20.01.1972
Sameinað þing: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 2443 í B-deild Alþingistíðinda. (2618)

Ástandið í Bangla Desh

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef hér örstutt svör við þrem fsp. hv. 3. landsk. þm. Svar við fyrstu spurningunni er, að danski utanrrh. hefur ekki haft samband við íslenzku ríkisstj. út af Bangla Desh.

Svar við annarri spurningu: Spurningin um viðurkenningu á ríkisstj. Bangla Desh var rædd á ríkisstjórnarfundi snemma í jan. og ákveðið að hafa samflot með hinum Norðurlöndunum í því efni. Var sendiráði Íslands í Stokkhólmi falið að fylgjast með málinu, og hefur utanrrn. síðan fengið ýmsar upplýsingar frá sænskum stjórnvöldum um afstöðu hinna Norðurlandanna og nokkurra annarra ríkja. Gert er ráð fyrir, að Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð viðurkenni Bangla Desh samtímis, og verður þá Ísland með í þeim hópi.

Svar við þriðju spurningu: Almenn skilyrði til þess, að nýtt ríki hljóti viðurkenningu, má segja að séu þau, að viðkomandi stjórnvöld hafi náð sjálfstæðum, raunverulegum og virkum yfirráðum yfir umræddu landssvæði. Ég hygg, að fram að þessu hafi tæpast þótt fullljóst, hvort slík þjóðréttarleg skilyrði hafi verið fyrir hendi í Bangla Desh, en ég endurtek, að ríkisstj. Íslands hefur ákveðið að hafa samflot með hinum Norðurlöndunum í þessu máli, og viðurkenning okkar mun koma samtímis viðurkenningu þeirra. Sem stendur munu níu ríki hafa viðurkennt hið nýja ríki, Bangla Desh.

Ég vil svo að lokum aðeins skýra frá því, að í byrjun jan. barst mér áskorun frá allmörgu fólki á Laugarvatni þess efnis að viðurkenna þetta nýja ríki, og síðan hafa nokkrar áskoranir frá einstaklingum borizt, sem ég sé ekki ástæðu til að tefja tíma Alþ. með að telja hér upp, nema sérstök ástæða gefist til.