18.12.1971
Neðri deild: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

86. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. sagði hér fyrr í þessari umr., að hann vildi ekki efna til stjórnmálaumr. um þetta mál, og hafði þá hliðsjón af tímaskorti þingsins. Ég er nú hins vegar þeirrar skoðunar, að þetta mál sé þess eðlis að það eigi að fara fram um það stjórnmálaumr., ef það kynni þá að hafa einhver áhrif hér á hinu háa Alþ.

Ég hef hins vegar stundum spurt sjálfan mig þeirrar spurningar, eftir að ég tók sæti hér á Alþ., hverjum tilgangi það þjóni, að menn séu hér ákaft að deila um mál, sem eru lögð fram og fyrir fram er ákveðið, að keyrð skuli í gegn án tillits til aths. eða andstöðu, umræðna eða skoðanaskipta. Er þetta ekki einvörðungu gagnslaus málfundur, okkur öllum til ama og jafnvel til athlægis? ríkisstj., framkvæmdavaldið, notar Alþ. sem afgreiðslustofnun, og gagnrýni, fortölur eða hvers konar málflutningur virðist breyta þar litlu um. Skipta skoðanir einstakra þm. einhverju máli? Móta menn afstöðu sína til mála út frá því eina sjónarmiði, hvort þeir sitji í stjórn eða stjórnarandstöðu? Ég hef jafnvel orðið vitni að því, að menn fella sínar eigin till., eins og fram kom við 2. umr. fjárlagaafgreiðslunnar hér fyrr í vikunni.

ríkisstj. hefur tekið við völdum á Íslandi, og hún hyggst af eðlilegum ástæðum beita sér fyrir framgangi þeirra mála, sem hún hefur sett á stefnuskrá sina. Í þessu tilviki er um að ræða stofnun á sviði efnahags- og atvinnumála, sem sett skal á fót til að þjóna þeirri vinstri stefnu, sem ríkisstj. kveðst fylgja. Við þeim vinnubrögðum er að sjálfsögðu lítið að segja, og ef hv. stjórnarsinnar eru á annað borð sannfærðir um ágæti þessarar vinstri stefnu, þá er ekki við því að búast, að þeim snúist hugur að svo komnu máli.

Umr., eins og þær hafa farið fram, þjóna því naumast öðrum tilgangi en þeim, að stjórnarandstæðingar hér á þingi tíundi rök málstað sínum og stjórnmálaskoðunum til styrktar og opinberi afstöðu sína til þessa máls og bendi á kosti og ókosti þessa frv., kjósendum sínum til upplýsinga og uppörvunar.

Þegar ég nú kveð mér hljóðs, vil ég gjarnan skoða þetta mál í nokkuð öðru ljósi. Mál mitt mun ekki beinlínis felast í því að lýsa yfir andstöðu á frv., það tel ég óþarft, heldur hinu, hvort frv., þegar á allt er litið, sé í raun og veru til stuðnings þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur boðað, eða hvort það sé í samræmi við þau hugmyndalegu straumhvörf, sem við höfum orðið vör við í nútíma samfélagi. Felur frv. í sér þá samræmingu og heildaryfirstjórn, sem boðuð er? Þjónar frv. raunverulega baráttunni fyrir aukinni félagslegri þjónustu? Er það til styrktar fyrir atvinnulífið, örvar það hagvöxt og efnahagslegar framfarir? Tekur það undir víðhorf hinnar ungu kynslóðar? Er það í takt við tímann?

Þetta frv. snýst að meginefni til um það grundvallarágreiningsefni, sem skiptir fólki í stjórnmálaflokka, hversu langt skuli ganga í átt til opinberra afskipta af efnahags- og atvinnulífi. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að hér á landi hafi menn almennt hafnað þeim afdráttarlausu kenningum, sem gengu lengst í hvora átt, kommúnismanum og kapítalismanum. Í Sovétríkjunum hefur hið kommúnistíska hagkerfi beðið algert skipbrot að allra skynsamra manna dómi, og hreinræktaður kapítalismi hefur, a.m.k. í Evrópu, aldrei verið „praktíseraður“. Ofan á hefur orðið hið blandaða hagkerfi, þar sem saman fer frjálst hagkerfi með nýtingu einkaframtaks og einkafjármagns, en með ráðgefandi yfirsýn til beitingar opinberra hagstjórnartækja.

