25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í D-deild Alþingistíðinda. (4800)

910. mál, vísitölubinding húsnæðislána

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp., sem fram kemur á þskj. 83 og er svo hljóðandi:

Hverjar eru niðurstöður þeirrar könnunar, sem fram hefur farið á vegum Seðlabanka Íslands og Alþýðusambands Íslands fyrir tilstuðlan félmrn. varðandi vísitölubindingu húsnæðislána?

Hvenær má búast við, að ríkisstj. geri þær ráðstafanir varðandi afnám vísitölubindingar, sem boðaðar eru í málefnasamningi ríkisstj:?

Þessari fsp. er beint til félmrh.

Á s.l. vori urðu allmiklar umr. hér á landi, bæði í dagblöðum og víðar, um þessi mál, vísitölubindingu húsnæðismálalána, og olli þeim umr. upphaflega grein eða skýrsla Þóris Bergssonar tryggingastærðfræðings, þar sem hann hélt því fram, að vísitölubinding húsnæðismálalánanna væru hrein ólög, sem jaðraði við löghelgað okur, misrétti, sem skorað var á alþm. að leiðrétta þegar í stað. Núv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, ásamt tveim öðrum hv. þm. lagði þá þegar fram hér á hv. Alþ. till. til þál. um leiðréttingu á vaxtabyrði úr Byggingarsjóði ríkisins, og sagði m.a. í grg. með till., með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæða er til að ætla, að gildandi lagaákvæði um vísitölutengingu lána Húsnæðismálastofnunar ríkisins leiði og hafi leitt til óþolandi misréttis lántaka úr Byggingarsjóði ríkisins miðað við aðra lántaka. Enn fremur, að raunvextir bindi þeim, sem fengið hafa lán úr sjóðnum á tímabilinu frá því er lán voru tengd vísitölu, nú slíka fjárhagsbagga, að þeir fái ekki undir þeim risið og þurfi hér því þegar í stað að breyta vaxtakjörum að lágmarki svo, að vextir Byggingarsjóðsins verði a.m.k. aldrei hærri en útlánsvextir hanka. Í meðfylgjandi fskj. er mál þetta kannað til hlítar og komizt að niðurstöðu, sem telja verður óyggjandi að sanni hina brýnu nauðsyn úrlausnar þessa máls.“

Þetta er tilvitnun í grg. með þáltill. hæstv. félmrh. og tveggja annarra hv. þm. Tilvitnun í fskj. var grg. Þóris Bergssonar tryggingastærðfræðings, en hann sagði svo m.a. í skýrslu sinni, að um niðurstöður athugana hans verði ekki komizt hjá að nota mjög ljót lýsingatorð, svo ófögur væri myndin.

Í fréttatilkynningu félmrn. frá 28. maí s.l. var tilkynnt, að rn. hefði með hliðsjón af gildandi ákvæðum um lánskjör af íbúðalánum, sem urðu til í samningum við fulltrúa verkalýðsfélaga, farið fram á það við Seðlabanka Íslands, að hann tæki fyrir ríkisstj. hönd upp viðræður við Alþýðusamband Íslands um málið á þann veg að fá úr því skorið, hvort lánskjörin verkuðu á einhvern hátt öðruvísi en upphaflega var að stefnt, jafnframt að gera till. um hugsanlegar breytingar á þessum ákvæðum. Tekið var fram í fréttatilkynningunni, að svo sýndist, að nefndur tryggingastærðfræðingur hefði beitt röngum aðferðum við útreikninga sína, sem leiddu til villandi niðurstöðu. Þessi mótbára, ef mótbáru skyldi kalla, dugði þó skammt í því fjaðrafoki, sem þyrlað var upp í kosningabaráttunni nú í vor. Útreikningar þessara sérfræðinga stönguðust mjög á, en undir það skal tekið og var tekið af öllum réttsýnum og sanngjörnum mönnum, að ef þessi lánskjör leiddu til okurvaxta og augljóss misréttis, þá væri brýn nauðsyn á því að gera þar skjóta leiðréttingu á. Ég undirritaður var einn þeirra, sem tók undir, að þessarar leiðréttingar væri þörf, með þeim fyrirvara að sjálfsögðu, að athugun og réttir útreikningar leiddu það ranglæti í ljós.

Með hliðsjón af eindregnum stuðningi hæstv. núv. félmrh. við mál þetta á sínum tíma, með tilliti til málefnasamnings ríkisstj., þar sem loforð er gefið um afnám þessarar vísitölubindingar, og með það í huga, að hálft ár er nú liðið síðan Seðlabanka Íslands og Alþýðusambandi Íslands var í alið að gera úttekt á málinu, þá er nú spurzt fyrir um álit og niðurstöður og ákvarðanir.