10.12.1971
Neðri deild: 25. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er nú til umr. í hv. d. stjfrv. til l. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Að þessu frv. hefur verið unnið mikið hér í Reykjavík milli þinga, og ég hef ekki nema að litlu leyti fylgzt með undirbúningi þess. Eigi að síður sýnist mér, að ég muni vilja styðja þetta mál, þó að ég kynni að hafa viljað einhver atriði í frv. á annan veg en þau eru.

Þetta frv. mun vera talið eitt af stærstu málum þessa þings, þó að fundarsóknin nú í kvöld gefi það kannske ekki til kynna, en hv. stjórnarandstæðingar og þá aðallega hv. sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt það nokkuð, bæði í hv. Ed. og í dag í þessari hv. d. Ég, hef hlýtt á þessa gagnrýni þeirra með athygli, en mun þó ekki gera hana verulega að umræðuefni í þessari ræðu, enda munu sjálfsagt aðrir svara henni og hafa þegar gert.

Ég hef alltaf haft nokkurn áhuga á áætlanagerð, og það er nú m.a. af þeim ástæðum, sem ég legg hér orð í belg, en Framkvæmdastofnun ríkisins, sem gert er ráð fyrir að stofna með lögum samkv. þessu frv., er einmitt ætlað það annað aðalhlutverk að gera áætlanir af ýmsu tagi og þá einkum í sambandi við atvinnulíf landsmanna. En henni er ætlað meira en það eitt að gera áætlanir. Henni er líka fengið í hendur, a.m.k. að einhverju leyti, afl þeirra hluta, sem gera skal, aflið til þess að láta áætlunina verða að veruleika, með því að fá henni nokkurt vald og nokkra fjármuni til ráðstöfunar, þó að lýsingar hv. ræðumanna sumra hér í dag á þessu afli stofnunarinnar hafi verið nokkuð orðum auknar.

Það er engin nýlunda, að gerðar séu tilraunir til áætlanagerðar hér á landi og þá ekki sízt áætlanagerðar á sviði atvinnulífs og efnahagsmála. Það er langt síðan byrjað var að gera slíkar áætlanir á vegum Alþ. og ríkisstj. Segja má, að frá öndverðu hafi á Alþ., síðan það fékk löggjafarvald, verið gerð áætlun, sem var að vísu aðeins annað hvert ár fyrst í stað, þ.e. fjárlög ríkisins, sem eru áætlun um tekjur ríkissjóðs og gjöld og hvernig fjármunum verði varið úr ríkissjóði. Nú í seinni tíð er hér á Alþ. öðru hverju gerð vegáætlun svo kölluð, sem er um öflun fjármuna til vegagerðar og hvernig þessum fjármunum skuli varið. Fyrir Alþ. er líka lögð öðru hverju eða á að vera samkv. lögum hafnaáætlun, sem raunar hefur ekki sama gildi sem vegáætlunin, þ.e. ekki lagagildi, en er gerð til fjögurra ára eins og vegáætlunin.

En eins og hér var sagt í dag, þá má telja, að skipulagsnefnd atvinnumála, sem skipuð var á árinu 1934 af þáv. ríkisstj., sé upphaf að áætlanagerð á vegum ríkisins fyrir utan þær sérlegu áætlanir, sem ég hef nefnt hér áðan, sem þingið gerir. Það var vikið að þessari nefnd hér í ræðu í dag, og eins og þar var sagt, þá var gert ráð fyrir því, að hún framkvæmdi áætlanir eins og þyrfti, en það varð ekki mikið úr því. Að vísu gaf þessi áætlananefnd út mikið og merkilegt nál., þar sem voru margvíslegar skýrslur og hugleiðingar um ýmsa þætti atvinnulífsins, og að hennar tilhlutun voru nokkur lagafrv. samin hér á Alþ. Ég man t.d. eftir lögum um skipulag á landflutningum, þ.e. sérleyfislöggjöfinni, um flutningabifreiðaferðir um landið, um sameiningu póstmeistara- og landssimastjóraembættisins, sem þá var gerð, og lögum um hin svo kölluðu rekstrarráð ýmissa ríkisstofnana, sem þá voru sett og síðar afnumin. Þessi þrenn lög, man ég, að runnin voru undan rifjum skipulagsnefndar atvinnumála.

Ég minnist þess, að laust eftir 1940 eða um það bil þá var skipuð mþn. í raforkumálum, og henni var ætluð áætlanagerð á takmörkuðu sviði, þ.e. að gera áætlun um rafvæðingu landsins, og hún gerði það. Það var gerð áætlun um rafvæðingu landsins laust eftir 1940 af þessari nefnd, og sú áætlun var þá í höndum þingmanna. Í þeirri nefnd, held ég, að fyrst hafi komið fram hugmyndir um allsherjar rafvæðingu í sambandi við tengingu allra raforkuvera í landinu, sem nú aftur í seinni tíð er nokkuð komin á dagskrá. Formaður þessarar nefndar var hinn landskunni hugsjónamaður á sviði raforkumála, Sigurður heitinn Jónasson, sem eins og kunnugt er átti manna mestan þátt í því að hrinda í framkvæmd fyrstu virkjun Sogsins.

Veturinn 1942–43 var hér á Alþ. samþ. ályktun, sem vera má, að sé nú í gleymsku fallin. Þá geisaði heimsstyrjöldin enn, og ályktun, sem Alþ. samþykkti, var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að kjósa fimm manna mþn. til að gera áætlanir og tillögur um framkvæmdir í landinu, þegar stríðinu lýkur og herinn hverfur á brott. Í tillögunum verði að því stefnt, að þær framkvæmdir, sem veita skulu atvinnu fyrst í stað, verði jafnframt undirstaða að aukningu atvinnurekstrar og framleiðslu í landinu. Nefndin skal enn fremur gera tillögur um fyrirkomulag á stóratvinnurekstri í landinu og afskipti ríkisvaldsins af þeim málum. Lögð verði áherzla á, að skipulag atvinnurekstrarins tryggi sem bezt, að stórfyrirtæki séu rekin með almenningshag fyrir augum og að þeir, sem að honum vinna, beri úr býtum endurgjald fyrir störf sín í samræmi við afkomu atvinnurekstrarins. Nefndin skal starfa í samráði við aðrar nefndir eða stofnanir, sem falin kann að verða athugun á atvinnuvegum landsmanna eða einstökum starfsgreinum, og fylgjast sem bezt með starfsemi hliðstæðra nefnda, sem skipaðar hafa verið erlendis.“

Þessi ályktun var gerð hér á hinu háa Alþ. á öndverðu ári 1943, og þessi áætlunarnefnd, sem átti að gera áætlun um framkvæmdir og atvinnurekstur eftir stríð, var skipuð og tók til starfa. En starfstími hennar varð ekki langur, því að á næsta ári eða á árinu 1944 urðu stjórnarskipti í landinu, og við tók stjórn sú, sem nefndi sig nýsköpunarstjórn haustið 1944, og sú ríkisstj. lagði niður þá nefnd, er skipuð hafði verið samkv. ályktun Alþ., og skipaði aðra nýja, nýbyggingaráðið, sem nefnt var í umr. hér í dag.

