17.12.1971
Neðri deild: 28. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

126. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. heilbr.- og félmn. og öllum meðlimum hennar fyrir ákaflega góð störf. Ég fór fram á það við 1. umr., að þetta mál fengi mikinn forgang í störfum, og n. hefur sannarlega orðið við þessari beiðni minni.

Frá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni liggja fyrir brtt. á þskj. 211. Sú fyrri er um það atriði, að inn í ákvæðin um fjölskyldubætur verði teknir nýir liðir, sem eiga að fela í sér aðstoð við námsfólk. Þetta er hugmynd, sem við ræddum hér á síðasta þingi, hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og ég, vegna þess að hér er um að ræða skipan, sem ég veit, að t.d. Svíar hafa í þessu sambandi. Hins vegar tel ég óeðlilegt, að um þetta mál verði fjallað í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það er starfandi á vegum ríkisstj. sérstök nefnd, sem á að fjalla um nýja tilhögun á stuðningi við námsfólk á bilinu á milli skyldunámsog háskólastigs, og sú nefnd er að störfum. Og ég mun beita mér fyrir því, að þessi hugmynd hv. þm. verði rædd ítarlega í þessari nefnd.

Annað atriði í till. hv. þm. er, að skylt skuli að hækka fjölskyldubætur eins og aðrar bætur almannatrygginga, en í frv. er, eins og kunnugt er, lagt til, að þetta verði ákvörðunarefni fyrir ríkisstj. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr., hvers vegna ríkisstj. legði þetta til. Ég er á sama máli og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir um það, að fjölskyldubætur eru annars eðlis en almennar tryggingabætur. Fjölskyldubætur eiga að vera tekjujöfnunaraðferð að minni hyggju, og ég tel, að það þurfi að fjalla sérstaklega um það, að sú mikla upphæð, sem í þetta fer, nýtist miklu betur til tekjujöfnunar en raun er á núna, og um það mál verður fjallað í þeirri nefnd, sem vinnur núna að heildarendurskoðun almannatrygginganna. Þar verður fjallað áfram um þetta mál. Þess vegna hlýt ég að leggja til, að þessar till. hv. þm. verði felldar, og raunar er þar enn ein ástæða. Í þessum till. eru fólgin atriði, sem hefðu í för með sér mjög verulegar fjárupphæðir. Ég sé ekki í skjótu bili, hversu miklar þær fjárupphæðir munu vera, en mér sýnist, að þær muni vera milli 100 og 200 millj. kr., trúlega.

Eins og ég gerði grein fyrir í fyrstu umr., fela þríþættar breytingar á almannatryggingum, sem koma til framkvæmda um þessi áramót, í sér upphæð, sem nemur yfir 1000 millj. kr. Ég er sannfærður um það, að það er áhyggjuefni þm. almennt, hvort ríkisstj. spenni ekki bogann of hátt með till. af þessu tagi. Og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur varað sterklegar við því en nokkur annar þm., að ríkisstj. sé að fara yfir strikið með hugmyndum sínum um útgjöld ríkissjóðs. Ég hef einnig áhyggjur af þessu máli. Þess vegna tel ég ekki heldur fært af þessari ástæðu að fallast á till., sem hefðu í för með sér veruleg viðbótarútgjöld, að því er þetta atriði varðar.

Hv. þm. benti á það réttilega, að það væri tekin upp sú breyting í frv., að skyldan til hækkana á bótum almannatrygginga væri miðuð við almenna verkamannavinnu, en ekki fiskvinnu, og að þarna væri munur á. Þetta er alveg rétt, þarna er munur á. Ef farið hefði verið eftir fiskvinnutaxtanum, hefðu bæturnar hækkað um rúml. 13%, en í samræmi við þau ákvæði, sem í frv. eru, hækka þær um rúm 10%. Þetta er ekki ýkja mikill munur, en þetta er munur, það er alveg rétt. En ég gerði grein fyrir því í 1. umr., hvernig á þessu stæði. Ég tel, að það sé ekki rétt að miða þessi ákvæði við laun tiltekins starfshóps. Við erum hér að vinna að lagasetningu, sem getur staðið um alllangt skeið hugsanlega, og það gætu komið upp þau tilvik, að þessi starfshópur gerði kjarasamninga, sem kæmu verr út fyrir viðskiptavini almannatrygginganna. Meginatriðið er þó hitt, að ég tel, að það sé ekki rétt að leggja þá byrði á samningsaðila í verkalýðshreyfingunni, að hann sé ekki aðeins að semja um sín kjör, heldur einnig um útgjöld almannatrygginga.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir flutti hér allítarlega ræðu og kom með margar aths. bæði við frv. og þetta mál í heild og ýmsar aths., sem ég er mjög sammála. Ég er t.d. algjörlega sammála hv. þm. um það, að það er vandamál í sambandi við tekjutrygginguna, hvernig fara eigi með fólk, sem vinnur og hefur nokkrar tekjur í því sambandi. Ég hef velt þessu máli mikið fyrir mér, og ég tel, að maður verði að reyna að finna einhverja lausn á þessu vandamáli. Þetta er vissulega vandamál, og um það verður að sjálfsögðu fjallað í þeirri nefnd, sem vinnur áfram að endurskoðun almannatrygginganna.

