14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

Launa og kaupgjaldsmál

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. úr hófi, en það vildi svo til að ég mun hafa verið eini þm., sem sótti þennan fund hjá opinberum starfsmönnum, þennan margumrædda fund í Háskólabíói, eini þm. fyrir utan þá tvo ráðh., sem hér hefur verið minnzt á, hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. Ég varð þess vegna vitni að þessum sögulegu ummælum, sem menn hafa verið að vitna til, af hálfu sjútvrh.

Hæstv. fjmrh. hafði í sinni framsöguræðu á þessum fundi áréttað það, sem sagt hafði verið áður af hálfu ríkisstj. og fram kom m. a. í umr. hér á þingi fyrir nokkrum dögum síðan, að ríkisstj. teldi engin skilyrði til endurskoðunar á samningnum og þess vegna hefði hún verið svo hreinskilin, að hún hefði ekki talið ástæðu til þess að hefja neinar viðræður við opinbera starfsmenn. Í lok fundarins, eins og mönnum er vel kunnugt um, þá stöð sjútvrh. upp og lýsti því þar yfir, að það væri rangt, að ríkisstj. hefði nokkurn tíma hafnað viðræðum við opinbera starfsmenn. Nú veit ég ekki, hvernig á að túlka þessi ummæli, hvort þau eigi að villa um fyrir opinberum starfsmönnum og þá öllum almenningi eða storka meðráðh. hans, en hitt er víst, að þessi ummæli stangast fullkomlega á við það, sem hæstv. forsrh. hefur m. a. sagt hér í sölum Alþ. Af þessu tilefni, þar sem hæstv. sjútvrh. margtók fram í ræðu sinni hér áðan, að ríkisstj. hefði ekki hafnað viðræðum, það væri rangt, hann neitaði því og taldi það órökstutt, þá vildi ég leyfa mér að vitna hér til ummæla hæstv. forsrh. frá umr. á Alþ., sem fram fóru hér í lok jan., og vitna ég þá til ræðunnar, sem birt er næstum í heild í dagblaðinu Tímanum 2. febr. s. l. En þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessu næst sagði forsrh., að nú mundu menn kannske spyrja, hvers vegna mætti ekki tala við opinbera starfsmenn, hvað sem öllum lagaákvæðum liði. — Það er vegna þess [og er þá vitnað til ráðh.], að ef slíkar viðræður hefðu verið upp teknar, þá hefði það verið óbein viðurkenning á því, að skilyrði væru fyrir hendi til endurskoðunar á þessum samningi. En svar stjórnarinnar var skýrt, hún taldi, að skilyrði væru ekki fyrir hendi til endurskoðunar. Þess vegna tel ég, að með þeirri málsmeðferð, sem höfð hefur verið, hafi enginn réttur verið brotinn á opinberum starfsmönnum“ o. s. frv.

Þetta getur varla verið skýrara fram sett, eins og við hér í þingsölum heyrðum reyndar á sínum tíma. Þessu til áréttingar er síðan sagt í leiðara Tímans þennan sama dag, þar sem verið er að ræða um þessar umr.. og ræðu hæstv. forsrh., þá segir í Tímanum, með leyfi forseta:

„Ólafur Jóhannesson forsrh. sagði, að það yrði að teljast mjög eðlilegt, að kveðið væri á um nokkuð mismunandi málsmeðferð, þegar um það væri að tefla, að fram kæmi krafa um endurskoðun á samningstímanum án samningsuppsagnar, en þegar um heildarendurskoðun í grundvallaratriðum væri að ræða, eftir að samningnum hefði verið sagt upp og samningstími úti. Endurskoðunarréttur á samningstímabilinu væri gagnkvæmur. Hvor aðili sem væri, opinberir starfsmenn eða ríkið, gæti krafizt endurskoðunar án uppsagnar samninga. En hjá hvorum aðila sem væri gæti svarið orðið það, að skilyrði væru ekki fyrir hendi til endurskoðunar. Þá fer deilan beint til sáttasemjara, eins og nú hefði átt sér stað.“ Og síðan segir: „Þegar það er að mati annars hvors aðilans, að skilyrði séu ekki fyrir hendi til endurskoðunar, þá eiga ekki neinar samningaviðræður milli aðila við. Þá geta slíkar viðræður einmitt ekki farið fram, vegna þess að það væri beinlínis í andstöðu við það álit, sem þá hefur verið sett fram af öðrum hvorum aðilanum.“

Ég held, að ekki þurfi nú frekar vitnanna við um það, að a. m. k. liggur ljóst fyrir, að það er skilningur hæstv. forsrh., og ég lít svo á, að það sé skilningur fjmrh. líka, að það hefði verið mjög hreinskilnislega gert af ríkisstj. að tilkynna opinberum starfsmönnum strax, að viðræður gætu ekki farið fram, þar sem engin skilyrði væru til endurskoðunar. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið og má segja, að það sé heiðarlegt og hreinskilnislegt út frá þessari skoðun. En það breytir ekki því, að þetta er sagt af þessum ráðh., sem menn verða að taka mark á, og þess vegna er það líka rangt, þegar því er haldið fram, bæði í Háskólabíói og hér, að ríkisstj. hafi ekki hafnað viðræðum. Hún hefur þvert á móti gert það.