Nýbyggingaráð var stjórnskipuð nefnd, og því var ætlað nokkuð sérlegt hlutverk. Á stríðsárunum höfðu safnazt miklar innistæður bankanna erlendis í erlendum gjaldeyri. Ég hygg, að þessar innistæður, sem Íslendingar áttu þá í erlendum bönkum, hafi numið um 600 millj. kr. á þáv. gengi. Það var á þeim tímum, þegar gengi dollarans var innan við 10 kr., nokkuð mikið innan við 10 kr., og nú mundi þessi upphæð gjaldeyrisins teljast í nokkrum þúsundum milljóna íslenzkra króna. Það var m.a. hlutverk nýbyggingaráðs að ráðstafa verulegum hluta af þessum innistæðum, þó ekki öllum, heldur nálega helmingnum eða 300 milljónum.

Nýbyggingaráði var ætlað, ef ég man rétt, a8 ráðstafa 300 millj. af gjaldeyrisinnistæðunum til uppbyggingar atvinnulífsins, og það gerði það. Það úthlutaði eða skammtaði atvinnugreinunum þennan gjaldeyri til ýmissa hluta, margra nytsamlegra og einnig annarra, sem ekki voru kannske eins nytsamlegir. En meðal þess nytsamlega var það, að keyptir voru til landsins nokkuð margir togarar og einnig vélbátar. En nýbyggingaráði var með lögum ætlað annað hlutverk, sem var að gera áætlanir á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Ég hygg, að slík áætlun hafi verið gerð í nýbyggingaráði, en hún kom aldrei fram, var ósýnileg eins og Vestfjarðaáætlunin, sem hér hefur stundum verið talað um og aldrei hefur komið fyrir augu þm. eða almennings, var þannig ósýnileg áætlun.

Næst gerist það svo í þessum málum, að á árinu 1947 var fjárhagsráð stofnað. Og fjárhagsráð var starfandi fram undir árslok 1953, eða um 6 ára skeið líklega. Hér hefur nú verið minnzt á fjárhagsráð nokkuð í umr. og stundum í fremur niðrandi tón. Ég tel, að fjárhagsráð hafi unnið að ýmsu leyti gott verk, verið nauðsynlegt á sínum tíma og að það sé ekki ástæða til þess að tala um fjárhagsráð sem eitthvert sérstakt víti til varnaðar í efnahagsmálum, siður en svo. Ég hygg, að bæði sá maður, sem var allan þann tíma formaður fjárhagsráðs, og einnig aðrir, sem þessari stofnun réðu, hafi verið menn, sem vildu vinna verk sin vel, og gerðu það að mörgu leyti. En fjárhagsráði var ekki ætlað að gera langtímaáætlanir. Eigi að síður voru margar áætlanir gerðar í fjárhagsráði. Þær voru yfirleitt til stutts tíma, bæði fjárfestingaráætlanir og gjaldeyrisáætlanir.

Á árinu 1956 var skipuð atvinnutækjanefnd, sem svo er nefnd, og sú nefnd starfaði fram til ársloka 1960, ef ég man rétt. Í þeirri nefnd var gerð áætlun um aukningu atvinnutækja í bæjum og þorpum á Norður-, Austur- og Vesturlandi. Sú áætlun var ekki birt, en hún var send þáv. ríkisstj. Atvinnutækjanefnd var einnig falið það af ríkisstj. að gera áætlun um hafnagerð á Íslandi fyrir næsta áratug samkv. ályktun, sem Alþ. hafði samþ. um það efni, og þessi hafnagerðaráætlun var gerð. Hún hefur, eða það, sem fram kom þar bæði í sambandi við upplýsingar og tillögur, orðið undirstaða undir ýmsu því, sem unnið hefur verið á þessu sviði síðan. Til hennar er m.a. nokkuð vitnað í þeirri grg. til hafnagerðaráætlunar, sem lögð var fyrir Alþ. fyrir þremur árum.

Í tíð fyrrv. ríkisstj. var svo Efnahagsstofnuninni komið á fót, og sú áætlanagerð, sem hún hefur staðið fyrir, hefur hér verið mikið rædd. Og á þessu tímabili hafa einnig komið til sögunnar hinar svo kölluðu landshlutaáætlanir, sem hafa verið á vegum Efnahagsstofnunarinnar. Um þá fyrstu, sem þar kemur við sögu, Vestfjarðaáætlunina, er nú eiginlega það að segja, sem ég minntist á hér áðan, að það er í raun og veru ósýnileg áætlun. Hún var aldrei lögð fram hér á Alþ., hún var ekki afhent þm., hún var hvergi birt, en var til, að því er maður hefur heyrt, í vasabókum einhverra frambjóðenda, sem sögðu frá henni á fundum, og ég minnist þess, að núv. hæstv. félmrh. skýrði frá því á fundi hér á Alþ. fyrir tveim eða þrem árum, að hann hefði spurzt fyrir um það í Efnahagsstofnuninni, hvort hann sem þm. Vestf., — auðvitað átti hann ekkert meiri rétt á því sem þm. Vestf. en aðrir þm., en hann spurðist fyrir um þetta sem þm. Vestf.,— gæti fengið að sjá þessa áætlun. Hann skýrði frá því, að sér hefði þá vetið sagt, að í raun og veru væri þessi áætlun ekki til. En hvort sem hún hefur verið til eða ekki, þá var hún nú á þennan hátt, sem ég nú segi, ósýnileg áætlun. Það mun réttast að orða það þannig, en ekki neita með öllu tilveru hennar. En sem betur fór komu peningar úr erlendum sjóði í hafnir og vegi og flugvelli á Vestfjörðum, hvernig svo sem áætlunin um það hefur í raun og veru verið.