Sjálfsstjórn atvinnufyrirtækja hefur verið viðurkennd með mismunandi miklum afskiptum ríkisvaldsins, og hefur ágreiningurinn meðal hinna borgaralegu lýðræðisflokka verið fólginn í því, hversu mikil þessi afskipti skuli vera. Í þessu sambandi má nefna sem táknrænt dæmi, að hér á landi hefur Sjálfstfl., hinn dæmigerði borgaraflokkur, „ímynd hægri stefnunnar“, eins og andstæðingar hans kalla hann, gengið mjög verulega í þessa átt, raunar haft visst frumkvæði í eflingu opinberra hagstjórnartækja undanfarinn áratug. Við skulum láta liggja milli hluta, hvernig sú framkvæmd hefur tekizt. En um hitt getum við orðið sammála, að einmitt í tíð síðustu ríkisstj., undir forustu Sjálfstfl., hefur verulega kveðið að áætlanagerð, og óþarft er að minna á, að bæði Efnahagsstofnun og Seðlabanki eru stofnanir í þessum tilgangi og settar á fót á þessu tímabili. Gagnrýni sjálfstæðismanna nú beinist því ekki að áætlanagerð sem slíkri, heldur að framkvæmd hennar og tilgangi hennar, eins og hann er hugsaður af hálfu núv. stjórnar. Það verður hins vegar að segjast, að tilgangurinn, framkvæmdin eða útfærslan, vald þessarar stofnunar hefur ekki verið skilgreint til hlítar.

Enginn hefur neitað því, að frv. þetta gerir ráð fyrir meiri afskiptum opinberra aðila af efnahags- og atvinnumálum, en nú tíðkast, en hins vegar er á því verulegur skoðanamunur, hvernig þessum opinberu afskiptum skuli háttað. Talsmenn Framsfl. telja, að í litlu eða engu skuli skertur hlutur einkaframtaks í landinu, frv. eigi jafnvel að verða honum til stuðnings. Hér sé eingöngu um að ræða nánari útfærslu á þeirri stefnu, sem nú er rekin, með aukinni yfirsýn, samræmingu á skipulagi og hagkvæmari áætlanagerð.

Fulltrúar Alþb. hafa aftur á móti ekki farið dult með þá skoðun sína, að hér sé stefnt að auknum sósialisma, aukinni beinni íhlutun ríkisvaldsins, félagslegum atvinnurekstri á kostnað einkaframtaks. Hér sé stigið fyrsta skrefið til sósíalismans, og þessi stofnun, Framkvæmdastofnunin, skuli vissulega vera notuð í þágu þess markmiðs.

Ég biðst afsökunar á því að geta ekki vitnað til álits þriðja flokksins, Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, en því miður hef ég ekki orðið var við, að þeir hafi að einu eða neinu leyti tjáð sig um þetta frv.

Hvor skilningurinn verður nú ofan á, verður reynslan ein að skera úr um, en ekki er því að neita, að margt, nánast allt, bendir til þess, að skilningur Alþb. nái þar fram að ganga, eins og reyndar víðar í þessu stjórnarsamstarfi. Frv. sjálft veitir slíkri framkvæmd svigrúm, og ef frv. á að hafa einhvern tilgang í þá átt að breyta frá því, sem nú er, þá kemur það einmitt fram í þeirri framkvæmd, sem Alþb. boðar. Fyrir þeim Alþb.-mönnum vakir sjálfsagt það eitt að auka velmegun og velsæld þjóðarinnar, það markmið eigum við allir sameiginlega. Okkur greinir hins vegar á um leiðirnar að því marki og metum mismunandi, hvaða forsendur séu mikilvægastar í þessu skyni. Meðan hinir vestrænu borgaraflokkar, jafnvel sósíaldemókratar, hafa hneigzt æ meir til hins frjálsa hagkerfis, sem svo vel hefur reynzt í aðalatriðum á Vesturlöndum, hafa róttækir sósíalistar, þ. á m. vinir okkar hér á Íslandi, stöðugt einblínt á þær ráðstafanir og þær efnahagsaðgerðir, sem menn höfðu talið, að fullreyndar hefðu verið í tíð fyrri vinstri stjórnar. Ég hirði ekki um að endurtaka þá sögu, en í þessu sambandi vildi ég leyfa mér að vitna til ræðu, sem Jónas Haralz flutti í marz 1970, þar sem hann dró saman á mjög skilmerkilegan hátt þróun þessara mála. Með leyfi forseta hljóðar þessi tilvitnun á eftirfarandi leið:

