. Ég hygg, að verkafólk hafi ekki gleymt þessum árum, og ég held, að það hafi heldur ekki gleymt atvinnuleysisárunum frá 1967–1970. En kröfurnar um vinnu handa öllum settu þá mikinn svip á alla kröfugerð, og verkalýðsfélögin drógu þá úr kaupkröfum sínum af þessum sökum.

Atvinnuleysið þessi ár hafði ekki einungis neikvæð efnahagsleg áhrif í för með sér, heldur fylgdu því og víðtæk félagsleg vandamál. Einu þeirra kynntist ég vel í starfi mínu meðal iðnnema á þessum árum, en margir þeirra töfðust eða jafnvel hættu í námi vegna verkefnaskorts úti í atvinnulífinu. Einnig er víst, að hundruð ungmenna um allt land komust aldrei í iðnnám af þessum sökum. Allt sitt líf eru mörg þessara ungmenna dæmd til að vinna ófaglærð störf, þótt hugur þeirra hafi staðið til annars. Sömu sögu er að segja um ýmsa, sem hurfu í langskólanám, minnkandi tekjumöguleikar breyttu öllum þeirra áætlunum. Ástæðurnar fyrir atvinnuleysi þessara ára voru einkum tvennar. Í fyrsta lagi sagði til sín skipulagsleysi og óreiða efnahagslífsins strax og mesti kúfur velgengnisáranna á undan varð frá. Og í öðru lagi var þetta tilbúið tæki atvinnurekendavaldsins og fulltrúa þeirra í ráðherrastólunum til að halda kaupgetu verkafólks niðri. Eða hverjir kannast ekki við kenninguna um mátulegt atvinnuleysi?

Það voru annars vegar þessar skuggamyndir og hins vegar fyrirheit vinstri stjórnarinnar, sem vöktu ugg í brjóstum aðstandenda Morgunblaðsins og fögnuð í röðum verkafólks í vor. En hver voru helztu fyrirheit vinstri stjórnarinnar í kjaramálum og hverjar hafa efndirnar orðið? Við skulum rifja það upp.

1. Að vinnuvikan yrði með lögum stytt í 40 stundir án breytinga á vikukaupi. Þetta fyrirheit hefur verið efnt.

2. Orlof yrði lengt í 4 vikur og framkvæmd orlofslaga auðvelduð. Þetta fyrirheit hefur verið efnt.

3. Að kaupgjaldsvísitalan yrði leiðrétt um þau 1.3 vísitölustig, sem felld voru niður með verðstöðvunarlögunum og kæmi leiðréttingin þegar til framkvæmda. Þetta fyrirheit var efnt.

4. Að þau tvö vísitölustig, sem ákveðið var í verðstöðvunarlögunum, að ekki skyldu reiknuð í kaupgjaldsvísitölu fram til 1. sept. í fyrra, yrðu þegar tekin inn í vísitöluna. Við þetta fyrirheit var staðið.

5. Ríkisstj. taldi, að með nánu samstarfi launafólks og ríkisstj. væri mögulegt að auka í áföngum kaupmátt launa verkafólks, bænda og annars láglaunafólks um 20% á næstu tveimur árum, og hugðist hún beita sér fyrir því, að því marki yrði náð. Það hefur þegar verið hafizt handa um að ná þessu setta marki, og tryggja þarf, að við það verði staðið.

6. Kjör sjómanna hafa verið bætt. Einnig hefur ríkisstj. staðið við loforð sín um endurbætur á tryggingakerfinu með stórhækkuðum bótum almannatrygginga og loforð sín um að endurskoða skattalög. Á báðum þessum sviðum þarf að gera meira átak hinum lægst launuðu í hag. En það, sem unnizt hefur á hinum stutta valdaferli ríkisstj., lofar góðu um framhaldið.

