29.11.1971
Efri deild: 19. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

50. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. það, sem hér liggur fyrir um staðfestingu brbl. frá 19. júlí í sumar, um breyt. á lögum um almannatryggingar. N. var einróma samþykk efni frv., og hún mælir með samþykkt þess, en 2 nm. skrifa undir með fyrirvara.

N. hafði til athugunar gögn frá Tryggingastofnun ríkisins, er sýndu áhrif einstakra liða breytinganna á kostnaðarauka ríkissjóðs frá 1. ágúst til áramóta af lögum þessum, en samkv. þeim er um að ræða áætlaða fjárhæð sem næst 170 millj. kr., og munar þar mest um hækkun ellilauna og sérstaka lágmarkstryggingu tekna aldraðra og öryrkja, sem í lögunum eru.

Mér þykir rétt að fara örfáum orðum um ástæðurnar fyrir því, að brbl. voru sett í júlí í sumar.

Um tryggingamálin og þó einkum um hækkun tryggingabóta urðu miklar umr. á síðasta þingi, og snerust þær fyrst og fremst um það, hve mikil hækkunin ætti að vera, hversu fljótt hún skyldi koma og hversu víðtæk breyting skyldi eiga sér stað í tryggingakerfinu. Ég er að miklu leyti ókunnugur þeim umr., og í ágætri framsöguræðu sinni hér í d. fyrir þessu frv. minnti hæstv. trmrh. á nokkur helztu deiluatriðanna og rakti að nokkru þær umr., og svo gerðu fleiri, enda skal það ekki tíundað hér.

Sem bein afleiðing af málflutningi og till. fyrrv. stjórnarandstöðu á síðasta þingi kom svo þessi ákvörðun ríkisstj. til framkvæmda þegar hálfum mánuði eftir valdatöku hennar. Um það geta víst allir orðið sammála, að á þessari hækkun var brýn þörf hjá þeim mörgu, sem hér af hafa sitt eina lífsframfæri, og þó að hækkunin væri umtalsverð, væri síður en svo réttmætt að kalla hana fullnægjandi. Þau önnur ákvæði laganna, sem flýtt var gildistöku á í sumar, voru einnig drjúgt spor fram á við í tryggingamálum okkar. Það skal þó sérstaklega undirstrikað nú, sem raunar kom þó glögglega fram hjá hæstv. ráðh. í framsögu hans, að hér er aðeins um fyrsta áfanga að ræða til þess að efla og auka félagslega samhjálp trygginganna. Á það hefur oft verið réttilega bent, að einhver bezti mælikvarðinn á þjóðfélagsástandið sé einmitt sá þáttur, sem að því lýtur, hvernig búið er að þeim, sem eiga allt sitt til trygginganna að sækja fyrir sakir elli, örorku eða af einhverjum öðrum ástæðum, þ. e. þeim, sem öðrum fremur eru þurfandi fyrir aðstoð samfélagsins. Ef við viljum heita félagslega sinnuð þjóð, sem vill hafa samhjálp að leiðarljósi, sýnum við bezt þroska okkar og manndóm með því að búa á hverjum tíma svo vel að þessu fólki sem frekast er kostur. Annars eigum við skilið aðrar nafngiftir og lakari.

Það liggur í augum uppi, hver vandkvæði þeirra eru, sem í dag eiga að hafa af 84 þús. allt sitt lífsframfæri hvað snertir fæði, klæði, húsaskjól og ýmsar félagslegar þarfir, hvað þá ef við hverfum til þeirrar upphæðar, sem hámarksbæturnar voru áður en lög þessi voru sett, sem var innan við 60 þús. Því er rétt að leggja á það áherzlu, að einmitt nú stendur yfir heildarendurskoðun á tryggingakerfi okkar, endurskoðun á tryggingakerfinu öllu, sem m. a. leiðir til þess, að þegar um áramót eiga að ganga í gildi verulegar hækkanir á ýmsum þáttum almannatrygginganna, og margt í nýskipan þeirra mála er til hagsbóta fyrir tryggingaþega, ef Alþ. samþykkir það. Hæstv. trmrh. gerði ýmsar þessar breytingar að umtalsefni í sinni framsöguræðu og skal ekki farið út í endurtekningu þess hér, en því ber að fagna, að frv. þetta, sem við nú fjöllum um, er aðeins til bráðabirgða. Þar skal áfram haldið á sömu braut, og svo að dæmi sé nefnt, mun sú upphæð frá áramótum, sem hægt er að kalla tekjutryggingu hinna öldruðu og þeirra, sem við örorku búa, samkv. till. þeirrar n., sem um þetta mál fjallar, verða tvöfölduð miðað við þá upphæð, sem greidd var til þessa fólks í júlí s. l., þ. e. að hún verði u.m 120 þús. kr. á einstakling og 216 þús. kr. á hjón á ári. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að rekja þær breytingar, sem boðaðar hafa verið, enda munu þær þm. nokkuð kunnar, og þau mál munu öll koma til umr. innan tíðar hér á Alþingi.

Ég vildi aðeins í framsögu fyrir þessu nál. minna á, hvert stefnt er, að þessi lög eru aðeins byrjunaráfangi að því marki að rétta sem bezt hlut þeirra, sem við erfið kjör búa í þjóðfélaginu, að við þannig erum að stefna í átt til aukins þjóðfélagslegs jafnréttis í veigamiklum og afgerandi atriðum.