25.11.1971
Sameinað þing: 17. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í D-deild Alþingistíðinda. (4802)

910. mál, vísitölubinding húsnæðislána

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svar hans varðandi fsp. mína. Ég skal játa, að ég átti von á því, að hann gæfi hér gleggri og fyllri upplýsingar um það, hvernig þessi mál stæðu nú, með hliðsjón af því, hversu langt er um liðið síðan félmrn. bað um, að þessi könnun færi fram, svo og með hliðsjón af því, hversu einlægur og ákafur stuðningur hans m.a. var fyrir skjótri lausn á þessu máli.

Það kemur fram í svari ráðh., að Seðlabankinn eða fulltrúar Seðlabankans höfðu skilað grg. eða skýrslu til rn. með bréfi dags. 23. sept. s.l., en nú aðeins fyrir nokkrum dögum síðan hefði borizt grg. frá Alþýðusambandinu. Enda þótt ég sé ekki að gera því skóna, að sú grg. hafi borizt fyrr en ella vegna þess, að þessi fsp. var borin hér fram á hinu háa Alþingi, þá neita ég því ekki, að sá grunur læðist að mér, og þó ekki væri nema þess vegna, þá held ég, að full ástæða sé til þess að bera fram slíkar fsp., jafnvel þó að ýmsir hæstv. ráðh. kunni að móðgast út af slíkum fsp. frá okkur óbreyttum þm., eins og hér kom fram fyrr í dag.

Ég hafði haldið, að það væri mjög heppilegt og nauðsynlegt, að ráðh. upplýsti, þó ekki væri nema í mjög stuttu máli, hvað kæmi fram í skýrslu Seðlabanka Íslands. Hann kvað sig fúsan til þess, ef um það væri beðið, og ég vil eindregið fara fram á það, að hann gefi þær upplýsingar, þó ekki sé nema að hann stikli á því stærsta um það, hvaða álit Seðlabankinn hefur á þessu mjög svo viðkvæma og umdeilda máli.

Eins og ég gat um í upphaflegri ræðu minni hér, þá var þetta mál blásið mjög upp nú í vor, gert að einu allra stærsta kosningamálinu. Þar var talað í mjög stórum orðum. Menn gáfu yfirlýsingar um okurvexti og okurlán, og þeir menn, sem ábyrgð báru á þessu, voru bornir hinum þyngstu sökum. Ég hef ekki haldið og vona, að enginn hafi sérstaklega átt sök á því, ef um óhagkvæm lánskjör væri að ræða, hvorki Alþýðusambandið, ríkisstj. né aðrir þeir aðilar, sem upphaflega stóðu að núverandi lánskjörum. Það hefur eflaust verið gert án þeirra vitundar eða vilja að setja slík ákvæði inn í núgildandi reglur, að það yrði óhagkvæmt lántakendum. Enginn vafi er á því, að þegar þessi ákvæði voru sett inn fyrir tilstuðlan m.a. launþegasamtakanna, þá var það hald manna, að þetta gæti komið þeim, sem tækju lán, til góða, og enginn sá fyrir þá verðbólgu og þær verðlagshækkanir, sem urðu síðar og leiddu til þess, að lánskjörin urðu óhagkvæmari en ella. Hvort hér er hins vegar um að ræða okurlán og okurvexti, er annað, sem ég hef sjálfur ekki getað dæmt um. Eins og ég sagði fyrr, stangast þar mjög á útreikningar sérfræðinga og þá greinir mjög verulega á. En með tilliti til þess, hversu mikið hagsmunamál er um að ræða, réttlætismál fyrir þær þúsundir aðila, sem hafa fengið lán hjá þessum sjóði, þá finnst mér það beinlínis til vansæmdar, óafsakanlegt af hálfu Alþýðusambands Íslands að hafa dregið það í hálft ár að skila skýrslu eða grg. um þetta mál. Þar að auki má geta þess, að annar af tveim þeim aðilum, sem Alþýðusambandið tilnefndi til þessarar athugunar, var margnefndur Þórir Bergsson tryggingastærðfræðingur, sem þá þegar, að því er virtist, hafði mjög kynnt sér þetta mál, hafði alla útreikninga á reiðum höndum, og þess vegna er það óskiljanlegt, hversu mjög það hefur dregizt úr hömlu, að hann og sá maður, sem með honum var skipaður til þess ama, skiluðu sínum skýrslum og upplýsingum til rn.

Ég skal engan dóm leggja á þær fullyrðingar, sem í þessu máli hafa verið viðhafðar. Ég vil ekki leggja neinn dóm á það, sem kemur fram í grg. hæstv. félmrh., sem fylgdi till. til þál., till. frá síðasta þingi, ummælum um óþolandi misrétti lántakenda, þar sem hann segir, að það hafi verið óyggjandi niðurstaða, að leysa þyrfti þetta mál á þann veg, að vaxtagreiðslur yrðu bættar og vísitölubinding lækkuð eða lagfærð og jafnvel afnumin. Ég skal ekki leggja neinn dóm á þessar fullyrðingar, en mér finnst það vera eitt stærsta og brýnasta málið hjá núverandi valdhöfum að grípa til skjótra, tafarlausra aðgerða í þessu máli, ef þessar fullyrðingar eiga við rök að styðjast.