„Rifjað hefur verið upp, að næg atvinna og félagslegt öryggi hefur um skeið virzt mönnum svo mikilvægt markmið, að önnur markmið eins og sú aukna velmegun, sem fylgir í kjölfar hagvaxtar og öflugra alþjóðaviðskipta, skiptu litlu máli. Margir hefðu jafnvel verið fúsir til að fórna atvinnu og lýðræði, ef það hefði greitt götuna að þessu markmiði. Reyndin varð einnig sú, að jafnvel í lýðræðislöndum var komið á víðtækum hömlum á viðskipti og atvinnu, og opinber afskipti um einstök atriði þeirra urðu meiri en verið hafði um langan aldur. Ekki leið þó á löngu, áður en menn gerðu sér grein fyrir því, að full atvinna og félagslegt öryggi væri samrýmanlegt örum hagvexti og vaxandi alþjóðaviðskiptum. Til þess að svo gæti orðið, þurfti hins vegar að beita réttum aðferðum á stjórn efnahagsmála innanlands og jafnframt að koma á fót víðtækri alþjóðlegri samvinnu. Skipulegar aðgerðir til endurreisnar efnahagslífsins í þeim löndum, sem harðast höfðu orðið úti í styrjöldinni, leiddu til örari hagvaxtar í þessum löndum en dæmi voru til áður. Reynslan af beinum hömlum á atvinnufrelsi, framkvæmdum, verðlagi og neyzluvali varð einnig hvarvetna sú, að þessar aðferðir væru ekki virk stjórnunartæki, þegar til lengdar léti. Jafnframt yrðu þau til að draga úr framförum, stuðla að óhagkvæmri notkun framleiðsluþátta og beina neyzlunni í aðra farvegi en hugur fólks stæði til. Menn komust að raun um, að almenn stjórn fjármála og peningamála væri það, sem máli skipti til að ná fullri atvinnu og félagslegu öryggi, en það markmið væri jafnframt vel samrýmanlegt örum hagvexti. Hagvöxtur var því að nýju hafinn til vegs og virðingar sem þjóðfélagslegt markmið. Um leið var á árunum fram til 1960 lögð á það megináherzla, að hvorugu þessara meginmarkmiða væri til lengdar unnt að ná, nema efnahagslegt jafnvægi héldist út á við sem inn á við.“ Og áfram vitna ég til ræðu Jónasar Haralz: „Þessi skilningur á efnahagsmálum ásamt eflingu alþjóðlegs samstarfs leiddi til þess, að á árunum um og upp úr 1950 voru skömmtun, níðurgreiðslur og eftirlit með fjárfestingu og verðlagi afnumin hvarvetna á Vesturlöndum að mestu eða öllu leyti. Jafnframt voru innflutningshöft felld niður og frjálsar greiðslur í erlendum gjaldeyri leyfðar í vaxandi mæli. Afleiðing þessara breytinga varð ekki sú, að atvinnuleysi ykist og félagslegt öryggi minnkaði. Þær leiddu hins vegar til aukins hagvaxtar, meiri velmegunar og enn meiri atvinnu, er síðan varð undirstaða félagslegra umbóta.“

Hér lýkur þessari tilvitnun. Til hennar er vitnað, því að ég hef staðið í þeirri meiningu, að hér væri um að ræða staðreyndir, sem skyni gæddir stjórnmálamenn ganga út frá og viðurkenna.