Næsta skrefið í þessum byggðaáætlunum fyrir utan hina ósýnilegu Vestfjarðaáætlun var svo Norðurlandsáætlunin, sem svo hefur verið nefnd. Ég sé ástæðu til að tala um hana. Hún er mér dálitið nákomin, af því að ég er fulltrúi fyrir hluta af Norðurlandi hér á Alþ. En Norðurlandsáætlun var birt, það sem kallað hefur verið Norðurlandsáætlun, þannig að ég yrði hennar var, kom einna fyrst fram á aðalfundi Fjórðungssambands Norðlendinga, fjórðungsþingi, sem við köllum hann, sem haldinn var á Sauðárkróki 1969. Þetta var allmikið verk í tveimur bindum vélrituðum, sem Efnahagsstofnunin hafði samið, og samþingismaður minn, hv. 5. þm. Norðurl. e., mun hafa unnið nokkuð að henni fyrir Efnahagsstofnunina.

Í fyrra bindinu, sem heitir Mannfjöldaþróun á Norðurlandi, var rætt um mannfjöldaþróun. Það er fræðirit, vísindalega unnið, um fólksfjölgun og fólksfækkun í fjórðungnum og reiknað út í prósentum á ýmsan hátt, hvernig þetta hafi breytzt á öldinni, sem er að líða, og er hið merkasta rít út af fyrir sig. En áætlun er þetta nú ekki beinlínis.

Hitt bindið bar titilinn Atvinnumál á Norðurlandi, og það voru skýrslur, líka mjög fróðlegar og nákvæmlega unnar um atvinnulífið á Norðurlandi, um bátafjölda og fjölda iðnaðarfyrirtækja og framleiðslumagnið o.þ.h. á hinum einstöku stöðum, en þetta svo lagt saman, þannig að ástandið í fjórðungnum sæist í heild. Einnig voru í þessu fróðlegar ritgerðir og hugleiðingar um það, hvað hægt væri að gera til þess að koma í veg fyrir útstreymi fólks úr Norðurlandi. En mér fannst þetta nú ekki beinlínis vera áætlun. Þetta er fremur grg. fyrir áætlun, það held ég, að hefði nú verið réttnefni. Eiginlega tel ég því, að atvinnumálaáætlun fyrir Norðurland hafi engin verið gerð. En hitt er rétt, að það var aflað fjár úr útlendum sjóði til þess að lána atvinnufyrirtækjum á Norðurlandi, og Atvinnujöfnunarsjóði var falið að úthluta þessu fé, og Fjórðungssamband Norðlendinga fékk um það nokkurn tillögurétt, hvernig þessu fé yrði úthlutað. En áætlun taldi ég þetta í raun og veru ekki vera. Ég tel, að landshlutaáætlun á svíði atvinnulífsins verði að tilgreina það, hvað framkvæma skuli og hvernig og hvar, annað sé ekki áætlun. Hitt eru ritgerðir og hugleiðingar, hugvekjur, svona svipað eins og ritverk skipulagsnefndar atvinnumála var á sínum tíma, sem kallað var „Rauðka“.

Síðan var svo farið að vinna að Austfjarðaáætlun um samgöngumál, og þessi áætlun var gerð í fyrra. Hana hef ég séð, ég held jafnvel, að henni hafi verið útbýtt hér á þingi, þó er ég nú ekki viss um það. Þessa áætlun hef ég undir höndum, og þetta er raunveruleg áætlun um samgöngubætur á Austurlandi, þar sem gerðar eru tillögur um það, hvað gera skuli og hvar, og áætlað, hvað það muni kosta.

Nú er svo byrjað fyrir nokkru að vinna að samgöngumálaáætlun fyrir Norðurland á vegum Efnahagsstofnunarinnar.

Það hefur verið dálítið rætt um það hér í þessum umr., hvað áætlun sé í raun og veru, hvernig áætlanir eigi að vera. Það er nú svo á vorum tímum, að menn deila um merkingu orða. Þegar ég var að ræða um áætlanagerð fyrir 2–3 árum við einn af færustu hagfræðingum landsins, sagði hann mér sem sinn skilning á þessu, að hagfræðingar gerðu mun á tvenus konar áætlunum, tveim tegundum af áætlunum. Annars vegar það sem hann kallaði líkindaáætlanir, en líkindaáætlun er það að reyna að spá, hvað muni gerast, ef þjóðfélagið gerir ekkert sérstakt umfram það, sem gert hefur verið, til þess að breyta þróuninni. Það er líkindaáætlun. Líkindaáætlanir eru til þess fallnar, eins og hv. 7. þm. Reykv. orðaði það í dag, að draga úr óvissunni. Hann sagði um áætlanir almennt, að þær væru gerðar til þess að draga úr óvissunni, og það er rétt, að allar áætlanir eru gerðar til þess að draga úr óvissu, og líkindaáætlanirnar eru gerðar til þess eins í raun og veru. En svo er til önnur tegund af áætlunum, sem eru framkvæmdaáætlanir, eða það, sem ég vildi leyfa mér að kalla skapandi áætlanir. Skapandi áætlun hefur það hlutverk fyrst og fremst umfram það að draga úr óvissunni kannske að hafa áhrif á framtíðina. Framkvæmdaáætlun er skapandi áætlun, er gerð öðrum þræði til að hafa áhrif á framtíðina. Líkindaáætlun hefur ekki nein teljandi áhrif á framtíðina, nema sem af því leiðir að draga úr óvissunni. En framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir því beinlínis, að reynt sé að hafa áhrif á gang mála, áhrif á framtíðina, skapa framtíð öðruvísi en hún hefði ella orðið.

Það er nú það, sem mér skilst, að vaki fyrir ríkisstj. með þessu frv., að gerðar verði slíkar áætlanir. Það verði ekki aðeins gerðar líkindaáætlanir, heldur einnig framkvæmdaáætlun, skapandi áætlun, og þar að auki fái sú stofnun, sem gerir áætlanirnar og mótar, aðstöðu til þess að geta komið þeim í framkvæmd að einhverju leyti. En það þýðir ekki mikið að gera framkvæmdaáætlanir eða skapandi áætlun, ef ekki er jafnframt séð fyrir því, að hægt sé að framkvæma hana. Þá verður sú áætlun pappírsblað eitt, og við höfum meira en nóg af pappír í þessu landi.

