11.11.1971
Sameinað þing: 13. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (4143)

14. mál, samgönguáætlun Norðurlands

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ekki skal ég blanda mér í það, þó að hv. þm. Norðurl. e. hnybbist svolítið, þeir um það. Aðeins vil ég segja nokkur orð um þá till., sem hér er til umr.

Ég get sagt það strax, að mér finnst till. ekki óeðlileg frá stjórnarandstæðingum. Ég lít á það sem nokkuð eðlilegan hlut, að þeir minni á sín mál og skori á ríkisstj. að gera góða hluti, og það ber ríkisstj. líka að taka vel upp fyrir þeim. Það hafði nú hæstv. fyrrv. ríkisstj. ekki alltaf skilning á að gera. Það voru flest mál drepin frá stjórnarandstöðu þá. En þannig á nú ekki að taka á málum.

Í till. segir, að skorað sé á ríkisstj. að gera í tæka tíð ráðstafanir til að afla nægilegs fjármagns, svo að hægt verði þegar á næsta sumri að hefjast handa um framkvæmd samgönguáætlunar fyrir Norðurland. Þarna er auðvitað beðið um hið fyllsta, nógu mikið fjármagn til þess að framkvæma þessa áætlun á næsta sumri. En það er bara þetta, að það er ekki búið að ganga frá neinni Norðurlandsáætlun, og ég veit ekki, hvort það verður búið fyrir næsta sumar. Eftir því sem ég veit bezt, hefur verið unnið að þessari áætlun að undanförnu, og ég held, að starfinu sé ekki komið lengra en það, að í vegamálum séu komnir miklir óskalistar, sem ýmsir telja æskilegt, kannske nauðsynlegt í mörgum tilfellum, að komist inn á áætlunina. Þetta eru sem sé fyrstu drög að, þeim þætti, sem gæti heitið vegamálaáætlun Norðurlands, en engan veginn, að það sé komið nokkurt sköpulag á þann þáttinn. Þar er mikið starf áreiðanlega eftir. En hins vegar mun ekkert vera farið að líta á þáttinn um hafnarmál eða flugmál, sem eru tveir aðrir þættir, sem ættu auðvitað að vera í samgöngumálaáætlun Norðurlands. Ég held því, að það sé sannast mála, að samning samgönguáætlunar Norðurlands sé mjög skammt á veg komin. Á þessu stigi málsins er því ákaflega erfitt að mynda sér skoðun um það, hve mikils fjármagns þurfi að afla til framkvæmda henni. En hitt er alveg rétt, að þegar þessi áætlun liggur fyrir, þá er það verkefni ríkisstj. að sjá fyrir fjárútvegun til framkvæmda samkv. niðurstöðum hennar í tæka tíð. Og ætti varla að þurfa um það tillöguflutning, það tek ég fram, en mér finnst það ekkert óeðlilegt, að stjórnarandstöðu þm. beri það fram og taki munninn fullan. (LárJ: Það þarf ca. 150 millj. á næsta ári.) Þarf það? Er það sameiginleg niðurstaða? Ég held, að sumir hafi nú talið, að óskalistinn bara í vegunum einum væri upp á einn milljarð og 600 millj. (Gripið fram í: Það er rétt.) Það er rétt, já. En eitthvað þarf nú kannske að taka utan af því, til þess að við komumst niður á jörðina. Austfjarðavegáætlunin er upp á 300 millj. alls á fimm árum, 60 millj. framlag á ári. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það er hægt að koma fyrir l milljarði og 600 millj. kr. í vegaumbætur á Norðurlandi. En hvort hægt verður að rúma það á skynsamlegan hátt innan fjögurra eða fimm ára áætlunar, það læt ég ósagt og þykir ekki líklegt. Sem sagt, ég veit ekkert um það á þessari stundu, hvort samgöngumálaáætlun Norðurlands liggur fyrir fullmótuð og fullsköpuð á næsta sumri, en færi svo, þá þarf ríkisstj. að hafa fyrirhyggju til fjáröflunar, til þess að hægt sé að hefja framkvæmdir samkv. henni. Það kemur mér ekkert á óvart, og því lýsi ég yfir, að ríkisstj. telur það hlutverk sitt að afla fjár til vegaframkvæmda á áætlun Norðurlands, þegar frá henni hefur verið gengið.