Þrátt fyrir vinveitt ríkisvald verður þó verkalýðshreyfingin að halda vöku sinni og þrýsta á ríkisstj. á hverjum tíma. Nú þarf að nota á allan hátt það tækifæri, sem gefizt hefur, og koma fram ýmsum af brýnustu hagsmunamálum verkalýðsins, m. a. þarf að tryggja, að yfirlýst markmið hennar, að dagvinnutekjur nægi til mannsæmandi lífs, verði loks að veruleika. Ríkisstj. lofaði því einnig að stöðva hina háskalegu verðlagsþróun, sem leitt hefur til síendurtekinna gengisfellinga og óðaverðbólgu, og óskaði hún sérstaklega eftir samstarfi við verkalýðshreyfinguna í þessu skyni. Til að ná þessu markmiði sínu hefur ríkisstj. unnið að því í vetur að skipuleggja þróun fjárfestingar- og peningamála, en skipulag þeirra er ein meginforsenda þess, að þetta takist. Hins vegar hefur hinn langi skuldahali, sem viðreisnin skildi eftir, skapað mikinn vanda í vetur og valdið almenningi þungum búsifjum. En þessu mátti alltaf búast við. Vinstri stjórnin átti ekki auðvelt með að ganga beint til verks. Fyrst varð að gera upp margafsagða og fallna víxla viðreisnarinnar. Reynt hefur þó verið að draga eftir föngum úr áhrifum þeirra og hækkanirnar miskunnarlaust verið skornar niður, en — takið eftir — við hávær mótmæli Sjálfstfl., sem nú eins og áður rekur erindi hinna óbilgjörnustu úr hópi atvinnurekenda og kveinar um, að verið sé að þrengja að atvinnulífinu. Sem eitt sýnishorn af þessu ramakveini vil ég rifja upp smáglefsu úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins frá 16. jan. s. l., en þar segir, með leyfi forseta:

„Sú leið, sem næstu vikur og mánuði á að nota til að þjarma að íslenzkum atvinnufyrirtækjum, eru mjög ströng verðlagsákvæði og bann við að hækka framleiðsluvöru til að standa undir auknum kostnaði á öllum sviðum, bæði launakostnaði og hráefnakostnaði.“

Þannig er höfundur Reykjavíkurbréfs enn við sama heygarðshornið og á ritstjórnarskrifstofu þess blaðs óttast menn helzt, að ríkisstj. beiti sér fyrir ströngum verðlagsákvæðum og hún muni koma í veg fyrir, að launakostnaður fyrirtækja verði óðfluga settur inn í verðlagið. Er nokkur í vafa um, hvernig ástandið væri í verðlagsmálum, ef hinir pennalipru Moggaritstjórar hefðu ráðið málum í vetur?

Vissulega hafa ýmsar verðhækkanir verið tilfinnanlegar síðustu mánuði, en minnumst þess, hvernig til þeirra var stofnað. Höfum hugfast, hvernig íhaldið hefði snúizt við vandanum, hefði það mátt ráða.

Við stöndum nú á tímamótum. Og nú þegar verður ríkisstj. vinstri flokkanna í samvinnu við verkalýðshreyfinguna að reisa sér langtímamarkmið í efnahagsog verðlagsmálum í samræmi við hagsmuni launastéttanna. Það er höfuðverkefni næstu missera.

Að lokum vil ég minnast nokkrum orðum á þá aðför gegn Reykjavík, sem sjálfstæðismenn hafa hampað mikið upp á síðkastið, og þó einkum Geir Hallgrímsson, þm. og borgarstjóri. En það er nokkuð sama hvaða málaflokkar hafa verið til umr. í þingsölum upp á síðkastið. Alls staðar er ríkisstj. að hans mati að veitast að Reykvíkingum. Skyldi hún gera það til að styrkja sig í sessi, þegar haft er í huga, að helmingur þjóðarinnar býr í Reykjavík? Það er ósennilegt. Nei, sannleikurinn er sá, að sú aðför, sem sjálfstæðismenn tala um, hlýtur að vera sú aðför að fésýsluvaldinu, bröskurunum, sem eru heimamenn Geirs Hallgrímssonar. Og ég ætla, að Reykvíkingar almennt eins og aðrir landsmenn taki af heilum hug þátt í þeirri aðför. Við verðum hins vegar að virða Geir Hallgrímssyni það til vorkunnar, þótt honum sé gjarnt að líta á sig og sína nánustu liðsmenn sem persónugerving allra Reykvíkinga. Vonandi gefst þó fljótlega tækifæri til að leiðrétta þann misskilning.

Ég þakka áheyrnina. — Góða nótt.