04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (4124)

13. mál, hálendi landsins og óbyggðum verði lýst sem alþjóðaeign

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna aths., sem gerðar hafa verið við mál mitt áðan. Ég vil nú, áður en ég kem að því að svara því, lýsa ánægju minni yfir því, að flm. þessarar till. skuli ekki vera einir við að setja lög á Íslandi, því að ekki litist mér á það. En ég ætla ekki að taka það aftur, sem ég sagði áðan, að mér fyndist raunar fráleitt að aðhyllast þau sjónarmið, sem fram kæmu í þessari till. Það var ekki rétt, sem hv. 8. landsk. sagði hér áðan og hafði eftir mér, að ég hefði sagt, að þegar um hag þjóðarinnar væri að ræða, þá ætti einstaklingurinn að ganga fyrir þjóðarheildinni. Ég þóttist hafa tekið það rétt upp eftir frsm. sjálfum, sem hann sagði, að hlutur þjóðarheildarinnar í landsréttindum ætti að vaxa, en hlutur einstaklinganna að fara minnkandi, og það er nokkuð annað. Þetta taldi ég fráleitt.

Ég þarf ekki í raun og veru að segja meira. En þó þykir mér rétt að undirstrika það, að hann vildi halda því fram 1. flm., að ég hefði misskilið, hvað í till. fælist, og ég hefði ekki þurft að halda mína ræðu, þar sem getið væri um það í 1. lið till., að ekki ætti að lýsa annað alþjóðareign en það, sem skýlausar eignarheimildir væru ekki fyrir um. En eftir mínum skilningi eru skýlausar heimildir til fyrir því, að óbyggðir landsins og afréttir eiga sinn eiganda, og eftir þeim skilningi veit ég ekki, hverju á að lýsa þjóðarheildina eiganda að, ef það eru ekki eignir annarra aðila.