31.01.1972
Neðri deild: 36. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

Launa og kaupgjaldsmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði í upphafi máls síns, að hann teldi eðlilegt, að launamálin væru rædd hér, ef menn aðeins vildu gera það rólega. Ég skal vissulega verða við því og tel sjálfsagt og eðlilegt, að þm. ræði launamálin. Til þess er sannarlega ástæða. Og ég skal reyna að haga orðum mínum þannig, að þau verði ekki færð undir neitt það, sem hægt er að kalla órólegar umræður.

Ég vil minna hæstv. forsrh. á, að þegar hann tilkynnti hér á Alþ. stjórnarmyndun sína, taldi hann henni langsamlega mest til gildis og taldi það mestan styrkleika hennar, að hún væri stjórn hinna vinnandi stétta, stjórn launafólksins í landinu og nyti stuðnings þess. Ég efast ekkert um, að hæstv. forsrh. hefur á þessum tíma staðið í þeirri trú, að svo væri, að sú stjórn, sem hann væri að mynda, nyti stuðnings launafólks í landinu almennt. Því miður hefur bæði hann og þjóðin fengið að sjá allt annað þá fáu mánuði, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Hér hefur verið meiri ólga í launamálum en verið hefur oft og tíðum og kannske oftast, þar sem ekki einasta hafa orðið langvinn verkföll, heldur hafa launastéttir almennt vissulega gert kröfur og staðið í baráttu fyrir bættum kjörum. Deilur urðu milli ráðamanna eða þeirra aðila, sem innan vébanda Alþýðusambands Íslands eru, og ráðamanna atvinnuveganna hins vegar. Það bjargaðist á síðustu stundu án þess að valda stórtjóni, þó að vissulega væri það farið að valda ýmiss konar erfiðleikum í þjóðfélaginu. Hins vegar fer ekki hjá því, að farmannadeilan hefur valdið þjóðinni verulegu tjóni og er ein af lengri vinnudeilum, sem hér hafa verið.

Ég minni á þetta hér vegna þeirra ummæla, sem ég vitnaði til og hafði eftir hæstv. forsrh., þegar hann var að tilkynna stjórnarmyndun sína, þar sem hann taldi, að þessi stjórn, sem nú situr, hefði vissulega meiri stuðning af almenningi og sterkari bakhjarl en fyrri stjórnir, þar sem hann taldi hana vera stjórn hinna vinnandi stétta. Og af því að hæstv. forsrh. vék að því hér í ræðu sinni, að ýmsir þm. kannske, hann beindi því nú aðallega til hv. þm., teldu sig vera orðna nokkuð uggandi um afkomu þjóðarbúsins, þá vil ég benda hæstv. forsrh. á, að í fyrsta skipti sem ég sá opinberlega ábendingu til ríkisstj. um þetta atriði, þá kom hún ekki frá neinum þm., hún var frá ráðamönnum Sambands ísl. samvinnufélaga, þeirrar deildar, sem sér um útflutningsverzlun og þeirra hraðfrystiiðnað. Þeir gerðu sínar samþykktir varðandi afkomu þessa stærsta atvinnuvegar þjóðarinnar og birtu þær opinberlega, og þar var vissulega aðvörun til hæstv. ríkisstj. um, hvert stefna hennar hefði leitt á þeim fáu mánuðum, sem hún hefur setið. Og ef svo er komið vegna mistaka í stjórn efnahagsmála landsins, að rekstur hraðfrystiiðnaðarins í landinu, sem hefur þó verið talinn standa upp úr og standa einna bezt, er kominn í hættu, og ef sjálfir flokksmenn hæstv. forsrh. telja og birta það opinberlega, að rekstrargrundvöllurinn hjá þeim sé að hverfa eða horfinn, þá er málið á alvarlegra stigi en kannske við hér á Alþ. höfum gert okkur grein fyrir og látið koma fram. Mér fannst sjálfsagt að verða við tilmælum hæstv. forsrh. og ræða launamálin almennt, af því að ég held, að hann hljóti að vera farinn að sjá sjálfur, að allt hefur þetta farið á annan og því miður verri veg en hann í bjartsýni sinni boðaði, þegar hann var að tilkynna okkur stjórnarmyndunina.