Ég sagði það áðan, að Framkvæmdastofnunin ætti að hafa þetta tvenns konar hlutverk, að gera áætlanir og að henni væri einnig að nokkru leyti veitt afl til að framkvæma það, sem gera skal. Og hæstv. forsrh. hefur í mjög ítarlegri og gagnmerkri framsöguræðu, sem hann flutti hér í dag, í raun og veru gefið Framkvæmdastofnuninni erindisbréf, sem ég geri ráð fyrir, að eftir muni verða farið. Hins vegar er það svo, að þessari stofnun er ekki ætlað neitt sérstakt hlutverk í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, eins og nýbyggingaráð hafði og fjárhagsráð hafði, og ég verð nú að segja það sem mína persónulegu skoðun og á mína ábyrgð eingöngu, að ég tel, að það sé full þörf á því í þessu þjóðfélagi, að til sé einhver stofnun, sem hefur eftirlit með meðferðinni á gjaldeyri landsmanna. Ég held, að það sé a.m.k. margra manna mat í þessu landi, þótt við höfum Seðlabanka, eins og hv. þm. skaut hér fram, að gjaldeyri þjóðarinnar, sem erfiðismennirnir afla með súrum sveita á landi og sjó, hafi í seinni tíð og sé enn oft og tíðum nokkuð gáleysislega varið, og þar mætti ýmislegt betur fara.

En í þessu frv. er sem sagt ekkert um þau mál, og það er ekki von, að svo sé, jafnvel þótt menn sæju nauðsyn þess. Því veldur haftagrýlan. En haftagrýlan er eins konar forynja, sem spákaupmenn mögnuðu fyrir löngu handa sjálfstæðismönnum, og ævinlega fer hún fyrir liði þeirra í kosningum og á baráttutímum. Og þótt vinstri flokkar hér á landi telji sig róttæka og skelegga, — þeir hafa haft orð á því um sjálfa sig, að þeir séu það, — þá vill það fara svo, að þeir kikna í hnjáliðunum öðru hverju, þegar sjálfstæðismenn etja fram haftagrýlunni sinni. En haftagrýlan hefur reynzt sjálfstæðismönnum, eins og segir í Snorra-Eddu, „ein geysihagleg geit“ oft og tíðum, en ekki ævinlega, því að þegar þannig hefur verið ástatt, að sjálfstæðismenn hafi verið í ríkisstj. og sjálfir þurft að beita þessum svo kölluðu höftum, þá hefur gamla grýla stundum gert þeim sjálfum óleik, a.m.k. þeim fulltrúum þeirra, sem hafa átt að framkvæma þessa nauðsynlegu hluti, eins og frægt varð um fjárhagsráð. Sjálfstæðismennirnir þar áttu ekki sjö dagana sæla, því að þótt þeir væru þar í umboði flokks og valdamanna, þá sótti gamla grýla að þeim bæði daga og nætur, þannig að þeim var sjaldan rótt út af því, og þessi stofnun var að síðustu lögð niður, af því að grýla varð svo ægileg í margra augum. Ég held nú, að þessi haftagrýla, þó að hún hafi verið nokkuð hentug fyrir sjálfstæðismenn, hafi unnið allmikið tjón í þessu landi með því að rugla dómgreind margra manna og skapa fordóma gagnvart nauðsynlegum ráðstöfunum, og læt ég útrætt um það.

En í sambandi við gjaldeyrismálin og haftagrýlu þá verð ég nú að segja það, að ég held, að hv. sjálfstæðismenn þurfi ekki að óttast það, að framkvæmdaráðið, sem gert er ráð fyrir í frv., muni stofna til þjóðnýtingar eða ríkisrekstrar á atvinnutækjum hér á landi. Ég held, að það sé mjög fjarri því, að það sé nokkur hætta á því, að þetta ráð stofni til allsherjar ríkisrekstrar á atvinnutækjum. (Gripið fram í: Má treysta því?) Ég hef enga trú á því, að slíkt komi til mála, og það er vegna þess, að það eru engir formælendur ríkisrekstrar hér á landi, þeir eru a.m.k. mjög fáir. Ekki er Sjálfstfl. ríkisrekstrarflokkur, þótt hann hafi stundum komið upp ríkisfyrirtækjum. Alþfl. var ríkisrekstrarflokkkur, þ.e.a.s. gamli Alþfl. eða Alþfl., eins og hann var um 1920 og fram undir 1930. Þá kenndi hann það, að ríkisrekstrarformið væri æskilegt atvinnurekstrarform á Íslandi, en síðan féll hann frá því, og hv. form. Alþfl. hefur lýst því bæði hér, á Alþ. og víðar í fræðilegum greinum, að það sé orðið úrelt hjá jafnaðarmannaflokkum að berjast fyrir ríkisrekstri, þeir vilji aðrar leiðir, og hann gerði grein fyrir því nokkuð hér í dag. Alþfl. er ekki ríkisrekstrarflokkur. Alþfl. er ekki heldur jafnaðarmannaflokkur. Það er enginn jafnaðarmannaflokkur til hér á landi. Það er enginn flokkur hér, sem er formælandi fyrir því, að allir hafi jafnar tekjur, en þetta arð, jafnaðarmenn og jafnaðarmannaflokkur, varð til einhvern tíma um aldamótin með þýðingu á útlenda orðinu sósialisti, og þá var það málhagur maður á sínum tíma, sem þýddi það með orðinu jafnaðarmaður. En ég veit ekki, hvort sósialdemókratar hafa nokkurn tímann boðað þá kenningu, að allir menn ættu að vera jafnir eða ættu að hafa jöfn laun eða þess háttar, ég veit ekki til þess, og að þeir hafi það núna, það held ég bara hreint ekki, að ég nú ekki tali um kommúnista.

