20.03.1972
Neðri deild: 54. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3987)

61. mál, verðtrygging lífeyrissjóða verkafólks

Frsm. (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Í nál. heilbr.— og félmn. um verðtryggingu lífeyrissjóða er lagt til, að till. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún láti fara fram athugun og undirbúning að frv.-gerð um verðtryggingu allra þeirra lífeyrissjóða landsmanna, sem enn þá eru óverðtryggðir. Umsagnir hafa borizt frá eftirtöldum aðilum: Seðlabanka Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Landssambandi lífeyrissjóða, nefnd, sem er að endurskoða almannatryggingalögin. Þessar umsagnir bera í sér viðurkenningu og skilning á nauðsyn þess, að verðtryggja lífeyrissjóði allra landsmanna á einn eða annan hátt. Í umsögn Seðlabankans segir, með leyfi forseta:

„Bankastjórn Seðlabankans getur tekið undir þá skoðun, að núverandi ávöxtunar möguleikar á höfuðstól óverðtryggðra lífeyrissjóða verkafólks hljóti með tímanum að rýra getu þeirra til að rækja tilætlað hlutverk. Á þetta ekki aðeins við um lífeyrissjóði verkafólks, heldur einnig alla óverðtryggða lífeyrissjóði. Í árslok 1970 voru heildareignir lífeyrissjóða samtals 3 milljarðar 612 millj. kr., en þar af eru 1 milljarður 681 millj. kr. eða tæplega 47% í höndum óverðtryggðra lífeyrissjóða. Rýrnun á raunvirði höfuðstóls sjóðanna stafar fyrst og fremst af því, að sjóðirnir hafa ekki átt völ á eða kosið að nota sér þá ávöxtunar möguleika, sem nægt hefðu til að verja höfuðstólinn fyrir verðbólgu rýrnun. Útlánsvextir sjóðanna hafa almennt verið 8—10%, en þar eð verðbólga hefur á undanförnum árum oft verið meiri en þetta, hafa raunvextir sjóðanna oftast verið neikvæðir.“

Þetta er hluti úr áliti Seðlabankans. Í þessari umsögn Seðlabankans kemur í ljós, að í árslok 1970 var meira en helmingur af heildareign lífeyrissjóða í höndum verðtryggðra lífeyrissjóða, sem í eru um 7—8 þús. manns. En aftur á móti eru yfir 30 þús. manns í óverðtryggðum lífeyrissjóðum, sem í árslok 1970 áttu tæplega helming heildarfjármagns lífeyrissjóðanna. Við gerum okkur náttúrlega grein fyrir því, að þessir sjóðir eru ungir og eiga eftir að vaxa að miklum mun. En þó vil ég í ljósi staðreynda um núverandi eign þeirra minna á, hvort ekki sé bezt að taka þetta strax til athugunar, á meðan sjóðirnir eru þó svona líkir að stærð.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í ræðu minni, þegar ég fylgdi þessari þáltill. minni eftir, að í sjóðum launþega muni vera saman kominn stærsti hlutur af sparnaðarfé þjóðarinnar og þar munu þeir með tímanum eiga stærstan hlut í uppbyggingu þjóðarinnar. Þess vegna held ég, að ríkisstj. þurfi að athuga þann möguleika, á hvern hátt hún geti komið til móts við stjórnir hinna óverðtryggðu lífeyrissjóða með það fyrir augum að fá hluta þeirra að láni gegn verðtryggingu og nota þetta fé til uppbyggingar, t.d. í húsnæði almennings eða til annarra framkvæmda. Ég gat þess einnig í ræðu minni, að óverðtryggðir lífeyrissjóðir mundu ekki geta gegnt hlutverki sínu, og einnig benti ég á það, að slíkt óréttlæti sem er ríkjandi í þessum málum, yrði ekki til lengdar þolað, að ríkissjóður verðtryggði lífeyri nokkurs hóps þegna sinna, sem yrði eins og útvalin hjörð, sem dafnaði þeim mun betur, sem hinir yrðu aumari. Ég benti einnig á mismuninn á gerð þeirra, sem speglar á svo raunsæjan hátt stöðu þegnanna í þjóðfélaginu.

Ég stend hér og ávarpa yður, heiðruðu alþm., til þess að minna á ábyrgð ykkar á því að stuðla að réttlátu þjóðfélagi. Ég legg nú mitt fyrsta mál, sem ég hef flutt hér á hinu háa Alþingi, í hendur ríkisstj. í fullkomnu trausti þess, að hún muni afgreiða það fljótt og vel sjóðeigendum í hag.