14.03.1972
Sameinað þing: 48. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3929)

47. mál, málefni barna og unglinga

Frsm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. til þál. á þskj. 48, um málefni barna og unglinga, en till. var vísað til n. 30. nóv. s.l. Á meðan n. hafði till. til athugunar, ákvað hæstv. menntmrh. að skipa nefnd til að athuga þau mál, sem till. fjallar um, en tilkynnt var um skipun þessarar nefndar 22. des. s.l. Með hliðsjón af þessari nefndarskipun taldi allshn. eðlilegt, að umræddri þáltill. yrði vísað til ríkisstj. En þessi þáltill. er um það að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á:

1. Hver þörf landsmanna er á auknum barnaheimilabyggingum.

2. Hver hlutur ríkisins í stofukostnaði slíkra heimila á að vera.

Ég vil geta þess, að n. leitaði umsagnar aðila, sem þetta mál snertir, svo sem stjórnar Barnavinafélagsins Sumargjafar, sem var því meðmælt, að umrædd þáltill. yrði samþ., og sagðist „fagna hverri þeirri till., sem ætla má, að verði til góðs í málefnum barna og unglinga,“ eins og segir orðrétt í umsögn stjórnar félagsins. Sömuleiðis sagði Barnaverndarráð Íslands í þeirri umsögn, sem það lét í té, að það teldi till. athyglisverða og æskilegt væri, að umrædd athugun færi fram.

Fræðslumáladeild menntmrn. segir svo orðrétt um þetta mál með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er, er til löggjöf um fræðslu barna og ungmenna allt frá 6 ára aldri, og endurskoðun þeirra og ýmissa annarra skóla hefur verið á döfinni um nokkurt skeið. Hins vegar er engin heildarlöggjöf um barnaheimili og aðrar uppeldisstöðvar fyrir börn innan skólaaldurs, þ.e. upp að 6—7 ára aldri. Virðist mér því, að með tilliti til breyttra aðstæðna og atvinnuhátta sé rétt, að athugun verði látin fara fram á þeim meginatriðum, sem þáltill. fjallar um. Leiðir sú athugun væntanlega í ljós, hvort þörf er sérstakrar löggjafar um framangreint atriði, til m.a. liðsinnis við stofnun og rekstur barnaheimila o.fl.“

Þannig hljóðar hluti af umsögn fræðslumáladeildar menntmrn. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta, en það er till. allshn., að þessari umræddu þáltill. verði vísað til ríkisstj.