Ef sú stefna nær fram að ganga, sem nú er boðuð með frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og fram kemur í málflutningi Alþb., þá er stigið spor 20 ár og jafnvel 40 ár aftur í tímann. Þá er gripið til efnahagsaðgerða, sem þjónuðu sínu hlutverki meðan þjóðfélögin börðust frá fátækt til velmegunar, en þær eiga engan tilverurétt í tiltölulega þróuðu velmegunarþjóðfélagi. Með þeirri framkvæmd er dregið úr möguleikum okkar til frekari og nauðsynlegra þjóðfélagslegra umbóta. Sósíalisminn er eflaust fögur hugsjón, en misskilin íhaldssemi á opinber afskipti, áætlunarbúskap, forgangsstefnu og skipulagshyggju á svíði efnahagsmála þjónar áreiðanlega ekki þeim markmiðum sósíalismans né reyndar þjóðfélagsins í heild, sem nútíminn gerir kröfur til. Að þessu leyti vinnur þetta frv. gegn þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur boðað.

Ég skal játa það, hvaða skoðun, sem ég kann að hafa á hæstv. ríkisstj., að þá átti ég ekki von á því, að hún gripi til slíkra efnahagsaðgerða, heldur viðurkenndi dóm reynslunnar og dóm sögunnar. Ég áleit, að henni væri ljóst, að efnahagslegar framfarir og árangur þeirra hefðu í för með sér önnur og erfið viðfangsefni, að þjóðfélag velferðar og velmegunar eins og okkar leiddi í ljós, að þarfir og kröfur beindust inn á önnur svið mannlegra samskipta. Félagsleg viðfangsefni verða ekki leyst, nema ríkissjóður hafi til þess fjárhagslegt bolmagn, og forsenda þess er áframhaldandi ör hagvöxtur, efling atvinnulífs, efnahagslegar framfarir og vaxandi tekjur almennings og ríkissjóðs um leið.

Ef það er stefna Alþb., að eyða skuli félagslegu misrétti, þá er það röng stefna að byrja á því að beina spjótum sínum gegn þeirri efnahagsstefnu, sem leyst hefur dug og framtak úr læðingi og gert ríkisvaldinu kleift að verja auknu framlagi til félagslegrar þjónustu. Ef það er stefna Framsfl. að efla einkaframtakið, eins og þeir hafa látið liggja að, þá verður það ekki gert með því að taka upp stefnu, sem ræðst af allt öðru en þeim lögmálum, sem ráðandi eru í hinu frjálsa hagkerfi.

Hér að framan var vikið að þeim vandamálum, sem blasa við nútíma velferðarþjóðfélagi. Með því er ekki verið að halda því fram, að okkur hafi tekizt að ná því marki, sem endanlegt er, á sviði efnahags og atvinnu. Neyzluþjóðfélagið kemst seint að leiðarlokum í þeim efnum, en hitt er ljóst, að nýjar spurningar, önnur viðfangsefni og margþætt vandamál blasa við þjóðfélaginu og eiga sér samnefnara í tilhneigingum manna til að viðhalda og efla lýðræði. Þetta eru verkefnin, sem við þurfum að takast á við og reyna að leysa miklu fremur en karpa um kosti eða ókosti margreyndra leiða í efnahagsmálum, sem ekki geta lengur talizt raunhæf spursmál í lýðræðislegu vestrænu lýðræðisríki. Vinstri stjórnin hefur valið þá leið, þegar hún leggur fram sitt fyrsta stefnumótandi mál hér á þingi, að bjóða okkur upp á troðnar slóðir, höfða til gamalla og úreltra kenninga, og það, sem verst er, storka þeirri víðleitni, sem uppi hefur verið í þjóðfélaginu í átt til aukins og virks lýðræðis.

Frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins miðar ekki að auknu lýðræði, ekki að virkari þátttöku almennings í ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. Frv. gerir ekki ráð fyrir eðlilegu frelsi manna til að velja og hafna, taka ákvörðun eða vera sjálfs sín ráðandi. Þar er þvert á móti aukið vald fært í hendur kerfisins, lögbundið, að misjafnlega vel gefnir stjórnmálaspekúlantar veiti einum forgang umfram annan. Þar er gert ráð fyrir, að lánastofnanir hlíti fyrirmælum ofan frá. Þar er sjálfsákvörðunarréttur einstaklinganna og félaganna fyrir borð borinn. Að þessu leyti er enn hægt að fullyrða, að þetta frv. vinni gegn boðaðri stefnu um raunhæft lýðræði, vald almennings o.s.frv. o.s.frv.