Hins vegar langar mig til þess að minnast á það í þessu sambandi, að á þessum kjarabaráttutímum, sem ég skal sízt lasta, heyrist það stundum, að vinnan sé böl, sem menn verði fyrst og fremst að fá bætt fjárhagslega. En vinnan er ekki aðeins böl, vinnan er lífið sjálft, og vinnan gefur mönnum lífsfyllingu. Ég veit ósköp vel, að aldrað fólk og öryrkjar, sem hefur tök á því að vinna, er að þessu leyti miklu betur sett en öryrkjar og aldrað fólk, sem ekki á kost á því að vinna. Við skulum einnig muna eftir þessari hlið málsins. Ég tel raunar, að það þurfi að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að aldrað fólk, sem ekki fær að vinna hér almenna vinnu, en hefur fulla starfsorku, eigi þess kost að vinna t.d. hluta úr vinnudegi. Þetta er þjóðfélagslegt vandamál, sem fer vaxandi, og vandamál, sem ég tel, að við verðum að sinna.

Í sambandi við bráðabirgðaákvæði um tekjuöflunarlið þessa frv. gerði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir margar aths. Þarna er um að ræða óhjákvæmilega forsendu þessara breytinga að sjálfsögðu, að gera ráð fyrir tekjum í þessu sambandi. Í þessum tekjum er ekki um að ræða neina nýja hluti. Hv. þm. spurði, hvort launaskatturinn væri nýr skattur. En það er ekki þannig hugsað. Hér er aðeins verið að framlengja þann skatt, sem fólst í verðstöðvunarfrv. Að þessu leyti er verið að því, má segja. Hv. þm. spurði einnig um upphæðir í þessu sambandi. Ég get nú því miður ekki svarað þessu af jafnmikilli nákvæmni og hæstv. fjmrh. væri vafalaust fær um að gera, en ég vil minna á það, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að launaskattarnir báðir, þessi 11/2% launaskattur og gamli 1% launaskatturinn, nemi 700 millj. kr.

Hv, þm. gerði grein fyrir brtt., sem hún mun flytja við 3. umr. og sem hún ræddi við mig í morgun. Ég bar þá till. undir sérfræðinga mína í trmrn. og fjmrn., og niðurstaða þeirra varð sú, að þeir teldu ekki ástæðu til að hafa þann hátt á, að ráðh. geti ákveðið þá frestun, sem þarna er um að ræða. Þeir töldu, að þessi ákvæði væru í sjálfu sér það einföld og skýr, þó að ég skilji vel og geti fallizt á það, að þm. hafi haft naumari tíma til þess að átta sig á því, að þessa ákvæðis væri ekki þörf.

Ég skal fúslega á það fallast með hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, að þetta stórmál er allt of seint fram komið. Það á ekki aðeins við um þetta mál, heldur einnig um frv. ríkisstj. um tekjuskatt og eignarskatt og um tekjustofna sveitarfélaga. ríkisstj. hefur færzt ákaflega mikið í fang með þessum miklu breytingum. Og ríkisstj. hefur haft nauman tíma til starfa. Þetta er að sjálfsögðu hennar réttlæting í þessu sambandi. Hins vegar er ég algjörlega sammála hv. þm. um það, að þm. eiga heimtingu á að hafa meiri tíma en þetta til að fjalla um mikilvægustu mál. Slíkt hefur þó vissulega áður gerzt hér á þingi. Ég hef staðið hér í þessum ræðustól og flutt hliðstæða gagnrýni og hv. þm., en það breytir engu um það, að þessi gagnrýni á rétt á sér. Við verðum að reyna að haga samvinnu ríkisstj. og Alþ. þannig, að alþm. geti fjallað á sem allra raunsæjastan hátt um þau mái. sem þeir þurfa um að fjalla.

En einmitt vegna þess arna, að þetta mál er umfangsmikið og hvað hv. heilbr.- og félmn. og fulltrúar allra flokka í henni hafa unnið kappsamlega að þessu máli, vil ég ljúka máli mínu með því að endurtaka þakkir minar til n. Ég vil láta þess einnig getið, að þeirri breytingu, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir minntist á í sambandi við 2. gr. frv. og hún hafði vakið athygli mína á áður, er ég sammála og mun við 3. umr. flytja till. um hana.