Þegar ég tala um kommúnista, þá á ég ekki við Alþb., það er annar flokkur. En af því að ég var að tala um afstöðuna til ríkisrekstrar, þá minnist ég þess vel, — ég er nú kominn þó nokkuð á efri ár og búinn að vera hér á þessu sviði lengur en margir aðrir, sem hér sitja, — þegar Kommúnistaflokkurinn var stofnaður hér. Þá vorum við nýbúnir að koma upp einu myndarlegu ríkisfyrirtæki hér á Íslandi, sem ríkið átti og rak í anda hinnar gömlu stefnu Alþfl., og það voru Síldarverksmiðjur ríkisins. Ég man það, að á fyrstu árum hins nýja Kommúnistaflokks voru þeir mjög gagnrýnir á þetta fyrirtæki, og þeir kölluðu Síldarverksmiðjurnar ríkisauðvald, og ríkisfyrirtæki kölluðu þeir ríkisauðvald, og að þeirra dómi var það auðvald alls ekki betra en annað auðvald, nema siður væri. Það er víst alveg óhætt að fullyrða það, að þeir, sem útlendingar kalla kommúnista, eru ekkert sérstaklega fylgjandi ríkísrekstri í því þjóðfélagi, sem við búum í. Þeir eru fylgjandi því austur í Sovétríkjum og Kína, þar sem eru öðruvísi þjóðfélög, en þeir eru ekki fylgjandi því hér, ekki formælendur ríkisrekstrar hér.

Og þá eru eftir SF. Þeir eru frjálslyndir, og þeir eru líka vinstri menn, þeir eru þetta hvort tveggja, þó að það sé ekki alltaf það sama, en að öðru leyti hafa þeir helzt talið sig vera sósíaldemókrata, ef eitthvað væri. — Hvað sagði hæstv. ráðh:? — Jafnaðarmenn, það eru þeir nú ekki. Það mundi nú vera auðvelt að láta þá bera járn upp á það, þ.e. prófa það, hvort þeir væru jafnaðarmenn. Jafnaðarmenn eru nú yfirleitt ekki hér í þessu landi, og það er víst ákaflega lítið um þá í heiminum. Það er ákaflega lítið um það fólk í heiminum, sem í raun og veru vill, að allir menn séu jafnir, allir hafi jöfn laun t.d. Nei, það er víst ekki svo mikil hætta á því, að SF fari að heimta það, að þessi sæla Framkvæmdastofnun komi á allsherjar ríkisrekstri hér á landi. Hins vegar má vel vera, að þessari stofnun auðnist að koma upp einhverjum fyrirtækjum á vegum ríkisins eða að ríkið verði þátttakandi í einhverjum atvinnufyrirtækjum, og ég tel hreint ekkert út á það að setja, þó að svo verði.

Það stendur í þessu frv., og einhverjir voru hér í dag að setja út á það, að lánadeildin geti átt frumkvæði að stofnun nýrra fyrirtækja samkv. ákvörðun stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar. Láti hún þá vinna nauðsynleg áætlunar- og undirbúningsstörf og leiti síðan samvinnu við aðra aðíla um að koma fyrirtækinu á fót. Einhver af hv. ræðumönnum hér í dag var ákaflega hræddur við þetta og var að reyna að koma upp sérstakri grýlu út af þessu ákvæði, en ég held, að þetta ákvæði sé alveg nauðsynlegt, og ég teldi miklu verr farið, ef þetta yrði fellt niður úr frv.

Í kaflanum um Byggðasjóð stendur, að sjóðsstjórninni sé heimilt, ef sérstaklega stendur á, að gerast fyrir hönd sjóðsins meðeigandi í atvinnufyrirtæki, sem hún telur nauðsynlegt að koma á fót eða að starfrækja í samræmi við tilgang sjóðsins og þarfir viðkomandi byggðarlags. Þetta er í VI. kaflanum, um Byggðasjóð. Þetta ákvæði tel ég líka alveg nauðsynlegt. Það getur staðið svo á á ýmsum stöðum, að það sé nóg af vinnufúsum höndum, en einstaklinga vanti bolmagn til þess eða annað það, sem til þess þarf, að gangast fyrir stofnun atvinnufyrirtækja. Við vitum, hvað er að gerast, þeir, sem hafa opin augun, og hvað hefur verið að gerast í sambandi við fólksflutningana á undanförnum áratugum, því að það var ekki eingöngu undir viðreisnarstjórn, sem fólk hefur flutzt milli landshlutanna, það var byrjað áður. Það, sem m.a. veldur þeim, er það, að ýmsir af þeim mönnum úr einstökum byggðarlögum, sem hafa fjármagn eða sérstaka hæfileika til þess að standa fyrir atvinnurekstri eða yfirleitt það, sem kallað er að koma sér áfram í stærri stíl, flytja hingað suður á höfuðborgarsvæðið. Höfuðborgarsvæðið hefur alveg sérstakan sogkraft fyrir slíka menn, menn sem hafa reynslu. Það er boðið í þá menn, sem hafa reynslu í atvinnurekstri. Stundum standa þá hinir einstöku staðir, kauptún eða þorp, uppi með nógar vinnufúsar hendur, en það vantar menn til að gangast fyrir því, að stofnað sé til atvinnurekstrar, og þá er það alveg bráðnauðsynlegt, að einhver aðili geri þetta, hvort sem það er nú ríkið eða Framkvæmdastofnunin, sem er gert ráð fyrir, eða landshlutasamtök. Það er ekki nóg að hjálpa þeim, sem hjálpa sér sjálfir, þó að gamalt máltæki segi eitthvað á þá leið, að þeim verði alltaf hjálpað, sem hjálpa sér sjálfir. Það er ekki nóg. Það þarf að hjálpa þeim, sem ekki hjálpa sér sjálfir, en samt er hægt að hjálpa. Það er kannske einn aðalmunurinn skulum við segja, á hægri og vinstri stefnu. Það eru til menn, sem segja: Við skulum hafa til reiðu áætlanir og fjármagn og allt, sem til þarf, handa þeim, sem stofna atvinnufyrirtæki og koma því á fót, en ekkert handa hinum. En það þarf fleira að koma til, a.m.k. sums staðar.

