17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

126. mál, almannatryggingar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það barst beiðni til heilbr.- og félmn. um að flytja brtt. við 11. gr. laganna. Heilbr.- og félmn. varð sammála um að verða við þessari beiðni, og mér var falið að hafa samband við Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra og forstjóra Tryggingastofnunarinnar, Sigurð Ingimundarson. Ef þeir sæju ekkert því til fyrirstöðu, að þessi breyting yrði gerð á frv., þá ætluðu nm. að flytja þessa till. En hún er svo hljóðandi:

„Á eftir I. gr. komi ný gr., svo hljóðandi:

Orðin „sem átt hafa sér stað eftir 1. jan. 1961“ í síðustu mgr. 11. gr. falli niður.“

En til þess að hv. alþm. átti sig á, við hvað er átt, þá ætla ég, með leyfi forseta, að lesa niðurlag Il. gr., sem er svo hljóðandi:

„Nú andast maður, sem frestað hefur töku lífeyris fram yfir 67 ára aldur, og lætur eftir sig maka á lífi, og skal þá hinn eftirlifandi maki til víðbótar eigin ellilífeyri eiga rétt á þeirri hækkun, sem hinn látni átti rétt á vegna frestunar, sem átt hafði sér stað eftir 1. jan. 1961.“

Þeir, sem höfðu frestað þessu fyrir 1. jan. 1961, koma ekki undir þetta ákvæði, eins og lögin eru, og þess vegna leggur heilbr.- og félmn. til, að þetta verði fellt niður.

En þar sem þessi till. er skrifleg og of seint fram borin, þá verð ég að leita þess við hæstv. forseta, að hann fái heimild til þess að láta þetta ganga fram.