Hvað varðar þá sérstöku deilu, sem hér var tekin til umr. utan dagskrár af hv. 7. þm. Reykv., þá held ég, að það sé nú ákaflega hæpið fyrir hæstv. forsrh. að vera að tala um, að þetta sé allt byggt á misskilningi. Þetta er ekki byggt á neinum misskilningi. Hver einasti þjóðfélagsþegn veit, held ég, í dag, að þetta er hreinn og einhver sá mest óþolandi klaufaskapur, sem nokkru sinni hefur hent nokkra ríkisstj., sú aðstaða, sem hún er komin í í dag, vegna sinnar, vil ég segja, frámunalega fljótfærnislegu og vitlausu afstöðu, sem hún tók, þegar á þessi mál var minnzt af næststærstu launþegasamtökum í landinu. Hvað munaði hæstv. ráðh., fjmrh. og hæstv. forsrh., hvað munaði þá um að tala við forsvarsmenn þessara samtaka? Þeir þurftu ekki að skuldbinda sig fyrir það. Þeir gátu komið kurteislega fram og gert þessum aðilum grein fyrir sinni afstöðu og sinni skoðun á málinu. Það þurfti ekki að binda ríkisstj. eða neinn aðila með neinum samningum. Það er alveg rétt, sem hér hefur verið sagt, það eru ákveðnar reglur, sem fara ber eftir, ef ekki næst samkomulag um þessa hluti. En að það skuli vera ríkisstj. á Íslandi, sem telur sig stjórn hinna vinnandi stétta, sem verður fyrst til þess, svo að vitað sé, að hreinlega hunza næststærstu launþegasamtök í landinu með því að neita að tala við þau! Ekki getur hæstv. forsrh. haldið því fram, að þetta sé pólitískt, þar sem forsvarsmaður þessara samtaka er hans ákveðni og yfirlýsti stuðningsmaður, einn af fyrrv. þm. Framsfl., svo að ekki er um pólitíska ákvörðun að ræða. Og ef á nú hér af hæstv. forsrh. að fara að telja okkur trú um, að þetta sé allt saman misskilningur, —hver trúir því, að þessir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, hafi ekki verið búnir að láta skoða málið ofan í kjölinn? Þeir hafa sína lögfræðinga og leita án efa upplýsinga, — og heldur hæstv. forsrh. virkilega, að þessi samtök séu að leggja í það að gamni sínu að boða meðlimi sína alls staðar að af landinu til aukaþings til þess að ræða þessa afstöðu stjórnarinnar að hunza viðtal við þau? Heldur hann, að þeir séu að leika sér að þessum hlutum? Þetta kostar alla aðila og samtökin stórfé að gera þetta. Þeir telja sig vera komna í þá aðstöðu, að þessi ágæta ríkisstj. hinna vinnandi stétta hafi sýnt það af sér og sýnt það í verki, að þarna verði að spyrna við fæti og reyna að ná rétti sínum eftir eðlilegum leiðum. Nú má deila um það endalaust, og ég skal engan dóm leggja á það, hvort allar kröfur, sem eru þar bornar fram, séu þannig, að eðlilegt sé, að ríkisstj. segi bara „já takk“ við því. Það skal ég ekkert um segja. Ég þekki þær ekki það vel, að ég vilji neitt um það ræða. En ég vildi aðeins benda hæstv. forsrh. á, að það er meðferðin á málinu, sem þessum aðilum svíður, og sú er ástæðan til þess, að aukaþingið er kallað saman. Það er ekki kannske ágreiningur, það er meðferðin á málinu, þar sem fulltrúar þessara samtaka hafa hreinlega talið sig lítilsvirta með því að fá ekki einu sinni áheyrn hjá hæstv. ríkisstj. Hún er orðin stórlát, þessi ágæta stjórn, þegar hún á nokkrum mánuðum hefur efni á því, segi ég bara alveg hiklaust, þegar hún hefur efni á því að hunza næststærstu launþegasamtökin í landinu og neita að semja við þau, ef þau telja, að þeirra mál séu þannig vaxin, að efna þurfi til viðræðna við þessa ágætu herra, sem nú sitja við völd hér á Íslandi.

Vissulega er það rétt, sem hæstv. forsrh. sagði í upphafi máls síns, að ástæða er til að tala um launamálin í landinu almennt og efnahagsmálin í landinu með tilliti til þess, sem gerzt hefur. Mér finnst kveða við allt annan tón hjá hæstv. forsrh. nú í sambandi við efnahagsmálin en þegar hann var að lesa yfir okkur sinn ágæta málefnasamning og var að stæra sig af því og benda á og undirstrika, að þessi ríkisstj., sem þá var að taka við, hefði tekið í málefnasamning hjá sér að bæta ekki einasta launakjör almennings í landinu, heldur bæta kaupmátt launa um 20% á tveimur árum. Ég er alveg sannfærður um, að þetta er eitt af þeim atriðum, sem þeir, sem voru að mynda stjórn, hafa ákveðið án þess að hafa hugmynd um, hvað þeir voru að gera eða hvað þeir voru að segja í sambandi við þetta. Og ég efast um, að launamenn í dag sjái fram á, að kaupmáttur launa þeirra muni nokkuð batna á næsta ári. Það er vitað, að almenn verðbólga fer hér ört vaxandi, og hún hlýtur, því miður hlýtur hún að gleypa verulegan hluta þeirrar launauppbótar, sem hinir nýju samningar gáfu þessum aðilum. Það er þannig ekki að furða, mig furðar ekkert á því, þó að kveði við nokkuð annan tón hjá hæstv. forsrh. nú en í þingbyrjun, þegar hann lítur til baka yfir farinn veg, þessa fáu mánuði, og sér hvernig ástand efnahagsmálanna er að verða almennt í landinu, og þegar hann stendur frammi fyrir þeirri staðreynd, að þessi stjórn, sem hefur hagað sér, — ég má náttúrlega ekki segja, að ein ríkisstj. hagi sér heimskulega, — hagað sér svo furðulega, að hún heldur, að hún komist upp með það í þjóðfélaginu — í dag að synja ráðamönnum næststærstu launþegasamtaka í landinu um viðræður, hvað þá að hún vilji verða við þeirra óskum.