27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3945)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég las grein í Tímanum fyrir nokkrum dögum. Ég man ekki nákvæmlega, hvaða dag það var. Það var vit í þeirri grein. En það er nú þannig með dagblöð okkar, ekkert frekar Tímann en önnur, að það er ekki alltaf af miklu viti, sem í þau er skrifað, sem er eðlilegt. Blöðin eru stór og mörg, og ef það væri vit í þessu öllu, mundum við ekki vera færir um að taka á móti allri þeirri vizku. Þetta var um gróður á heiðum, og það var bent á það, að með því að ausa áburði úr flugvélum á kvistlendi, lyng og slíkan gróður, gæti það orðið til að eyða gróðrinum. Öllum sem eru að tala um þessa gróðurvernd, gengur gott til. Við viljum allir hafa landið okkar sem fegurst og frjósamast. En það þarf bara að vinna að þessu af þekkingu og skynsemi, en ekki óskipulegt fálm út í loftið. Það er mjög virðingarvert af meðlimum ungmennafélaganna að vilja leggja sitt lið fram til að græða upp landið. En þetta hefur bara ekki verið gert á nógu skipulegan hátt. Það er veitt fé í þetta af Alþ., og svo er safnað saman nokkrum áburðarpokum og fræpoka. Svo fara krakkarnir með þetta upp á afréttir, dreifa þessu ofan á mela og þetta fýkur burt og verður að engu. Ég vil engan veginn gera lítið úr því, sem unnið hefur verið í gróðurverndarmálum hér á landi. Það hefur verið gert stórt átak, einkum sunnanlands og jafnvel fyrir norðan líka, þó að það sé ekki í minni sýslu, það er ekki svo mikill uppblástur í henni. En í Þingeyjarsýslum hefur verið gert mikið átak viðvíkjandi uppgræðslu á landi. Og Páll sandgræðslustjóri er viðurkenndur dugnaðarmaður. Ég vil engan veginn gera lítið úr hans starfi eða þekkingu á þessu sviði. En það er annað. Páll býr í Gunnarsholti, einu stærsta býli á landinu. A.m.k. er heyfengur þar meiri en annars staðar, og maðurinn eyðir allt of mikilli orku í að reka búskapinn, en það er meira en nóg starf fyrir einn mann, hvað duglegur sem hann er, að hugsa um sandgræðslumálin. Ég álít, að þetta sé ekki rétt, Páll eigi ekki að vera að fást við búskap, hann eigi að hugsa um sandgræðslumálin, óg það er miklu meira en nóg verk fyrir hann, hvað duglegur sem hann er. Það er hægt að fá einhverja aðra til þess að búa í Gunnarsholti. Enda þegar búið er að græða þetta flæmi upp þá er ekkert óeðlilegt að skipta þessu niður í býli, og þar gætu verið margir bændur.

Það er verið að tala um það, að við munum geta ræktað upp mikið af þessum gróðurlausu öræfum okkar. Ég skal ekki segja, hvað hægt er að gera. En ég er alveg viss um það, að það er ekki praktískt og við eigum að byrja á að rækta annað fyrr. Ég er búinn að ferðast töluvert um landið, og m.a. fór ég suður Kjöl í sumar. Uppblásturinn virðist mér vera fyrst og fremst af vatnsleysi. Þetta gróðurleysi hefur alltaf verið á öræfunum. Ef við lesum Landnámu, kemur það í ljós, að Goðdala-Eiríkur sendi þræl sinn fram á Kjöl, þá kemur hann þar á sanda. Svæðið fyrir austan Kjalhraun hefur aldrei verið gróið land. Aftur sér maður það á miðheiðinni, að þar eru börð, sem hafa blásið eitthvað upp. Þegar komið er suður fyrir Hvítá, skiptir alveg um. Þar er ekkert nema grjót, a.m.k. það, sem maður sér frá veginum. Það er ekki sandur einu sinni, þetta er bara grjót. Og ég held, að það verði nokkuð seinlegt verk að rækta þetta grjót upp. Hitt er annað mál, þar sem er einhver laus jarðvegur og sandar. Þar er um að gera að vera nógu fljótur að græða upp, áður en sandurinn fýkur í burtu. Þegar ég var að alast upp, bjuggu foreldrar mínir ekki langt frá heiðunum, og ég tók eftir því, að þegar sunnanrok var, var töluvert mikið um mistur, sem ekkert var annað en sandrok. En það hefur borið miklu minna á því á seinni árum. Það er mjög sjaldan, sem við verðum varir við nokkurt sandrok fyrir norðan. Og ég held, að þetta hafi verið af því, að nú sé þessi lausi sandur bara fokinn burt og grjótið eftir.

