03.11.1971
Efri deild: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2957)

50. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni, að fyrirætlun ríkisstj, væri að framkvæma ýmsar breytingar á tryggingalögunum, sem kæmu til framkvæmda nú um áramót. Hv. þm. Auður Auðuns spyr mig nánar um þetta. Ég hef líklega sagt þetta eitthvað óljóst áðan, en atriði, sem fyrirhugað er að reyna að láta koma til framkvæmda núna um áramótin, er þessi hækkun á tekjutryggingunni, eins og við höfum talað um hér, hækkun upp í 120 þús. fyrir einstakling og 216 þús. fyrir hjón. Önnur atriði, sem rætt hefur verið um, að kæmu til framkvæmda um leið, er stofnun tryggingadómstóls, sem áðan var minnzt á. Ég kannske skýt því inn út af ummælum hv. þm. Eggerts G. Þorsteinssonar í sambandi við það mál, að hann dró í efa, að það væri ástæða til að skipa þennan dómstól, og taldi, að tryggingaráð gæti gegnt þessu hlutverki, að þetta tel ég vera á misskilningi byggt. Tryggingaráð er ekki hlutlaus aðili, þegar slíkar deilur koma upp, heldur einnig deiluaðili, og þarna þarf að koma til hlutlaus aðili til að útkljá vandasöm og mjög mikilvæg mál, sem þarna er um að ræða.

Svo að ég haldi áfram að minnast á þær breytingar, sem ríkisstj. hefur hug á að reyna að láta koma til framkvæmda nú um áramótin, þá er það, að til þessa hefur verið greiddur barnalífeyrir, ef faðir er örorkulífeyrisþegi, en það mun verða lagt til, að barnalífeyrir verði einnig greiddur, ef móðir er öryrki, sem getur hvorki innt framfærsluskyldu af hendi með starfi á heimili né utan þess, og séu báðir foreldrar ófærir um að inna framfærsluskyldu af hendi verði greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Þá er till. um, að heimilt verði að greiða barnalífeyri með börnum, sem ekki reynist gerlegt að feðra. Enn er till. um, að greiddur verði barnalífeyrir vegna barna manna, sem sæta gæzlu eða refsivist, enda hafi hún varað a. m. k. í 3 mánuði. Þá eru ákvæði um það, að bætur, sem greiddar hafa verið ekkjum í 12 mánuði og nema 7368 kr. í 6 mánuði og 5525 kr. í næstu 6 mánuði vegna fráfalls maka, verði einnig greiddar ekklum og ákvæði um slíkar bætur í 12 mánuði í viðbót, ef eftirlifandi hefur barn innan 16 ára á framfæri sínu, verði greiddar til 17 ára aldurs barnsins.

Þá er um það rætt, að sjúkradagpeningar einhleypinga hækki og verði jafnháir sjúkradagpeningum kvæntra, þ. e. a. s. þeir hækki úr 221 kr. á dag í 251 kr., en dagpeningar vegna hvers barna á framfæri hækki úr 29 kr. á dag í 75 kr. Samkv. núgildandi lögum má lækka um þriðjung dagpeninga vegna manns, sem dvelst á sjúkrahúsi eða hæli á kostnað sjúkrasamlagsins, svo og sjúkradagpeninga, sem greiddir eru vegna barna hans. Verður lagt til, að ekki verði heimiluð lækkun á dagpeningum vegna barna. Þá er ætlunin að festa í lög ákvæði um það, að sjúkrasamlög og tryggingastofnanir og umboðsmenn þeirra hafi skyldu til þess að kynna umsækjendum og bótaþegum rétt sinn í miklu ríkari mæli en nú er gert. Það eru ákaflega mikil brögð að því, að almenningur þekki ekki þau réttindi, sem hann hefur gagnvart tryggingakerfinu. Og það er ákaflega mikil nauðsyn, að þessi starfsemi verði skipulögð þannig, að hún liti á sig sem þjónustustarfsemi í þágu almennings, þarna komi aldrei upp nein óeðlileg togstreita Á milli stofnunarinnar og þeirra, sem þurfa á fyrirgreiðslu að halda. Það er ætlun ríkisstj., að reynt verði að breyta málum í þetta horf.

Þetta eru þau atriði, sem ríkisstj. hefur í hyggju að reyna að koma í framkvæmd nú um þessi áramót. Ég sé enga ástæðu til þess að miklast yfir þessum till. Ég er vissulega á sömu skoðun og sá, sem hv. þm. Auður Auðuns vitnaði í og taldi, að það væri ekki ofrausn, þó að bætur almannatrygginganna væru tvöfaldaðar. Ég tel það enga ofrausn. Og ég býst við því, að þó að ötullega verði að þessum málum unnið og mun ötullegar en gert hefur verið undanfarinn áratug, þá líði langur tími þangað til þessar bætur verði slíkar, að við getum verið fullsæmdir af þeim. Ég hef ekki hugsað mér að þurfa að standa hér nokkurn tíma til þess að flytja prósentutölur um ágæti þessarar starfsemi. Þetta er starfsemi, sem við þurfum alltaf að vera að bæta, og þar verður aldrei komið að neinum leiðarlokum. En ég vænti þess, að ég hafi svarað fsp. hv. þm. með þessu.