Ég ætla að leyfa mér í sambandi við þetta að fara örfáum orðum um VI. kafla frv. Það er sá kafli, sem fjallar um Byggðasjóð. En áður en ég kem að því, ætla ég að minnast á eitt atriði, sem ég hef skrifað hér hjá mér og komið hefur fram hjá hv. sjálfstæðismönnum í umr. Þeir hafa talað töluvert mikið um kommissarana eða Umbana, sem þeir nefna svo, þessa þrjá framkvæmdaráðsmenn, sem gert er ráð fyrir. Ég ætla ekkert að leggja til þeirra mála, skal ekkert ræða um það, hvort það hefði e.t.v. mátt koma því fyrir á annan hátt með þetta framkvæmdaráð og stjórn, en ég vil aðeins leyfa mér að benda á það, að í stofnuninni á nú að vera sjö manna stjórn, sem kosin verður á Alþ. Það verður væntanlega rétt mynd af öllu þessu sameinaða flokkaveldi, sem Alþ. er nú á tímum. Það var bent á það, líklega af hæstv. forseta hér, að þetta væn svona í bönkunum, að þar væru bankaráð og svo þrír bankastjórar, sem svöruðu til framkvæmdaráðsmannanna. Þá sagði einhver af ræðumönnum þeirra hv. sjálfstæðismanna, að hér væri ólíku saman að jafna, því að bankastjórarnir væru venjulega bæði úr stjórnarherbúðum og stjórnarandstöðu. Hér mundu framkvæmdaráðsmennirnir að líkindum verða stjórnarmenn eingöngu. En það er annar munur á bankastjórum og stöðu þeirra og þessum framkvæmdaráðsmönnum og stöðu þeirra. Bankastjórar ráða almeunt einir lánaveitingum, því að yfirleitt eru einstakar lánveitingar ekki bornar undir bankaráðið, heldur taka bankastjórarnir ákvörðun um þær. Það er ekki nema í sérstökum tilfellum og þegar um almennar reglur er að ræða, sem einstakar lánveitingar eru bornar undir bankaráð. Ég sé nú ekki betur en að hérna í þessu frv. sé gert ráð fyrir því, að framkvæmdaráðið geri aðeins tillögur um lánveitingar. Þessar tillögur séu svo bornar undir stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, og hún samþykki einstakar lántökur. Ég get ekki skilið frv. öðru vísi. Samkv. 3. gr., 5. og 6. lið, þá fer hún með stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands og með stjórn Byggðasjóðs, sem heyrir undir þessa stofnun, en í 5. gr. er framkvæmdaráðinu ætlað að gera tillögur um einstakar lánveitingar. Þessar tillögur á að bera undir stjórnina, og ég vænti, að þeim, sem gagnrýnt hafa þetta, verði hughægra, þegar þeir gera sér grein fyrir því, að þannig er þetta í frv., eða ég get ekki annað séð en það sé svona.

En þá vildi ég leyfa mér, eins og ég sagði áðan, að koma að VI. kaflanum, um Byggðasjóð, og e.t.v. var það aðalástæðan til, að ég kvaddi mér hljóðs, að ég vildi gjarnan gera þann hluta frv. að umræðuefni, þótt mér hins vegar hafi orðið nokkuð skrafdrjúgt um önnur atriði í frv.

Eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér í kvöld, hafa framsóknarmenn flutt á mörgum undanförnum þingum frv. til l. um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins og sérstakar ráðstafanir til að stuðla að verndun og eflingu landsbyggðar og koma í veg fyrir eyðingu lífvænlegra byggðarlaga.

Þetta frv. höfum við flutt hér á þingi nokkuð oft, og það hefur atvikazt þannig, að það hefur alltaf komið í minn hlut að standa hér í þessum stól einu sinni á hverju þingi, til þess að mæla fyrir þessu frv. Ég gæti trúað, að ég væri búinn að gera það sex eða sjö sinnum, og þess vegna hefði hv. þm., sem beindi þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., auðvitað vel getað spurt mig, hvort ég gæti sætt mig við þennan kafla, eins og hann væri, eftir að hafa flutt þetta frv. Ég verð að segja það eins og er, að ég hef talið undanfarin ár, að það þyrfti að setja á fót öfluga stofnun, sem hefði yfir mjög verulegu fjármagni að ráða, til þess að reyna að stöðva þann straum, sem legið hefur úr byggðum landsins hingað inn á höfuðborgarsvæðið. Til þess þyrfti sérstaka stofnun og mikið fé, og við höfum lagt það til, að auk þess sem Byggðajafnvægissjóður, sem við nefndum svo, tæki við fjármagni Atvinnujöfnunarsjóðs, þá fengi hann ákveðinn hundraðshluta af ríkistekjum ár hvert. Þetta var hugsað sem verðtrygging framlagsins frá ríkinu til Byggðajafnvægissjóðs. Það væri eins hægt að binda þetta við vísitölu. Þetta er aðferð til verðtryggingar. Alveg eins og kaup er verðtryggt með vísitölu, eins ætluðum við að verðtryggja Byggðajafnvægissjóðinn og tekjur hans með þessu ákvæði.

Ýmislegt af því, sem í þessu frv. stóð, hefur, verið tekið upp í VI. kafla þessa frv., en þar er ekki gert ráð fyrir því, að Byggðasjóður sé sérstök stofnun, heldur lúti hann stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Ég kem að því aftur, en það var í raun og veru ekki um annað að ræða, þegar við fluttum okkar frv., en að ætla sjóðnum að hafa sérstaka stjórn, því að stofnun sem Framkvæmdastofnun ríkisins var þá ekki til. Ég kem að því aftur með stjórn sjóðsins.

Nú vil ég segja það eins og það er, að þó að mér þyki það gott, að Byggðasjóður er efldur, svo sem hér er gert ráð fyrir, bæði með lánsheimildum með ríkisábyrgð, allverulegum, og með 100 millj. kr. framlagi á ári í 10 ár, þá hefði ég kosið, að það væri meira. Ég hefði talið, að það þyrfti að efla þennan sjóð mun meira en þarna er gert. Og ég vil leyfa mér að benda á það, að fyrir 14 árum, þegar hér var vinstri stjórn eins og nú, voru á fjárlögum ríkisins veittar 15 millj. kr. til atvinnuaukningar á Norður-, Austur- og Vesturlandi. Hvers konar upphæð var þetta þá? Því geta menn áttað sig á með því að gera sér grein fyrir því, að þá var fjárlagatalan 700 millj. Nú er fjárlagafrv. upp á 14 þús. millj. og hækkar sjálfsagt til muna, þannig að ef maður lítur á það, þá er þetta ekki mjög hátt. Sumir segja að vísu, að hér hafi ýmislegt skeð síðan slík fjárframlög voru samþ. til atvinnuaukningar á Norður-, Austur- og Vesturlandi. Atvinnujöfnunarsjóðurinn, sem á að renna inn í Byggðasjóðinn, hafi fengið allar tekjurnar af álverinu í Straumsvík. Og þær nema um 100 millj. kr. Þetta segja menn. En þá gleyma menn því, að það hefur fleira gerst. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið stofnað til fjárfestingar upp á 10–15 þús. millj. kr. a.m.k. í sambandi við Búrfellsvirkjun og þetta margumtalaða álver í Straumsvík. Og ég hef alltaf litið svo á, að þeim tekjum, sem Atvinnujöfnunarsjóði voru fengnar með lögunum frá 1965, hafi verið ætlað að vega á móti því, að til svo gífurlegrar ójöfnunar í fjárfestingu landsins er stofnað. Og ég hygg, að það hafi ekki veitt af því. Við getum þá sleppt því úr dæminu, bæði þessum tekjum af álverinu og álverinu sjálfu og allri þeirri fjárfestingu, sem í sambandi við hana var. Við getum gert það, sleppt því úr dæminu. Hins vegar er ég ekki í neinum vafa um það, að þessi feikilega fjárfesting og stóriðja, sem komið hefur verið upp hér við bæjarvegg höfuðborgarinnar, hefur miklu meiri áhrif til þess, að hin óhagstæða þróun í fólksflutningum heldur áfram, en þær tekjur hafa til að vega á móti, sem Atvinnujöfnunarsjóður fékk.

Hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, var með tölur hér í dag og vildi telja, að það hefði dregið úr þessum fólksflutningum af landsbyggðinni, eða úr þeim hlutum landsbyggðarinnar, sem fjarlægastar eru höfuðborginni, í seinni tíð, og var að bera saman tvö tveggja ára tímabil, ef ég man rétt, og má vel vera, að þær tölur séu réttar. En þá er ekki gætt að því, að fólksfjölgunin nú allra síðustu árin hefur ekki orðið eingöngu í Reykjavík, heldur alveg eins mikil þar sem kalla má útborgir Reykjavíkur, á Seltjarnarnesi, í Kópavogi og í Garðahreppi og í Hafnarfirði í sambandi við álverið. Þetta er nú allt að vaxa saman og verða ein stór borg, sem komin er nokkuð mikið yfir 100 þús. íbúa. Það var mér kennt, þegar ég var unglingur, að væru stórborgir kallaðar, sem hefðu meira en 100 þús. íbúa.

Ég hefði gjarnan viljað það og sjálfsagt við, sem staðið höfum að flutningi frv. um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins, að ríflegra hefði verið til tekið, að meiri rausn hefði fram komið í till. hæstv. ríkisstj. um eflingu Byggðasjóðsins. Ég skil það hins vegar vel, að ríkisstj. hefur í mörg horn að líta, það munum við sjá af afgreiðslu fjárlaga. Eigi að síður álit ég, að hér hefði átt að koma meira fé til. Og ekki mun ég hika við það á komandi tímum, ef mér endist til þess líf og heilsa og einhver seta hér á Alþ., að reyna að stuðla að því, að hér komi meira til. En þegar maður vill koma fram máli, sem litlar undirtektir fær, og er orðinn langþreyttur á því að tala fyrir daufum eyrum, þá taka menn gjarnan því, ef það býðst, að koma fram málinu í áföngum. Ég lit svo á, að við séum hér að koma fram frv. okkar um Byggðajafnvægisstofnun ríkisins í áföngum og að þetta sé fyrsti áfanginn.

Ég ætla að segja hv. samþm. mínum, hv. 5. þm. Norðurl. e., sögu, af því að hann er nýr hér á Alþ. Hann er búinn að sitja hér í rúman mánuð, og ég er nú búinn að vera hérna í rúm 30 ár og hef orðið vitni að ýmsu hér, sem honum, eðlilega, er ókunnugt um. Hv. þm. er þm. fyrir Sjálfstfl. Hann var kosinn á þing fyrir hann og hefur nú eiginlega verið töluvert áhugasamur sjálfstæðismaður, siðan ég kynntist honum fyrst. Hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstfl. Ég minnist þess ekki, að í þessi sjö ár, sem ég hef verið að bisa við það ásamt öðrum þm. mörgum að reyna að koma fram þessu frv., að því hafi nokkurn tíma verið lagt liðsyrði af þm. Sjálfstfl. Ég minnist þess ekki. (Gripið fram Í.) Lögin um Atvinnujöfnunarsjóð eru frá árinu 1966, og ég er búinn að skýra frá því, hvernig á því stóð, að það frv. var borið fram og gert að Lögum. Og ég ætla um leið að skýra frá því, sem gerðist árið áður, árið 1965. Það er ákaflega fróðleg saga fyrir þennan hv. þm. og reyndar fyrir alla nýja þm., sem ekki voru þá hér í Alþ. Þá var frv. okkar um Byggðajöfnunarsjóð vísað til hv. fjhn. í þessari d., og meiri hl. í n., sem voru hv. stjórnarliðar þáv., frsm. var úr Sjálfstfl., gerði það að tillögu sinni, að málinu yrði vísað frá með rökst. dagskrá. Og rökstuðningurinn var í því fólginn, að nægilega vel væri séð fyrir málefnum landsbyggðarinnar, því að sett hefðu verið lög um Atvinnubótasjóð. Tekjur hans voru 10 millj. á ári og ekkert annað samkv. þeim lögum. Þá var það viðhlítandi úrlausn í málefnum landsbyggðarinnar. Og þegar maður hefur átt þessu að mæta, svona undirtektum, frá þeim, sem ráðandi voru, þá kannske bregður manni ekki eins mikið við, þótt ekki sé boðið upp á nema fyrsta áfanga á lengri leið.

Nú er það samt svo, að gjarnan vildi ég að því stuðla, að þessi kafli yrði nokkuð endurbættur, og ég vil sérstaklega segja það, að ég hafði allverulegan áhuga fyrir að takast mætti að koma í framkvæmd því atriði stjórnarsamningsins frá í sumar, þar sem gert var ráð fyrir, að Byggðasjóður hefði sérstaka stjórn. Það var gert ráð fyrir því þar. Nú hefur ekki af því orðið, að lagt sé til, að sjóðurinn fái sérstaka stjórn, heldur er honum ætlað að lúta hinni almennu stjórn Framkvæmdastofnunarinnar. Og nú er það svo, að af því að ég, eins og sakir standa, treysti hæstv. ríkisstj., þá treysti ég því einnig, að hún skipi þá menn til forustu í Fram; kvæmdastofnuninni, sem muni hafa landsbyggðarsjónarmiðin nokkuð ríkt í huga. Og ef það tekst, þá er náttúrlega ekki mikill munur á því, hvort það er sérstök þingkjörin stjórn fyrir Framkvæmdastofnunina og önnur þingkjörin stjórn fyrir Byggðasjóðinn. Alveg eins og einhver hv. sjálfstæðismaður sagði hér réttilega, verður árangurinn af Framkvæmdastofnuninni, — ég held, að þetta hafi verið í Ed., — að mjög miklu leyti undir því kominn, hvaða menn veljast til forustu. Um það veit ég ekkert frekar en aðrir hv. þm., hverjir þeir verða, en mun veita því athygli, þegar að því kemur, og mín trú á gagnsemi Framkvæmdastofnunarinnar mun mjög miðast við það, hvernig til tekst um skipan forstöðumanna þar.

