27.04.1972
Efri deild: 73. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (3305)

264. mál, áfengislög

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég hygg, að allir hv. alþm. geti verið sammála um það, að áfengisnautn með þjóðinni um þessar mundir sé meiri heldur en góðu hófi gegnir og að þróunin í því efni sé næsta uggvænleg. Áfengisvarnaráðunautur á að vera ríkisstj. til ráðuneytis um þessi efni. Hann er formaður áfengisvarnaráðs og á að hafa með höndum umsjón með framkvæmd á þeim kafla áfengislaganna, sem fjallar um áfengisvarnir. Það þarf ekki að draga í efa, að áfengisvarnaráðunautur vill leita allra tiltækra ráða til þess að draga úr því böli, sem af áfengisnautninni leiðir. Kemur þar til bæði staða hans sem embættismanns og einnig persónulegur áhugi þess manns, sem starfinu gegnir.

Áfengisvarnaráðunautur hefur haft nokkurt samband við einstaka þm. og leitað eftir því að fá einn þm. úr hverjum þingflokki til þess að fylgjast með þeim hugmyndum, sem áfengisvarnaráðunautur og áfengisvarnaráð hafa um ráðstafanir bæði á sviði framkvæmda í þessu efni og nokkrar lagabreytingar, er miðað gætu að því að draga úr áfengisnautn eða veita aukið aðhald í þessu efni. Tildrögin að því, að þetta tiltölulega litla frv., sem ég mæli hér fyrir, er flutt, eru þau, sem ég greindi, að áfengisvarnaráðunautur hefur mælzt til þess, að þetta frv. yrði fram borið, og flm. þessa frv. eru fimm þm. sinn úr hverjum þingflokki, eins og þskj. 602 ber með sér.

Í þessu frv. eru einungis borin fram þau atriði, sem áfengisvarnaráðunautur hefur bent á og talið æskilegt, að freistað yrði að fá breytingar á áfengislögunum um þessi atriði. Ég skal nú með örfáum orðum víkja að þeim atriðum, sem í frvgr. felast.

Í áfengislögum er svo fyrir mælt, að áður en veitingahúsi er veitt leyfi til vínveitinga, skuli leita umsagnar bæjarstjórnar eða sýslunefndar í þeim kaupstað eða sýslu, er í hlut á, og er ráðh. óheimilt að veita slíkt leyfi, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd reynist leyfisveitingunni mótfallin. Hér er lagt til, að við þetta ákvæði í gildandi lögum sé því bætt, að það verði einnig gert skylt að leita umsagnar áfengisvarnanefndar í hlutaðeigandi sveitarfélagi, áður en veitingahúsi er veitt vínveitingaleyfi.

Í 20. gr. áfengislaga segir: „Ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl efir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka.“ Þar sem um það eru skýr ákvæði í áfengislögum, að ungmennum yngri en 18 ára sé óheimil dvöl á þessum veitingahúsum eftir kl. 8 á kvöldin, þá er rökrétt að álykta, að þeim, sem orðnir eru 18 ára að aldri, sé heimilt að fá aðgang að veitingahúsi, þar sem vínveitingar eru leyfðar. Hins vegar er kveðið svo á í 16. gr. laganna, að yngri mönnum en 20 ára má ekki selja, veita eða aflhenda áfengi með nokkrum hætti. Af þessum ákvæðum hefur leitt og leiðir nokkurt misræmi, þannig að það er talið torvelda strangt eftirlit í veitingahúsum, að þarna eru ákvæði um tvenns konar aldursmörk, svo að þeir, sem vilja beita sér fyrir auknu aðhaldi í þessu efni, telja nauðsynlegt að samræma þetta. Þessu samræmi mætti vitanlega ná á tvennan hátt, annars vegar með því að gera þeim, sem yngri eru en 20 ára, það óheimilt að dvelja í veitingahúsi, þar sem vínveitingar eru leyfðar, t. d. eftir kl. 8 að kvöldi. En það er nú á ýmsum öðrum sviðum keppt að því að veita þeim, sem ungir eru, aukin réttindi í þjóðfélaginu. Má í því efni minna á lækkun kosningaaldurs og ég ætla, að nú sé stefnt að því með frv., sem fjallað er um einmitt um þessar mundir, að lækka þann aldur, þegar mönnum er heimilað að stofna til hjúskapar, þannig að í samanburði við þetta og að athuguðu máli þykir jafnvel bindindismönnum okkar sú leið naumast fær að banna öllum, sem yngri eru en 20 ára, aðgang að veitingahúsum, þar sem vínveitingar eru leyfðar. Þess vegna er hér farið út á þá braut að ná þessu samræmi á þann hátt, að þrátt fyrir þau ákvæði í 16. gr. laganna, sem ég minntist á, þá megi þó í veitingahúsi, sem fengið hefur vínveitingaleyfi, afgreiða áfengi til þeirra, sem náð hafa 18 ára aldri.

Samkv. lögum um Stjórnarráð Íslands og reglugerð á grundvelli þeirra laga, þá verður framkvæmd áfengislaga með vissum hætti skipt á milli þriggja rn. Dómsmrn. fer að öllu leyti með þau mál, sem varða löggæzlu. Hins vegar er kveðið svo á í reglugerð um stjórnarráðið, að heilbr.- og trmrn. fari með áfengisvarnir og bindindisstarfsemi. Og menntmrn. hefur yfirumsjón með allri fræðslu í skólum ríkisins og þ. á m. þeirri fræðslu, sem á lögum samkv. að halda uppi um áfengismál, útgáfu námsbóka í því efni o. s. frv.

Í 3. gr. þessa frv. er því sú leiðrétting gerð, sem leiðir af lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands, að í stað þess, að áður hefur staðið eða í lögunum segir, að dómsmrh. skipi varaformann áfengisvarnaráðs, þá á nú samkv. 3. gr. þessa frv. að fela það heilbrmrh., enda mun það vera orðið svo í framkvæmd, að heilbrmrh. skipar t. d. for menn áfengisvarnanefnda, en ekki lengur dómsmrh.

Þá kem ég loks að 4. gr. þessa frv. Hún felur í sér smávægilega breytingu á aðstöðu áfengisvarnanefnda. Í lögunum er kveðið svo á, að áfengisvarnanefndir skuli vera ólaunaðar, en kostnaður við störf þeirra, ef einhver er, greiðist úr ríkissjóði að öðru leyti en því, að hlutaðeigandi hreppur eða kaupstaður greiðir fyrir nauðsynlegt húsnæði handa þeim. Þetta er nú ekki í samræmi við þá þróun, sem nú á sér stað, því að það er hin algenga regla, að nefndir fái einhverja þóknun fyrir þau störf, sem þær vinna. Að sönnu er starf áfengisvarnanefnda fyrst og fremst starf áhugamanna og svo þarf að vera. Hins vegar þykir áfengisvarnaráðunaut það a. m. k. óþarfi að kveða á um það með lögum, að ekki megi greiða áfengisvarnanefndum þóknun fyrir, störf, sem þær inna af hendi, heldur verði stefnt að því að leggja það á vald sveitarstjórnanna, það sé frjálst samningsatriði milli áfengisvarnanefndar og sveitarstjórnar á hverjum stað, hvort nefnd tekur þóknun fyrir störf sín eða ekki.

Ég hef þá skýrt með þessum fáu orðum þau tilteknu atriði, sem í frv. þessu felast, og ég endurtek að lokum, að þessi atriði eru þau ein, sem áfengisvarnaráðunautur hefur óskað eftir, að fram yrðu borin, og þm. úr öllum flokkum standa að flutningi þessa máls.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.