Ég mun ekki halda því fram, að núv. stjórnarflokkum gangi ekki gott eitt til í stjórnarstörfum sínum og þeir af einlægni telji vínstri stefnu sina vera þjóðinni fyrir beztu. Auðvitað er orðið vinstri notað í rangri og villandi merkingu, sem ég hirði ekki um að útskýra nánar hér. En stundum er því haldið fram, að hugtakið vínstri boði róttækni, frjálslyndi, aukin áhrif almúgans. En hvenær hefur afturhald, en ekki róttækni betur opinberazt en í þessu afturhvarfi til úreltra hugmynda, og hvenær héfur þröngsýni, en ekki frjálslyndi komið betur í ljós en í þessari blindu trú á almætti skipulags og áætlana? Og hvenær hafa áhrif almúgans verið jafn freklega lítils virt en með þessari stofnun skrifstofubákns og valdbeitingar? Þeir hinir svo kölluðu vinstri menn, — og leiðréttið mig, ef ég ber of mikið lof á þá, — telja sig berjast fyrir afnámi misréttis, styrjalda, fátæktar og kúgunar, en ef vínstri merkir sósialismi, þá er það vissulega kaldhæðni, að þar sem sósialismi ríkir með hvað mestum blóma, skuli einmitt misrétti, fátækt og kúgun vera í mestum mæli. En látum það vera.

Vinstri menn telja sig berjast fyrir hugsjónum nýrrar kynslóðar, segjast hafa komið til valda í takt við strauminn, séu boðberar þeirra kenninga, sem afneita lífsþægindunum, peningavaldinu, firringunni, ofurvaldi kerfisins. Svo veglegt er þeirra hlutverk. Það er rétt, að ólgu og umbrota hefur gætt meðal ungs fólks á seinni árum, þ.e.a.s. ungs fólks á Vesturlöndum, þar sem á annað borð eru leyfðar þjóðfélagslegar umræður og lýðræðisleg gagnrýni á þjóðfélagsskipan hverju sinni. Ungt fólk og reyndar þeir eldri líka hafa vaxandi áhyggjur af firringunni, mætti vélmenningarinnar og tölvunnar, þverrandi ítökum einstaklinganna, manneskjunnar sjálfrar. Hinn mannlegi þáttur tilverunnar á sífellt erfiðara uppdráttar andspænis fjöldaframleiðslu, skrifstofubákni, valdahyggju, tæknivæðingu, afskræmingu náttúru og mannlegra eiginleika. Af þessum áhyggjum eru sprottnar umræður um mengun, jafnrétti kynja, uppreisn æskunnar, sjálfstæðisbarátta smáþjóða, jafnvel sjálf hippamenningin. Fólk leitar að sjálfu sér, vísar lífsþægindagræðginni og hinum veraldlegu keppikeflum á bug, því stendur stuggur af þeirri þróun, sem gerir einstaklinginn að tölu á gataspjaldi eða númeri í einhverri áætlun.

Þetta eru hinar áleitnu spurningar nútíma þjóðfélagsins. Hvernig getum við gert tilveruna manneskjulegri? Hvernig á einstaklingurinn að forðast það að vera ofurseldur kerfinu? Þessum spurningum svarar nú vinstri stjórnin á Íslandi með því að boða nýja stefnu og leggja síðan fram frv. um Framkvæmdastofnun ríkisins og tilkynna siðan, að þar sé á ferðinni fyrsta stefnumótandi mál hennar. Og hvað felur þetta frv. í sér? Enn eitt skrifstofubáknið, áætlunarbúskap pólitískra handbenda, sem eiga að segja fólkinu, einstaklingunum, hvað sé þeim fyrir beztu í þessu lífi, veita einum forgang umfram annan, meta borgarana út frá þjóðhagslegri þýðingu þeirra, dæma verðmætin í ljósi framleiðslu og framleiðni, hversu almáttugt sem það mat reynist svo í framkvæmdinni. Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum hinna útvöldu fulltrúa baráttunnar gegn firringunni og misréttinu við þessu frv. firringarinnar og misréttisins.