En ef það mætti takast að velja Byggðasjóðnum stjórn á annan hátt, þ.e. stjórn, sem ekki væri endilega þingkjörin, þá gæti það haft þýðingu, og það mundi ég telja æskilegt. Ég hef þar alveg sérstaklega í huga landshlutasamtökin. Ég hef lengi haft trú á því, að eitt helzta úrræðið til þess að leysa landsbyggðarvandamálin væri það, að landshlutarnir yrðu sjálfstæðari en þeir eru nú, að þeir fengju takmarkað sjálfstæði innan ríkisheildarinnar. Og það er ákaflega margt, sem mundi leiða af því. En það er eins og með sumt annað, að það ljá þessu of fáir eyru. Það er margt, sem mundi leiða af því. Menn eru að ræða um, hvernig standi á þessum mikla sogkrafti höfuðborgarinnar að fólkið flyzt þangað og fjarar út í öðrum landshlutum. Þegar menn eru að tala um það, þá kemur víst margt til. Það er fyrst og fremst náttúrlega atvinnulífið. Það þarf að efla það, og það er rétt, að það er undirstaðan að þessu öllu. Það eru líka skólarnir, það þarf fleiri skóla, það er stór þáttur. Það þarf betri heilbrigðisþjónustu. Það er stór þáttur líka. En það er eitt, sem sjaldnar er talað um, og það er valdið. Valdið er sá segull, sem ævinlega og alls staðar hefur dregið að sér fólk, dregið að sér það fólk, sem er á einhverju svíði til forustu fallið eða til forustu hneigt. Og ef við kæmum upp sjálfstæði í landshlutunum, ef við kæmum upp fylkjunum, sem oft hafa verið nefnd og tillögur hafa verið fluttar um hér á Alþ., og raunar miklu fyrr af fjórðungssamböndunum gömlu, á Austur-, Vestur- og Norðurlandi, þá mundu myndast þar valdamiðstöðvar. Valdamiðstöðvar mundu draga að sér þetta fólk, sem ég var að nefna, menntafólk, sérmenntað fólk. Og um leið og landshlutunum væri gefin einhver stjórnarfarsleg aðstaða, þá væri líka ýmislegt annað leyst, sem við höfum verið í vandræðum með, t.d. raforkumál. Nú eru menn að basla við að flytja tillögur um Austurlandsvirkjun og Norðurlandsvirkjun og Vesturlandsvirkjun og eitt og annað. En hvernig eiga þessi virkjanafyrirtæki að verða til, þegar sú stjórnarfarslega heild, sem ætti að standa á hak við, er ekki til?

Þetta var nú kannske útúrdúr, en miðar samt að því, sem ég ætla mér að segja hér, að ég teldi ávinning að því, ef hægt væri að setja yfir Byggðasjóðinn stjórn, sem skipuð væri með öðrum hætti en stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, ekki þingkjörin og ekki eingöngu stjórnskipuð. Í þessari stjórn ættu samtök landshlutanna að eiga hlutdeild. En ég hygg, að ekki sé með öllu tímabært nú á þessu þingi að gera tillögur um að skipa slíka stjórn, m.a. af því, að það þarf að gerast með samkomulagi við landshlutasamtökin, og þau eru mörg. Þau þyrftu að vera saman um að tilnefna menn í stjórnina. Og til þess að landshlutasamtökin njóti sín og séu ekki alltaf að framleiða pappírsgögn, — það er nú ekki allt pappírsgögn, en að verulegu leyti verða þetta pappírsgögn, — þá vantar þá stjórnarfarslegu aðstöðu, sem þau þyrftu að hafa. Um þetta veit ég, að hv. 5. þm. Norðurl. e., samþm. minn, er mér sammála.

En niðurstaðan af þessum bollaleggingum mínum er sú, að ég ætla nú að leyfa mér að leggja fram brtt. við 33. gr. frv., sem fjallar um stjórn Byggðasjóðs, og gera það nú þegar við þessa umr., en óska eftir því, að henni verði frestað til 2. umr. að sjálfsögðu, — enda getur hún samkv. þingsköpum ekki komið til atkvgr. við 1. umr., — til þess að hv. n., sem málið fær til meðferðar, geti tekið hana til athugunar. Og till. er þess efnis, að þegar samkomulag verði um það milli ríkisstj. og landshlutasamtaka, þá hafi ríkisstj. heimild til þess að skipa sjóðnum sérstaka stjórn. Og þá fái sú stjórn þá heimild til lántöku með ríkisábyrgð, sem stjórn Framkvæmdastofnunarinnar er fengin samkv. frv.

Það er fleira, sem ég hefði gjarnan viljað koma með till. um í sambandi við þetta frv., en tíminn er naumur, og ýmislegt veldur því, að það þarf að hraða þessu frv. Það eru ýmis mikilvæg mál, sem þarf að leysa og bíða eftir því, að Framkvæmdastofnunin komist á fót. Og þetta er mál. sem er eitt af málefnum stjórnarsamningsins, sem um er samið í meginatriðum milli stjórnarflokka, eins og gerist og allir þm. þekkja, og verður ekki nema að takmörkuðu leyti breytt.

Það er aðeins ein önnur brtt., sem ég vil leyfa mér að koma hér á framfæri. Hún er reyndar við 29. gr. og er um það, að eitt af hlutverkunum, sem þessi stofnun á að hafa með höndum, sé sérstaklega að koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Það má vera og ég geri nú ráð fyrir því, að það megi túlka það svo, að þetta felist í frv. með öðru orðalagi. En ég tel, að það yrði samt til bóta, að það yrði orðað á þennan hátt.

Og vil ég nú ljúka ræðu minni með því að afhenda hæstv. forseta þessar brtt.