11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (4139)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar ég sá þessa þáltill., sem hér liggur nú fyrir til umr., þá trúði ég eiginlega ekki mínum eigin augum, og ég las hana hvað eftir annað, því að ég átti von á allt öðru en að sjá þessa till. nú á þessu þingi fyrir jólin fyrst og fremst vegna þess, að í málefnasamningi þeim, sem ríkisstj. gerði, þegar hún kom til valda, þá er því heitið að vinna að því að gera meira átak í vegamálum en áður hafði verið gert. Ríkisstj. hefur haft svo skamman tíma til þess að vinna, og þetta mál er ekki komið á neitt athugunar— eða umræðustig, eins og hv. þm. vita, og þess vegna fannst mér, að svona till. og sérstaklega flutt af þeim, sem fyrstur skrifar undir hana, hv. 1. flm., Magnúsi Jónssyni, ég átti ekki von á slíkri till. úr þeirri átt.

Ég ætla að rifja upp svolítið, hvernig þetta hefur gengið til í þessum málum og sérstaklega frá því í fyrravetur. Þá reyndum við, þm. Framsfl. í Norðurl. e., að fá fjármagn, fá lánsheimild til þess að fara að byggja upp eitthvað af vegum í okkar kjördæmi. Ég hef haldið því fram hér á þingi, að ástand veganna í kjördæmi okkar í Norðurl. e. væri bágbornara en víðast hvar á landinu og sérstaklega í sambandi við þá umferðarþörf, sem þar er. En til þess að sýna, hvernig það var á s.l. vori, þá mun ég koma að því betur síðar. Þegar farið var að ræða um það við hv. 2. þm. Norðurl. e., þáv. fjmrh., þá eiginlega hló hann að barnaskap mínum, að það væri hægt að fá lánsheimild til vegarins, áður en Norðurlandsáætlun væri gerð í vegamálum. Þetta þróaðist nú þannig, að á endanum skrifuðum við allir þm. og líka hv. þm. undir beiðni um það, að í tiltekinn veg, Dalvíkurveginn yrði heimilt að taka lán upp á 20 millj. kr. og var það sent fjvn. En þegar kom að fjvn., afgreiðslu þess þar, þá var þessi fjárhæð skorin niður um helming. En þegar átti að útvega féð, þá var útvegað af hendi fyrrv. ríkisstj. aðeins helmingurinn af þessu fjármagni, þ.e. 5 millj., sem var beint lánsfé. Hitt varð sá aðili, sem framkvæmir verkið, að lána. Þetta var nú það, sem hægt var að gera á meðan hv. 1. flm. þessarar till. var fjmrh.

Hér segir í grg.: „Er að því stefnt, að þessari áætlunargerð verði lokið í vetur.“ Á fjórðungsþingi Norðlendinga, sem var haldið s.l. haust á Ólafsfirði, spurði ég forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar, Bjarna Braga Jónsson, að því, hvenær væri hugsanlegt að ljúka þessari áætlun. Hann sagði, að það tæki a.m.k. þrjú misseri. Það eru þá nýjar upplýsingar, ef hægt er að ljúka þessari áætlun í vetur, eins og segir hér í grg. og mér þykir það furðulegt, ef sá maður, sem veitir Efnahagsstofnuninni forstöðu, hefur ekki farið þar með rétt mál.

Nú er það ákaflega gleðilegt, að þessi hv. þm., Magnús Jónsson, er kominn á þá skoðun, sem ég hélt fram í fyrravetur og var þá talin barnaleg, að það þurfi ekki að ljúka þessari áætlun, það væri hægt að taka einhverja af þessum vegum og fara að byggja þá upp.

En það voru líka fleiri mótbárur gegn því, að útvegað væri fé. Það væri ákveðið að fara að gera stórt átak á Austurlandi í vegamálum, sem mundi taka fimm ár, og það væri ekki hægt að hafa margar framkvæmdir í gangi á sama tíma. Nú er mér tjáð, að það sé aðeins búið að útvega 50 millj. af 300 í þá framkvæmd. Hitt er allt eftir. Mikið hlýtur nú hv. þm. að hafa meira álit á getu núv. ríkisstj. en hinnar fyrrverandi, ef hann ætlast til þess, að nú sé hægt að gera miklu meira og allt annað en áður var hægt og ég fagna því, að hann hefur þetta álit. Ég vona, að það reynist þannig, að hægt verði að útvega þetta fé, þó að ekki væri hægt að útvega nema 5 millj. í þessar framkvæmdir á s.l. ári.