Ekkert er augljósara en sú staðreynd, að það verði hlutskipti vinstri stjórnarinnar að leiða þjóðina og hina nýju kynslóð lengra inn á braut alhæfingarinnar og tillitsleysisins, herða ferðina í þeim darraðardansi, sem allir hugsandi og frjálslyndir menn gera nú tillögur um, að forðast beri. Nú á ekki lengur. að gefa upplýsingar, heldur að gefa fyrirmæli. Nú á ekki að veita ráð heldur áætla og ákveða, nú á að auka valdið ofan frá, treysta á forsjá stóra bróður. Nú verður mælistikan gildismat hagfræðiformúlunnar. Á sama tíma sem þörf er á að nýta hugvit og frumkvæði, hæfileika og framtak hvers einasta Íslendings í harðnandi samkeppni smárrar þjóðar á öllum sviðum, þá á nú að setja traustið á alvizku áætlana og útreikninga. Á sama tíma, sem kvartað er undan flóknu og seinvirku embættismannakerfi, þá á að stofnsetja enn eitt ríkisbáknið samkv. gamalkunnri formúlu Parkinsonslögmálsins. Á sama tíma og talað er með fjálgleik um dreifingu valdsins og aukin áhrif einstakra byggðarlaga, þá er valdinu safnað enn þéttar saman undir allsráðandi miðstjórnarvaldi, sem landshlutar verða að sækja allt sitt undir. Á sama tíma og ungt fólk berst einarðri baráttu gegn flokksræði og flokkslegri fjarstýringu, þá er atvinnulífinu talið bezt borgíð í höndum útvalinna kommissara stjórnmálaflokkanna.

Það er augljóst, að öll megineinkenni þessa frv. eru í fullri andstöðu við þau viðhorf, sem uppi eru meðal ungs fólks, í algerri mótsögn við frjálslynda stefnu og viðfangsefni nútíma stjórnmála. Það er svo mál út af fyrir sig, hvort tilgangurinn sé raunverulega sá að aðlaga þjóðfélag okkar hinni vestrænu þjóðfélagsþróun, ellegar stefnt vísvitandi til ómengaðs marxisma, og læt ég fulltrúa ríkisstj. um að túlka og skilgreina þann tilgang.

Herra forseti. Ég mun nú senn ljúka máli mínu. En með þessari ræðu minni hef ég leitazt við að draga fram grundvallaratriði þessa máls, ekki frv. sem slíks, heldur hugsunarháttarins, sem að baki því liggur, og hef ég þá haft sérstaka hliðsjón af stefnu ríkisstj. sjálfrar og þeirri þróun, sem stjórnmál hvarvetna beinast nú að.

Áður í þessum umr. hefur verið bent á þann sósíalisma, sem frv. boðar, veilurnar, sem það felur í sér, og hættuna, sem hinu frjálsa hagkerfi stafar af þessari væntanlegu stofnun. Á það hefur verið bent, að stofnunin er um leið engan veginn fær um að valda því verkefni, sem henni er ætlað, að samþykkt þess leiði til árekstra, en ekki samræmingar, að frv. bæti engan veginn úr þeirri áætlanagerð, sem nú þegar er starfrækt.

Þessu til viðbótar þykist ég hafa dregið fram, að frv. veiti svigrúm til hagstjórnaraðferða, sem alls staðar hefur verið hafnað nema í örgustu kommúnistaríkjum, að frv. geti komið í veg fyrir auknar aðgerðir á hinum félagslega vettvangi, að frv. sporni gegn þeirri lýðræðislegu viðleitni, sem nú er uppi meðal frjálslyndra manna á Vesturlöndum, að frv. sé í fullri andstöðu við hugsjónir og umræður ungs fólks í heimi vélmenningar og fjarstýringar, og að lokum, að frv. vinni raunverulega gegn yfirlýstri stefnu ríkisstj. um umbætur í þessu þjóðfélagi.