Fyrrv. ráðh., Ingólfur Jónsson, var að tala um það hér áðan, að hægt væri að rækta tún í 400—700 m hæð. Ég er ekki trúaður á þetta. T.d. um norðurströndina, norður á Skaga. Ég hef komið þar oftar en einu sinni að sumrinu. Ég hef séð það, að sáðgresi þrífst ekki hjá þeim. Má vera, að ef þeir hefðu einhliða sterkustu tegundirnar, eins og t.d. túnvingul og kannske fleiri tegundir, að það gæti lifað, en sáðgresið lifir þar ekki. Og meira að segja hjá okkur frammi í dölunum deyr það meira og minna út eftir 2—3 ár, misjafnt eftir því, hvernig jarðvegurinn er og hversu skjólasamt er, en víða deyr það út. Í beztu sveitum landsins eins og sunnanlands og frammi í Eyjafirði, þar sem hlýjast er og beztu ræktunarskilyrðin, þar geri ég ráð fyrir, að sáðgresi lifi þó nokkuð lengi. En undir eins og komið er út að sjávarströndinni, sem er nú raunar grýtt og næðingasöm, og eins þegar komið er í dálitla hæð, t.d. 200 m hæð, þar sem sumir hafa verið að reyna að rækta í minni sveit, hefur sáðgresi dáið út, og þar vex það ekki að gagni nema í hlýrri sumrum. Og hvað haldið þið þá, þegar komið er í 400—700 m hæð? Ég held, að það verði dálítið erfitt að rækta sáðgresi þar. Þess vegna megum við ekki eyðileggja þennan lynggróður, sem er á heiðunum, með óhentugri áburðarnotkun.

Og svo er annað, sem við þurfum mjög að athuga, og það er það að stilla beitinni í hóf. Það er mikið talað um það, að Íslendingar hafi eyðilagt gróðurinn í landi sínu, það sé mönnunum að kenna, hve það hefur blásið upp. Vafalaust eiga þeir einhvern þátt í þessu, en þeim er kennt um of mikið. Í fyrsta lagi hafa þessar auðnir alltaf verið fyrir hendi að meira eða minna leyti. Í öðru lagi eru það á suðurafréttunum fyrst og fremst eldgosin, sem hafa gert þetta. Vikurinn hefur hrúgazt niður, og svo tollir vatnið ekki í gróðrinum eftir það, og hann þornar og blæs upp. Það eru ekki mennirnir, sem hafa eyðilagt heiðarnar fyrir ofan Rangárvallasýslu. Það eru eldgosin fyrst og fremst. Svo hafa hlaupið skriður og ýmislegt gerzt, sem hefur eyðilagt gróðurinn. Það er fleira en maðurinn. Ingólfur Jónsson sagði hér áðan, að landið hefði verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Það er sagt í Íslendingabók, að það hafi verið viði vaxið, en þetta var að mestu leyti víðir og smákjarr. Nú er það með þennan víði og kjarrið, að þetta er óræktargróður og satt að segja í landi, þar sem er mikil kvikfjárrækt, þá er þetta ekki hentugur gróður.

Hv. 2. þm. Sunnl. var að tala hér um beitina, og það var, held ég, rétt mest af því, sem hann sagði, eða mikið af því a.m.k. Mér er það ljóst, að það verður að takmarka, hve margt fé sé rekið á heiðarnar. Og þessi ítölulög, eins og þau eru nú, eru nær óframkvæmanleg. Í fyrsta lagi verður að takmarka eða taka jafnvel alveg fyrir að reka þessa stóðhópa á afréttirnar. Í öðru lagi verður að stilla því í hóf, hve féð er margt á afréttunum.