Þegar ég var að ferðast og við frambjóðendurnir í Norðurl. e. um vegina í vor, þá fór ég t.d. einu sinni út á Dalvík og ég var fastur þar í pytti langa lengi. Mátti fá dráttarvél til þess að draga mig þar upp. Við fórum austur frá Akureyri, og þar hittum við á trukka, þríhjóla trukka fasta í pyttunum. Við urðum að fara utan brautar. Það var betra að fara í skurðunum um Tjörnesið, en á veginum sjálfum. En þegar við komum svo austan að úr þessari ferð, þá hittum við bíl uppi við Vaðlaheiði, rétt hjá Mógili, sem merktur var með S, og bílstjórinn fór að spyrja okkur um veginn. Við vorum svo undrandi, að við gátum ekki svarað honum. Við segjum: Hvaðan kemur þú? Við fórum frá Reykjavík eftir hádegið. Hvernig er vegurinn? Segjum við. Það er á einum stað á Hrútafjarðarhálsinum. sem voru hjólför, við flugum yfir þau. Það var ekki fyrr en við komum í Öxnadalinn, sem fóru að verða örðugleikar. En þarna vorum við að koma úr þessu ferðalagi um okkar kjördæmi, eins og ég var að lýsa. En það er ánægjulegt, þetta er nú 21. þingið, sem hv. 1. flm. þessarar till. situr, hann er búinn að vera í sex ár fjmrh., — að nú fyrst virðist hann vilja fara að gera stórt átak í þessum málum. Og hann sér þá, hvernig hefur verið unnið á því tímabili, sem hann hefur setið hér á þingi.

Ég verð nú að segja það, að ég held, að svona tillöguflutningur sé ekki til mikils. Ég vil benda á það í sambandi við þetta mál, að það er mikið verk, sem þarf að vinna, eins og ég var að lýsa áðan, og ég vona, hvernig sem verður á næstu árum, að það verði hægt að gera stórt átak í þessum málum, eins og hæstv. ríkisstj. er búin að heita að gera.

En það er auðvitað ekki nóg að byggja upp vegina. Það er ekki nóg að lagfæra þá, eins og þarf að gera. Það er þannig núna t.d. í okkar kjördæmi, hv. þm. Magnúsar Jónssonar, að það hefur ekkert viðhald verið á vegunum á undanförnum árum. Ég var að tala við vegaverkstjórann í S.-Þingeyjarsýslu nú á dögunum. og ég get ekki komið með svo sterk lýsingarorð sem hann notaði til þess að lýsa því, hvernig ástand veganna er eftir sumarið í sumar og eftir viðhaldsleysi undanfarin ár. Við þurfum að gera átak, og það þarf að skipuleggja það að holufylla þessa vegi og rykbinda þá. Það var nú þannig t.d. í Kræklingahlíð í sumar í þurrkunum, að það var eins og þoka yfir allri hlíðinni, þannig var rykmökkurinn,og svo voru hvörfin hér og þar og maður sá þau ekki fyrr en maður kom alveg að þeim fyrir rykinu.

Ég held, að það þurfi að gera tilraun með þessa gömlu vegi okkar, hvort það er ekki hugsanlegt að setja olíumöl ofan á þá. Það verður að reyna það, og það má ekki bíða. Það verður að gera það sem allra fyrst eða eins fljótt og hægt er. Það eru til tæki í landinu, og með því að nota þessi tæki, þá er þetta ekki ákaflega mikill kostnaður. Það væri hægt að leggja olíumöl á meira en 100 km á ári með þessum tækjum, og sennilega væri hægt að gera það fyrir svona 700 þús. kr. á km miðað við rúmlega 7 metra breiðan veg. Þetta er það, sem við þurfum að vinna að, en auðvitað þarf fyrst og fremst að byggja upp þá vegi, sem nú eru aðeins troðningar. Ég var að lýsa, hvernig þeir eru í okkar kjördæmi á hverju vori og hvernig þeir eru líka að vetrinum. Því að þetta eru vegir, sem eru allir sokknir ofan í mýrarnar, því að þetta eru eins og þið vitið snjó þyngstu héruð landsins, en vegirnir verða strax ófærir, þegar fyrstu snjóar eru, nema þá að fara með tæki á þá til þess að hreinsa þá.

Ég vil nú ekki vera að halda hér langa tölu um þetta mál. Ég vildi þó beina því til þeirrar n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar, hvort það væri ekki rökrétt og við hæfi að vísa svona till. frá með rökstuddri dagskrá. Hitt er svo annað mál, að mér finnst, að það sé ekki ótímabært af hv. þm. Magnúsi Jónssyni að hefja baráttu fyrir umbótum í vegamálum í okkar kjördæmi.