Ég held, að sérfræðingar okkar í gróðurmálum telji, að ærin þurfi þrjá hektara yfir sumarið af óræktuðu landi. Ég skal ekki fullyrða, hvort þetta er rétt. En stórt þykir mér svæðið, og vitanlega getum við ekki haft mjög margt fé á afréttunum, ef lambærin þarf um þrjá hektara. En við verðum að rækta beitilandið, og okkur er orðið það ljóst, a.m.k. í Húnavatnssýslu, þar sem sauðfé er margt víða á bæjum og hross líka, að það er ógerlegt að fá dilkana væna, nema beita þeim á ræktað land.

Ég held, að það sé sjálfsagt að reyna að hindra uppblástur og ganga að því af dugnaði, en að fara að ausa fræi og áburði á grjót uppi á öræfum, ég held, að það sé að fleygja fjármunum og eyða orku til ónýtis, en við verðum að reyna að stöðva uppblásturinn, þar sem sandur er eða einhver leir jarðvegur.

Það er ekkert nema gott um þessa þáltill. að segja. Hún sýnir góðan vilja og áhuga á málinu og ástæðulaust að deila um hana. Ég veit ekki, hvort flm. vissu um þessa nefndarskipun hjá landbrh. Stjórnin okkar er dugleg og er ekkert að ráðfæra sig við þingið, ef hún ætlar að gera einhverja stóra hluti. Hún var búin að skipa ágæta menn í þessa nefnd, eins og við heyrðum á ræðu hv. 1. þm. Austf. hér áðan. Hann flutti mjög góða ræðu um þetta mál. Eðlilega er erfitt fyrir mig þess vegna að greiða atkv. með þessari till., því að ég tel það eins og vantraust á fyrrv. formann okkar, og ég kann ekki vel við það, þó að ég viðurkenni, að till. sýni á margan hátt góðan vilja og áhuga á góðu máli. Það er engin vanþörf á því að taka skynsamlega á þessum málum, en ég álít, að það hafi ekki verið gert nægilega vel. Má vera, að þessar umr. verði þess vegna til góðs, málin skýrist og unnið verði að þessu af meiri fyrirhyggju. En ég er með því, að unnið sé að því að græða landið, eftir því sem skynsamlegt er, en ég álit, að það þyrfti að breyta því þannig, að sandgræðslustjóri gæti gefið sig eingöngu að því. Hann þarf að hafa fjármuni nokkurn veginn nægilega, og svo þarf að vinna að þessu á skipulegri hátt en gert hefur verið og af meiri hagsýni. Að fara upp um öræfi og ausa þar áburði og fræi, án þess að landið sé girt eða valtað, það er hrein fávizka. Ég sá t.d. við Hvítárvatn í sumar, þar var sandgræðslugirðing, og það hafði auðsjáanlega borið árangur. En þar var líka mikill jarðvegur fyrir. Þetta er sandgræðslustjóra allt saman ljóst, og ég býst við, að hann þurfi ekki að fá tilsögn um það. En hann þarf að hafa tíma og aðstöðu til þess að vinna að þessum málum. Allir vita um sandana við suðurströndina, að þeim hefur verið breytt í frjósöm tún. Það er ekkert nema gott um það að segja, og ætti að gera miklu meira af því en gert er að græða þá upp, bæði til beitar og ræktunar. Hitt skulum við gera okkur ljóst, að þeir þurfa miklu meiri áburð en land, sem er frjósamara. Ég fór einu sinni að rækta sendinn móa, og mín reynsla er sú, að hann þarf tvöfaldan áburð, og fæ þó ekki eins mikið gras af honum. Hitt er annað, að það er góð taða af sandjörðinni, og vinnst e.t.v. eitthvað upp þannig. En það er aldrei nema til bóta að hefta sandfok og stöðva uppblásturinn. Svo eigum við að rækta það land, sem ræktanlegast er til nytja og hagkvæmast á allan hátt. Svo gæti komið að því hjá börnum okkar eða barnabörnum, að þau teygi sig upp eftir þessum afréttum og fari jafnvel að rækta það land, sem er orðið að mestu uppblásið. Ég skal ekkert fullyrða um, hvað gerist, en ég held, að eins og sakir standa nú, þá borgi sig ekki að bera á grjótmela í 400—800 m hæð.